Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:34:01 (2417)

1995-12-21 21:34:01# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kastar tólfunum. Er virkilega ekki hægt að kreista upp úr þessum hæstv. ráðherra skoðun í einu einasta máli? Ég vek athygli á, herra forseti, um hvað er verið að spyrja. Það er undir í þessari umræðu hvort innheimta gjalds af fólki sem kemur veikt til að leita sér læknis er byggð á lögum eða ekki. Hæstv. ráðherra lýsir þessum vafa fyrir nokkrum dögum fyrir þingmönnum og hún er ekki enn tilbúin að segja sína skoðun á hvort svo sé eða ekki. Og við hvaða óvissu eiga þá greiðendur þessara gjalda að búa?

Svona framkoma, virðulegi forseti, nær ekki nokkurri átt. Það nær ekki nokkurri átt að ráðherra sem ber ábyrgð á slíkri innheimtu skuli lýsa því fyrir Alþingi að það leiki vafi á um það hvort lagastoð sé fyrir innheimtunni. Hæstv. ráðherra kemur síðan og segist hafa leitað upplýsinga hjá lögfræðingum, fengið tvær gagnstæðar niðurstöður en hafi ekki skoðun á því hvor sé rétt. Hvað á fólkið að gera? Hvað á fólk að taka til bragðs sem þarf að borga slík gjöld í framtíðinni þegar sjálfur yfirmaður málaflokksins getur ekki skýrt það fyrir löggjafarsamkundunni hvort hann telur að hann þurfi að leita til löggjafans til þess að fá stoð fyrir innheimtu sem hann ber ábyrgð á eða ekki?

Ég verð að segja það alveg eins og er að oft hef ég kynnst skrýtnum hlutum en aldrei neinu þessu líku. (Gripið fram í: Áttu við formann fjárln.?) Virðulegi forseti. Ef framkvæmdarvaldið ekki veit hvort þarf að leita til löggjafans til að fá stuðning fyrir aðgerðum sínum eða ekki, hvar erum við þá stödd?