Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:48:26 (2399)

1995-12-21 17:48:26# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé eftir að það hefur komið fram hjá hv. formanni efh.- og viðskn. að hann mun boða til óformlegs nefndarfundar að forseti skeri úr um muninn á óformlegum og formlegum nefndarfundum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að nefndarmenn í efh.- og viðskn. viti hvaða rétt þeir hafa á slíkum fundi. Hafa þeir þann rétt t.d. á slíkum fundi að kalla til aðila sem þeir telja nauðsynlegt að kalla til til þess að fjalla um málið? Þó ég eigi ekki sæti í efh.- og viðskn., þætti mér t.d. alveg nauðsynlegt að kalla fyrir fulltrúa frá fjmrn., ráðuneytisstjórann og jafnvel fjmrh. sjálfan. Fjmrn. ber ábyrgð á þessum ríkisábyrgðum og það er nauðsynlegt að fá fram skoðanir þeirra og afstöðu í þessu máli og svör við spurningum sem brenna á vörum okkar nokkurra hér inni. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að forseti skeri úr um muninn á formlegum og óformlegum nefndarfundi og hvaða rétt einstakir nefndarmenn hafa á slíkum fundi. Ég held að það væri einfaldast til að greiða fyrir málinu að forseti beitti sér fyrir því að um formlegan nefndarfund væri að ræða og beini því til forseta.