Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 23:58:38 (2449)

1995-12-21 23:58:38# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[23:58]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 8. þm. Reykn. vil ég segja að auðvitað hafa engin skilyrði verið sett. Það er misskilningur ef hann hefur skilið mín orð þannig að um það væri að ræða. Ég tók einmitt fram í ræðu minni fyrr í kvöld að í fjáraukalögum, sem við erum að fjalla um núna einmitt í þessari umræðu, eru auðvitað fyrstu merki þess að meiri hluta fjárln. er mikil alvara með að finna lausn á málefnum Sjúkrahúss Suðurnesja með því að leggja til 35 millj. kr. aukafjárveitingu á fjáraukalögum til heilsugæslustöðvarinnar. Hún er auðvitað hluti af þessum rekstri. Síðan er gert ráð fyrir að framlög komi úr potti upp á 75 millj. kr. til þess sjúkrahúss. Það er ekki sanngjarnt af hans hálfu að ætlast til þess á þessari stundu að um það liggi fyrir niðurstaða. Það liggur hins vegar fyrir vilji meiri hluta fjárln. til að vinna að málum sjúkrahússins. Ég tel að með tillögum sem við höfum lagt fram, bæði í fjáraukalögum og fjárlögum sem verða vonandi innan skamms til umræðu, sé það sýnt í verki á hvaða leið við viljum vera í þessu máli, þ.e. á þeirri leið að finna lausn á málefnum Sjúkrahúss Suðurnesja. Ég er sannfærður um það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mun koma í það lið sem vill vinna að þessu máli. Ég vonast til þess að hv. þm. hætti þessari pólitísku leikfimi sem hann hefur iðkað hér á síðkvöldi og gangi til liðs við okkur hv. þm. Jón Kristjánsson sem höfum svo sannarlega reynt að finna lausn á þessu máli.