Starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 11:20:19 (2485)

1995-12-22 11:20:19# 120. lþ. 77.91 fundur 162#B starfsleyfi fyrir álver í Straumsvík# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[11:20]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem hér hafa komið fram sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi það sem fram kom hjá hæstv. forsrh. Ég tel að hans ummæli séu á misskilningi byggð. Úrskurðarorðin kveða á um það með skýrum hætti að stjórn Hollustuverndar ríkisins ber að taka afstöðu til athugasemda minna að efni til. Þar fyrir utan hefur hann ekki virt andmælaréttinn. Ég gerði kröfur um hvort tveggja, aðalkrafan var spurningin um efnislega afstöðu. Hún er viðurkennd og jafnframt hitt sem ég greindi stjórn Hollustuverndar frá samdægurs, þ.e. að ég teldi niðurstöðu hennar markleysu vegna þess að hún virti ekki andmælaréttinn.

Hæstv. umhvrh. sagði að það væri í rauninni búið að fjalla um þetta efni af ráðuneytinu vegna þess að ég kærði niðurstöðu skipulagsstjóra í málinu. Það er mikill misskilningur að hæstv. ráðherra geti farið að bera það ferli fyrir sig. Það er reist á sérstökum lögum. Undirbúningur starfsleyfisins er samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnareglugerð og byggir á því. Þar ber Hollustuvernd ríkisins að skila inn tillögum. Þær tillögur liggja ekki fyrir. Það ber að taka efnislega á málinu og hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér undan því að líta á þau efni þegar þar að kemur, auk þess sem áframhaldandi ferli með frekari málskoti til úrskurðarnefndar liggur fyrir lögum samkvæmt. Það er því alveg ljóst að það er margt eftir í þessu efni. Starfsleyfið er skilyrt og breyta þar orð hæstv. ráðherra að mínu mati engu um það.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Það má segja eins og sagt var við Jón Hreggviðsson forðum: Það er ekki þitt mál. Stóra málið í þessu er sem sagt réttur almennings til athugasemda um umhverfismál í víðu samhengi sem hér hefur fengist viðurkenndur og stórfelld breyting orðið með þessum úrskurði í þeim efnum.