Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 14:53:21 (3074)

1996-02-15 14:53:21# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[14:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er góðra gjalda vert að þetta frumvarp er fram komið og það hefði gjarnan mátt sjást fyrr á þinginu. Málið var til meðferðar á 117. og 118. löggjafarþingi og var þá búið að vinna mikið í því og það var nánast á lokastigi fyrir þingslit á 118. löggjafarþingi en þó tókst ekki að koma málinu þá í höfn og afgreiða það. Nú er það sem sagt komið í þriðja sinn í þessari umferð ef svo má segja fyrir Alþingi.

Ég tek fram við 1. umr. að ég styð allt það sem til bóta horfir í sambandi við reykingavarnir og það markmið að draga úr reykingum með skynsamlegum hætti að sjálfsögðu og skoða þetta mál út frá því sjónarmiði. Ég heyrði á hæstv. heilbrrh. fljótlega eftir að ráðherra kom til starfa í ríkisstjórn sl. sumar að hún hefði áhuga á því að þoka þessum málum fram og taka jafnvel stórt á í þessum efnum. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að þess sjái stað sérstaklega í frv. en ég vil ekki leggja neitt mat á það og ætla hæstv. ráðherra ekki neitt annað en gott í þessum efnum. Hins vegar bar það við þegar sagt var frá flutningi þessa máls að það væri á leið inn í þingið að það hefðu verið nokkuð skiptar skoðanir um viss atriði málsins hjá stjórnarflokkunum. Ég tel æskilegt að það komi fram við 1. umr. málsins hvaða atriði það eru sem hæstv. ráðherra hefði viljað sjá með öðrum hætti inni í þessu frv. Það getur varla verið goðgá að óska eftir upplýsingum um það þannig að þingið geti skoðað þau efni og þá ekki síður þau atriði sem tóbaksvarnanefnd, sem samkvæmt greinargerð hefur komið að þessu máli, lagði til upphaflega varðandi frv. og hugsanlega aftur við endurskoðun málsins fyrir framlagningu núna, hvaða efnisatriði það eru sérstaklega, sem skortir á að séu með í þessu frv., ef þar ber á milli sem mér sýnist að nokkrar líkur séu á að einhver atriði hafi ekki komið með inn í frv. sem tóbaksvarnanefnd og hugsanlega aðrir sem voru að undirbúa málið fyrir ráðuneytið og hæstv. ráðherra lögðu til.

Þegar litið er á þetta mál og borið saman við gildandi lög frá 1984 um tóbaksvarnir finnst mér því miður ekki hægt að segja að hér sé um metnaðarfullt þingmál að ræða. Mér finnst að það sé ekki tekið á með þeim hætti í frv., ekki að öllu leyti eins og æskilegt hefði verið. Það kemur skýrt fram í greinargerð að á sama tíma og við Íslendingar stigum býsna myndarlegt skref árið 1984 með lögfestingu frv. um tóbaksvarnir og þá í alþjóðlegum samanburði skortir talsvert á að við séum á svipuðu róli þegar litið er til annarra landa og samanburðar við þau lönd sem fremst standa í að andæfa gegn tóbaksnotkun, reykingum og afleiðingum þeirra sem og áhrifum á þá sem reykja ekki. Það er ekki síst réttur þeirra sem huga þarf að fyrir utan almennt heilsutjón sem hlýst af reykingum og þann gífurlega kostnað sem af tóbaksnotkun leiðir fyrir samfélagið.

Ég hef farið lauslega yfir á þeim stutta tíma sem hefur verið til umráða af minni hálfu til að skoða þetta mál frá því að frv. kom inn í þingið, ég held í gær. Ég hef borið það í fljótheitum saman við gildandi lög og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir því í ræðu sinni. Því miður er ekki mjög margt eða róttækt sem lagt til til breytingar. Ég held að þingnefnd sem fær málið til athugunar þurfi að skoða það út frá því sjónarmiði að stíga stærri skref í þessum efnum og færa inn í frv. ákvæði sem er farið að beita með árangri annars staðar og sem getur að bestu manna yfirsýn horft til heilla og náð því markmiði sem menn setja sér með þessu frv.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra greini okkur frá því hvað hún hefði viljað sjá, hvaða skref hún hefði viljað sjá stigin stærri í þessum efnum. Ég sé t.d. ekki það markmið sem var orðin samstaða um að ég held á næstsíðasta þingi í sambandi við vinnu að málinu um að marka stefnu um það að hækka verð á tóbaki um ákveðna prósentuupphæð á tilteknu árabili eða fram til ársins 2000 um 10% árlega umfram almennt vöruverð. Í frumvarpinu á þskj. 447 frá síðasta ári er gert ráð fyrir því að ákvæði til bráðabirgða V orðist þannig:

[15:00]

,,Árin 1995--1999 skal verð á tóbaki hækka um a.m.k. 10% árlega umfram almennt vöruverð.``

Þetta er ekki að finna í neinu bráðabirgðaákvæði að ég best fæ séð í sambandi við þetta þingmál.

Sumar af þeim breytingum, svo að ég víki að einstökum breytingartillögum við gildandi lög, eru ekki stórar í sniðum og nánast áhorfsmál hvort þær eru tækar til þess að fara að breyta lögum, en ég vil samt ekki fara að lýsa neinni andstöðu við þær. Þar á ég t.d. við fyrsta atriði í 1. gr. laganna, breyting á 6. gr. Þar á að breyta skráningu á aðvörun í að skráðar séu viðvaranir. Þetta er svo smávægilegt atriði að manni finnst að það er tæpast að það standist mál sem breyting á lögum. En eftir á að standa það sem lesa má í 6. gr. laganna, þ.e. að tala áfram um aðvörunarorð þótt breyta eigi hugtakinu fyrir sömu efnisgrein. Þetta er bara dæmi um það að sumt af þessu eru hrein smáatriði sem hér er verið að leggja til breytingar á.

Aðrar breytingar eru veigameiri sem betur fer. T.d. það sem varðar auglýsingar. Þar sýnist mér að horfi til bóta í sambandi við myndskreytingu, í sambandi við tónlistarmyndbönd og auglýsingu á tóbaksvörum og reykingum í tengslum við það.

Það er eitt atriði sem ég vil nefna í þessu sambandi sem ég hef orðið var við og fellur kannski undir þær breytingar sem hér er verið að gera. Í Fríhöfninni í Keflavík er selt tóbak og ýmis annar varningur. Þar eru réttar að mönnum umbúðir utan um það sem keypt er, gjarnan plastpokar með tóbaksauglýsingum. Það er það veganesti sem menn fá í þeirri verslun. Ég hef ítrekað gert athugasemdir við þetta á staðnum. Mér finnst þetta afar ósmekklegt og ég nefni þetta hér sem dæmi. Menn þurfa að átta sig á því að þetta þarf að afnema. Það er fráleit landkynning, ef svo má segja, að nota Camel sem einkennismerki fyrir þá sem koma inn í landið eða fara út úr landinu eða önnur slík vörumerki. Það er sem sagt víða verið að reyna að koma þessum varningi og áróðri á framfæri og alveg áreiðanlega þörf á því að spyrna þar við fótum. Ég tala nú ekki um þegar opinberir aðilar eiga hlut að máli.

Í 3. gr. frv. sem varðar 8. gr. laganna er verið að breyta aldursmarki. Þar eru menn með 17 ára aldursmark, aðeins breyting um eitt ár. Mér finnst þetta of skammt stigið. Ég hefði viljað sjá þarna 18 ára aldursmark ef menn á annað borð eru að breyta frá gildandi lögum. Það er að vísu sagt að miða eigi við að allir grunnskólanemendur falli undir þetta. Það eru sem sagt rökin fyrir því að velja 17 ára aldursmarkið. Það kann að vera að nokkuð sé fengið með. En jafnframt kemur fram að víða annars staðar, ég held í Bandaríkjunum og er þá að vísa til greinargerðar, er hærra aldursmark notað í sambandi við sölu og afhendingu á tóbaki til æskufólks. Ég bið því um að þetta verði skoðað með tilliti til þess að hækka þessi mörk.

Í 4. gr. frv. sem er breyting á 9. gr. laganna er verið að breyta ákvæðum sem varða kafla um takmörkun á tóbaksreykingum varðandi veitingahús og skemmtistaði. Mér finnst ekki nóg að gert í þeim efnum eins og þar er tillaga um. Það er aðeins kveðið á um að á þeim veitingastöðum þar sem megináhersla er lögð á kaffiveitingar og matsölu skuli þó ávallt vera reyklaus svæði ekki síðri en þau svæði þar sem reykingar eru leyfðar og tryggja skal að aðgangur að þeim liggi ekki um reykingasvæði. Undanþegnir eru þá veitinga- og skemmtistaðir samkvæmt þeim lagatexta sem áfram gildir. Er það virkilega svo að menn séu ekki metnaðarfyllri en það að ætla ekki að tryggja fólki á veitinga- og skemmtistöðum almennt að geta verið laust við tóbaksreyk, eða a.m.k. að hafa hann ekki alveg yfir sér. Mér finnst ótrúlegt að það skuli ekki koma fram tillögur við endurskoðun laganna sem taki á því efni og svolítið sérkennilegt af því að í skýringum við þessa grein er tekið fram að þetta gildi þó ekki, ef ég man rétt, varðandi ganga og snyrtingar á skemmtistöðum. En í aðalsal á allt að vera í einu reykhúsi ef ég hef lesið rétt í málið.

Orðalagið sem verið er að lögleiða í sambandi við kaffiveitingar og matsölu er með fyrirvaranum ,,megináhersla`` og sýnist þar vera nokkuð grátt svæði. Síðan á að haga þannig til, sem ekki er óeðlilegt, að þeir sem kjósa að sitja ekki í reykjarsvælu, tóbaksreyknum, þurfi ekki að ganga í gegnum reykhús á leið að borði sem á að vera reyklaust. Það gæti orðið kannski svolítið snúið og hætt við að þeim verði skákað út við dyr, sem næst inngangi. Mér sýnist því að þarna sé að mörgu að hyggja og þurfi að huga að þessu. Síðan kemur spurningin um stærð, þ.e. hversu stórt svæði er tekið fyrir í þessum efnum. Er það algerlega í sjálfsvald sett þeim sem rekur slíkan stað þannig að eitt eða tvö borð í 20 borða veitingasal geti nægt til að uppfylla skyldur laganna? Þá er orðið þröngt fyrir dyrum. Allt er þetta mælt út frá því að tryggja rétt þeirra sem ekki reykja til þess að þurfa ekki að verða fyrir mengun af tóbaksreyk. Og sá réttur á að vera ríkur.

Síðan kemur 5. gr. frv. sem kveður á um hvar tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar. Þar er áreiðanlega verið er að taka skref til bóta í vissum greinum. Í 2. tölul. er talað um opinberar samkomur innan húss sem einkum eru ætlaðar börnum eða unglingum. Er ekki hægt að taka á fleiru en opinberum samkomum fyrir unglinga? Er ekki hægt að hafa ákvæðið almennara þannig að það sé ekki takmarkað við það sem heita opinberar samkomur? Hvað eru opinberar samkomur og hvar eru mörkin?

Síðan kemur 3. tölul. Það er talað um framhaldsskóla og sérskóla. Er það svo að þetta sé allt á fríum sjó þegar kemur upp í háskóla? Af hverju eru háskólar sem opinberar stofnanir og sérstakt skólastig ekki tekið með í þessa löggjöf? Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra svaraði okkur um það efni. Síðan spyr ég varðandi heilsugæslustofnanir og sjúkrahús þar sem er verið að undanþiggja eða skapa möguleika fyrir sjúklinga í einhverjum tilvikum að geta reykt. Ég skal ekki hafa á móti því að það geti þurft að sýna þar ákveðna tilhliðrun af sanngirnisástæðum og heilsufarsástæðum hugsanlega. Auðvitað er þetta fíkn sem menn eru haldnir og kannski ekki á bætandi hjá þeim sem eru sjúkir að þurfa að taka á sig tóbaksbindindi. Maður hefur því ákveðinn skilning á þessu. En ég spyr um starfsfólk á þessum stofnunum. Er það þá fortakslaust að það sé verið að lögleiða það að reykingar séu óheimilar einnig starfsfólki á þessum stofnunum? Það finnst mér allt í lagi. Mér sýnist að ekki eigi annað að gilda um starfsfólk þessara stofnana en starfsfólk skólanna. Varla getur verið meiningin með því hér að undanþiggja kennara í sambandi við reykingar í skólum. Ég get ekki ímyndað mér það. Ráðherra hlýtur að kveða upp úr um skilning sinn á þessu og hvað fyrir ríkisstjórninni vakir með þessum flutningi.

Í 7. gr. frv. er verið að hækka svolítið þá tekjuöflun sem á að renna til tóbaksvarnastarfs sem á að geta gefið 20 millj. í stað 10 og það er góðra gjalda vert. En þegar farið er að vísa til þess að þær tekjur eigi m.a. að standa undir hugsanlegum rannsóknum, fer að þrengjast um aurana. Þetta er satt að segja allt of lág upphæð og brýn nauðsyn til að hækka þetta mark. Auðvitað er það siðferðilega sjálfsagt mál þegar ríkið notar þetta sem tekjulind með mikilli álagningu að taka frá það sem þarf til þess að standa fyrir tóbaksvarnastarfi og rannsóknum á afleiðingum reykinga í ýmsum greinum.

Í 8. gr. er bætt við stofnunum sem eiga að hafa eftirlit og það er ágætt. Ég veit ekki hvort við notum orðið ,,stofnun`` um heilbrigðisnefndir. Það er bara orðalagsatriði svo ég komi aftur að minni háttar máli, en ég bendi á það hér.

Ég hef, virðulegur forseti, vikið að fáeinum þáttum af mörgum sem ástæða væri til að ræða í sambandi við þetta mál. Tími minn er þrotinn þannig að fleiru verður ekki við bætt að þessu sinni. En ég vænti þess að hæstv. ráðherra veiti nú þegar eða síðar í umræðunni nokkra úrlausn varðandi þær fyrirspurnir sem ég hef borið fram.