Frumvarp um orku fallvatna og jarðhita

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:07:17 (2876)

1996-02-12 15:07:17# 120. lþ. 88.1 fundur 179#B #, HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Nú er ekki kveðið eins fast að orði og af sömu bjartsýni af hæstv. ráðherra og í nóvember sl., hvorki varðandi starfshópinn né lögfestingu að því er varðar þessi mikilsverðu mál. Það er sannarlega áhyggjuefni, ekki síst í ljósi yfirlýsinga á fyrri þingum. En ég vil nefna að ríkisstjórnin, sem mynduð var árið 1991, batt það fastmælum í stjórnarsáttmála að á 115. löggjafarþingi skyldu koma frv. um þessi mál sem síðan sáust aldrei allt stjórnartímabilið því að ekki tókst samstaða um málið þótt bundið væri í stjórnarsáttmála. Þetta er mikið áhyggjuefni og ég vil hvetja hæstv. iðnrh. til að ýta fast á eftir í þessum efnum því að málið er opið samkvæmt samningi hvernig farið sé með náttúruauðlindir okkar. Það er afar brýnt að vinna málið. Iðnn. hefur frv. fyrirliggjandi sem hafa verið margflutt á Alþingi um að lýsa þessi auðæfi þjóðareign. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra ýti fast á eftir.