Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:17:57 (2484)

1995-12-22 11:17:57# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:17]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að óska hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni til hamingju með þann sigur sem hér liggur fyrir. Ég óska einnig Alþingi til hamingju með þennan sigur vegna þess að með þessari niðurstöðu hefur réttur almennings til áhrifa í umhverfismálum verið styrktur mjög verulega. Það er rangt sem hæstv. umhvrh. sagði áðan að þetta mál hafi snúist um það hvort hv. þm. gæti komið athugasemdum sínum á framfæri í umhvn. eða úr þessum ræðustól. Það kemur þessu máli ekki við. Þetta mál snerist um rétt almennings til að hafa áhrif á tiltekið mál og það er úrslitaatriði.

Með þessum úrskurði hafa orðið kaflaskipti í þeim málum vegna þess að úrskurðurinn segir: Allir Íslendingar eiga aðild að málinu. Íslendingar eiga allir sameiginlega andrúmsloftið sem við öndum að okkur og umhverfið í landinu. Það er niðurstaðan. Afstaða stjórnar Hollustuverndar ríkisins byggðist á áliti Eiríks Tómassonar prófessors. Því áliti er hafnað vegna þess að þar var verið að þrengja rétt almennings og þess vegna vísa ég túlkun hæstv. forsrh. á bug. Ég er algerlega ósammála henni, ég tel hana ranga.

Ég vil einnig láta það koma fram, hæstv. forseti, að ég tel að staða málsins sé einnig sú sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði grein fyrir áðan. Með þessum niðurstöðum hefur verið settur fyrirvari við starfsleyfið og hæstv. umhvrh. verður að taka á því máli með formlegum hætti. Hann getur ekki sagt að málið hafi þegar verið afgreitt. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir umhvrn. og yfirvöld umhverfismála í þessu sambandi að læra af þessum úrskurði og hætta að ýta út af borðinu pappírum sem þeim líkar ekki við.