Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:15:42 (2483)

1995-12-22 11:15:42# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:15]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Að mínum dómi snýst þetta mál ekki um starfsleyfi álversins heldur um rétt almennings til þess að gera athugasemdir. Í úrskurði þeim sem hér hefur verið til umræðu eru afar merkilegar upplýsingar, ekki síst þær að stjórn Hollustuverndar ríkisins virti ekki lagaskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, um að kynna kæranda álitsgerð Eiríks Tómassonar prófessors og gefa honum kost á að tjá sig um efni hennar eins og segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Hæstv. forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi úrskurður er kominn. Ég lít á þetta sem ákveðinn sigur og ákveðna vörn fyrir almenning í landinu og rétt allra til þess að gera athugasemdir við fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda. Ég vil koma því á framfæri hér að fulltrúi Kvennalistans í stjórn Hollustuverndar, Kristín Einarsdóttir, var mjög ósátt við þessa málsmeðferð. Hún gerði bókun í stjórninni sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta. Hún sagði:

,,Það er fráleit niðurstaða að stjórn Hollustuverndar ríkisins vísi frá athugasemdum við starfsleyfistillögur fyrir Ísal sem henni hafa borist. Sú niðurstaða er í engu samræmi við málsmeðferð til þessa. Stjórninni ber að taka erindi til efnislegrar afgreiðslu svo fljótt sem auðið er.``

Það hefur nú verið staðfest að hennar skoðun var rétt og vonandi verður þetta fordæmi fyrir aðrar stjórnir ríkisstofnana og annarra sem koma að slíkum málum. Lokaniðurstaða mín í þessu máli er sú að það er greinilegt að það þarf að kynna stjórnsýslulögin miklu betur og það ekki síst fyrir þeim aðilum sem eru kjörnir af Alþingi til þess að verja hagsmuni ríkisins og almannahag.