Fjárlög 1996

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 12:56:52 (2516)

1995-12-22 12:56:52# 120. lþ. 77.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[12:56]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að minna á það þegar við ljúkum afgreiðslu fjárlaga á þessu ári að þessi þjóð er sokkin í skuldir. Við borgum í afborganir og vexti til erlendra lánardrottna 35 milljarða kr. Það samsvarar öllum útgjöldum menntmrn., félmrn. og dómsmrn. Þessi skulduga þjóð er þess vegna fyrst og fremst í vandræðum fjárhagslega vegna fortíðarvandans.

Það er ótímabært að ræða um niðurstöður fjárlaga næsta árs en Þjóðhagsstofnun spáir því að viðskiptajöfnuður snúist til verri vegar úr jákvæðum í neikvæðan upp á um það bil 7 milljarða. Þess vegna hefði þurft að taka á í ríkisfjármálum og beita þessu stjórntæki í átt til ráðdeildar og aðhaldssemi. Það er tímanna tákn að þrátt fyrir stórauknar tekjur í ljósi aukins hagvaxtar hefur hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn mistekist þetta. Það eru stjórnarandstöðuflokkarnir sem leggja fram tillögur um sparnað til þess að ná auknum jöfnuði í ríkisfjármálum. Þetta frv. dugar ekki og ég greiði þess vegna ekki atkvæði.