Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:32:00 (2415)

1995-12-21 21:32:00# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:32]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins skýra fjarveru mína. Ég var þá í opinberum erindum í útlöndum og átti því ekki kost á að vera við umræðuna. En nú eru menn í nokkrum vanda því að nú þarf hæstv. ráðherra að hafa skoðun. Það er ekki nóg að hæstv. ráðherra lýsi því yfir að hún hafi fengið tvö gagnstæð álit frá lögfræðingum. Nú verðum við, hv. alþm., og við eigum kröfu á því og þeir sem eru að greiða þessi gjöld eiga kröfu á því að fá að vita hver er skoðun ráðherrans. Hvort telur hún sem ber ábyrgð á málinu, réttari túlkun þess lögfræðings sem telur að það vanti lagastoð fyrir þessari framkvæmd eða túlkun lögfræðingsins sem telur að lagastoðin sé fyrir hendi? Nú auglýsi ég eftir skoðun hæstv. ráðherra og auðvitað fer það eftir skoðun hæstv. ráðherra á málinu, hvort ég telji eðlilegt að óska eftir því að hæstv. forsrh. komi í salinn.