Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 20:58:55 (2412)

1995-12-21 20:58:55# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[20:58]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995 frá minni hluta fjárln. Þetta er stutt nál. og vísað er til fyrra álits, frá 2. umr.

Það hefur orðið veruleg hækkun á fjárheimildum frv. Við 2. umr. var gerð grein fyrir nokkrum veigamiklum atriðum sem þá þegar var ljóst að áttu eftir að auka fjárlagahallann, t.d. málefni Sjúkrahúss Reykjavíkur og Sólheima í Grímsnesi. Þar hafa nú bæst við beiðnir um auknar fjárheimildir.

Við 2. umr. voru afgreiddar tillögur um auknar fjárheimildir upp á 5,3 milljarða kr. Eftir nána yfirferð og athugun beiðna milli umræðna hafa verið afgreiddar fyrir 3. umr. hækkanir um 522,9 millj. kr. þannig að halli fjárlaga 1995 verður því enn meiri en búist var við og heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs verður með viðbótinni u.þ.b. 31,4 milljarðar kr.

Þau atriði sem hafa komið minni hluta nefndarinnar mest á óvart er langur listi óuppgerðra skuldbindinga ríkissjóðs, allt að 21 ári aftur í tímann eða til ársins 1974. Hér er vísað til tillagna um 6 millj. kr. framlag til Hins íslenska bókmenntafélags á fjáraukalögum fyrir árið 1995, en þar að auki er gerð ný tillaga um 12 millj. kr. framlag á fjárlögum 1996 til sama aðila. Um það er svo sem ekki meira að segja, en svona geta hlutirnir verið.

Minni hlutinn áréttar þá skoðun sína að fjárvöntun, sem löngu er vitað um, eigi að koma fram með rökstuddum beiðnum strax og hún liggur fyrir. Vísað er til álits Ríkisendurskoðunar, sem gaf umsögn um frumvarpið, og þeirra réttmætu ábendinga sem í þeirri umsögn eru. Mikilvægt er að fram komi hvers vegna útgjaldatilefni voru ekki séð fyrir þegar fjárlög ársins voru afgreidd þannig að ganga hefði mátt frá fjárheimildum við fjárlagaafgreiðsluna.

Einstakar tillögur, sem settar eru fram á sérstöku þingskjali, eru að fjárhæð allt frá 600 þús. kr. til 150 millj. kr.

Minni hlutinn vísar til nefndarálits við 2. umr. um fjáraukalög 1995 og áskilur sér rétt til að styðja einstakar tillögur um viðbótarheimildir en mun að öðru leyti sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins.

[21:00]

Undir nefndarálitið rita eftirtaldir hv. þm.: Kristinn H. Gunnarsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Gísli S. Einarsson.

Það má kannski bæta því við að það ber að harma að menn skuli ekki treysta sér til að taka á uppsöfnuðum vanda í heilbrigðisgeiranum. Það er alvarlegasta vandamálið sem við er að etja í fjárlagagerðinni. Nú liggur fyrir að enn er óleystur a.m.k. 550 millj. kr. uppsafnaður halli bara hjá sjúkrahúsum Reykjavíkur og Ríkisspítölunum. Það er vandamál sem hefði átt að taka á og ljóst að þarf að leysa. Þetta tel ég eitt það alvarlegasta í málinu. Það blasir við áframhaldandi stór vandi á téðum sjúkrahúsum. Það mál hefur enn ekki verið leyst, hvorki með fjárlögum fyrir árið 1996 né með fjáraukalögum. Þegar við talsmenn minni hlutans í fjárln. ræðum þetta mál í fjárlagaumræðunni munum við koma að því að stærsti vandinn er heilbrigðismálin og skýra mál okkar betur.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.