Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:07:02 (2480)

1995-12-22 11:07:02# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í gærkvöldi um kvöldmatarleytið fékk ég í hendur bréf frá úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, skipuð af ráðherra samkvæmt tilnefningum þriggja aðila, þ.e. Hæstaréttar, landlæknis og Sambands ísl. sveitarfélaga. Aðdragandi þess sem hér verður reifað í örstuttu máli er þinginu að nokkru kunnugt.

Ég sendi stjórn Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar athugasemdir vegna starfsleyfis fyrir Ísal þann 20. október sl. með vísan til mengunarvarnareglugerðar. Meiri hluti stjórnar Hollustuverndar vísaði athugasemdum mínum frá á þeim forsendum að ég ætti ekki kærurétt i málinu. Minni hluti stjórnar Hollustuverndar var hins vegar ósammála þessari niðurstöðu og gerði um það sérstaka bókun. Þennan úrskurð meiri hlutans sendi ég samdægurs til áðurnefndrar úrskurðarnefndar. Nefndin kemst í úrskurði sínum frá 18. desember sl. að sameiginlegri niðurstöðu og hér kemur örstutt tilvitnun í niðurstöðuna sem alþingismenn hafa fengið á borð sín:

,,Áður en stjórn Hollustuverndar ríkisins úrskurðaði í máli þessu bar henni samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að kynna kæranda álitsgerð Eiríks Tómassonar prófessors og gefa honum kost á að tjá sig um efni hennar. Þar sem það var eigi gert ber að ógilda hinn kærða úrskurð og leggja fyrir stjórnina að taka kærumál þetta fyrir að nýju og fjalla efnislega um athugasemdir kæranda, enda verður framkoma stofnunarinnar gagnvart kæranda í þessu sérstaka máli eigi túlkuð á annan veg en þann að hún hafi í reynd viðurkennt kæruaðild hans.``

Úrskurðarorð nefndarinnar eru síðan eftirfarandi: ,,Framangreindur úrskurður meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 2. nóvember 1995 er úr gildi felldur og ber stjórninni að taka mál þetta til úrskurðar að efni til.``

Virðulegur forseti. Mér virðist staða málsins að felldum þessum úrskurði vera í aðalatriðum þessi:

Starfsleyfið sem hæstv. umhvrh. gaf út 7. nóvember sl. er nú skilyrt. Ráðherra gaf starfsleyfið út að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins án þess að stjórn stofnunarinnar hefði um þær fjallað. Stjórn Hollustuverndar ber samkvæmt úrskurðinum að fjalla efnislega um athugasemdir mínar. Leiði sú umfjöllun til annarrar efnislegrar niðurstöðu en fyrri tillögur sem ráðherra fékk í hendur, getur þurft að breyta starfsleyfinu. Þessi niðurstaða er mjög verðmæt í almennu samhengi. Tilraun meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins til að losna undan ábyrgð með því að komast hjá því að taka efnislega á málinu og hafna því að ég hafi rétt til athugasemda hefur verið hrundið. Almannarétturinn í umhverfismálum hefur styrkst verulega við þessa niðurstöðu.

Lögfræðiálitið sem meiri hluti stjórnar Hollustuverndar óskaði eftir og vísaði til í niðurstöðu sinni hefur ekki reynst bitastætt. Þessa álitsgerð fengu hv. þingmenn í hendur sem fylgiskjal fyrr í vikunni.

Lagadeild Háskólans er þar í bréfhausnum og prófessor við lagadeildina undirritar. Best er að hafa sem fæst orð um þá leiðsögn.

Mér þótti rétt, herra forseti, að greina Alþingi frá þeirri nýju stöðu málsins sem nú liggur fyrir að því er varðar starfsleyfi álbræðslunnar í Straumsvík og um leið aðildarrétt almennings að þessum mikilsverða þætti umhverfismála.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa tækifæri til þessa nú í miklum þingönnum.