Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 21:36:48 (2418)

1995-12-21 21:36:48# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[21:36]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Þar sem hv. 8. þm. Reykn. fór fram á það að ég skýrði afstöðu mína til þess hvernig standa ætti að lausn fjárhagsvanda heilsugæslu Suðurnesja á Sjúkrahúsi Suðurnesja, þá er mér ljúft að gera það hér. En á því minnisblaðið sem hann nefndi í sinni ræðu, þá stendur í seinustu málsgreininni:

,,Í ljósi tillagna tilsjónarmanns, skýrslu Hagsýslu ríkisins um einingasamanburð á kostnaði heilsugæsustöðva og skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur sjúkrahúsa eru aðilar sammála um að fram fari sérstök athugun á rekstrarfjárveitingum til sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar 1995 og 1996 og verði lokið eigi síðar en 1. október 1996.``

Það er því minn skilningur að á grundvelli þessarar málsgreinar fari fram þessi athugun. Hún byggist á því er fram kemur í þeim skýrslum sem í málsgreininni eru nefndar sem er í meginatriðum að fjárveitingar til þessara stofnana hafi verið ónógar á undanförnum árum. Í fjáraukalögunum er gert ráð fyrir því að 75 millj. kr. verði notaðar m.a. til þess að leysa vanda Sjúkrahúss Suðurnesja og eins og fram hefur komið þá er í brtt. við frv. til fjárlaga um að ræða fjárveitingu til heilsugæslustöðvarinnar. Ég held að þessi tilvitnuðu orð og mín orð í því framhaldi ættu að skýra afstöðu mína til málsins og ég vona að okkur takist á þessu tímabili að leysa úr vandanum svo að viðunandi sé fyrir reksturinn og íbúa svæðisins.