Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 23:06:27 (2438)

1995-12-21 23:06:27# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[23:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar skiljanlegt að hv. þm. reyni að drepa málum á dreif, ekki síst eftir þær umræður sem urðu í dag um svokölluð Hvalfjarðargöng. Það er gamalt bragð þegar menn skammast sín fyrir flokksbræður sína að grípa til þess bragðs að reyna að drepa málinu á dreif með þeim hætti sem hv. þm. hefur gert. (SvG: Hvaða yfirlýsing er nú þetta?)

Ýmsir þeir sem styðja það að framkvæmdarvaldið ráði öllum málum og þykir slæmt að framkvæmdarvaldið hafi ekki eitt vald yfir öllu saman, hata orðið ,,gerðardómur``. Eins og fram kom í máli hv. þm. varð samkomulag, eins og oft vill verða í málum og við þekkjum sem erum löglærðir, um það að gerðardómur skilaði niðurstöðu sem báðir samningsaðilar yrðu bundnir af. Þetta er að sjálfsögðu miklu betri aðferð en stundum hefur verið notuð hjá framkvæmdarvaldinu eins og t.d. þegar fulltrúar þess semja án þess að tala við þriðja aðila. Ég minni á t.d. mál eins og Kirkjuferjuhjáleigumálið sem hv. þm. ætti að þekkja því að þar átti flokksbróðir hans í hlut.

Það skal tekið fram að þingmönnum hefur að sjálfsögðu gefist kostur á að kynna sér allt málið og ég get ekki séð að það sé neitt bogið við þetta. Það eru að sjálfsögðu dylgjur að halda því fram að þetta séu menn úr sama stjórnmálaflokki því að fyrir síðustu kosningar mynduðu gerðardóminn meðal annarra lögmaður sem áður var aðstoðarmaður forsrh. úr Framsfl., sem þá var í stjórnarandstöðu.

Það er einnig alkunna, virðulegi forseti, að ríkislögmaður ræður til sín menn ásamt ráðuneytum sem ekki eru starfandi hjá ríkislögmanni. Ég sé ekki og ég hef kynnt mér málið, að þetta sé neitt öðruvísi en mál sem eiga sér rætur í deilum tveggja aðila. Framkvæmdarvaldið verður að sjálfsögðu að sætta sig við niðurstöður gerðardóms ef um það hefur verið samið að hlíta niðurstöðum hans.