Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:39:47 (2394)

1995-12-21 17:39:47# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst að mælirinn sé fullur og að það hljóti að vera einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða minni hlutanum og stjórnarandstöðunni. Mér finnst stjórnarandstaðan hafa sýnt meiri hlutanum mikla þolinmæði í hverju stórmálinu á fætur öðru sem kemur inn í þingið og hér hafi fengið að fara í gegn stórt mál eins og bandormurinn á tiltölulega stuttum tíma.

Virðulegi forseti. Mér finnst að lýðræðinu sé virkilega misboðið í þinginu. Á þeim árum sem ég hef setið hér á þingi hef ég sjaldan upplifað að í svona stóru máli þar sem verið er að biðja um einn milljarð í ríkisábyrgð skuli því vera neitað að málið verði tekið til efnislegrar umfjöllunar í efh.- og viðskn. Þetta er fáheyrt. Ekki síst í ljósi þess að hér er því haldið fram að 300 millj. af þessum eina milljarði muni falla á ríkissjóð með tíð og tíma. Ég minnist þess þegar ég var í ríkisstjórn að þetta mál var rætt. Það 50 millj. kr. framlag sem ríkissjóður lagði þá fram var undir þeim formerkjum og skilyrðum að ekki kæmu til meiri peningar í þetta verkefni úr ríkissjóði og ekki þyrfti að koma til nein ríkisábyrgð. Þetta er staðfest nú síðast í febrúarmánuði af hæstv. samgrh. þar sem hann segir í ræðu í þinginu að ekki sé gert ráð fyrir neinni ríkisábyrgð í þetta verkefni. En maður heyrir það á stjórnarliðum að þeir eru meira að segja hissa á þessari málsmeðferð og höfðu ekki séð þetta eða búist við þessu máli inn í þingið fyrr en það birtist í þinginu í gær. Maður heyrir líka að þeir sem skrifa upp á tillöguna hafa raunverulega verið dregnir til þess. Virðulegi forseti. Þetta er alveg einsdæmi.

Fjöldi þingmanna hefur komið í ræðustól með þá ósk að þetta mál verði tekið til efnislegrar umfjöllunar. Hæstv. samgrh. hefur komið í ræðustól og ég er raunverulega engu nær eftir ræðu hans. Mér finnst fleiri spurningar hafa vaknað í mínum huga eftir ræðu hans en áður. Ef ekki verður orðið við þeirri ósk, virðulegi forseti, að gera hlé á umræðum þannig að nefndarmenn í efh.- og viðskn. geti fjallað eðlilega um málið þá hlýt ég a.m.k. fyrir hönd flokks míns að óska eftir því að gert verði hlé á fundum til þess að þingflokkar geti þá rætt þetta mál og þá stöðu sem hér er komin upp. Það eru takmörk fyrir því og ég endurtek það, virðulegi forseti, hvað hægt er að misbjóða lýðræðinu í þessum þingsal.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur meiri hluta en hún verður að sýna minni hlutanum lágmarkskurteisi með því að taka þetta mál til efnislegrar umfjöllunar.