Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:47:42 (3085)

1996-02-15 16:47:42# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst metnaður hæstv. ráðherra ekki vera sá sem ég vænti í sambandi við þetta frv. og þær breytingar sem gerðar hafa verið á því og eru mótdrægar hæstv. ráðherra að ég hélt. Ég bað hæstv. ráðherra að greina frá því hvaða atriði það væru sem færu á milli þessa frv. og þess sem hún hefði viljað sjá og sem tóbaksvarnanefnd og þær tillögur sem tóbaksvarnanefnd gerði við undirbúning þessa máls. Fátt var um svör.

Ég spurði hæstv. ráðherra um það hvort það bæri að skilja 5. gr. frv., sem er breyting á 10. gr. laganna varðandi grunnskóla, leikskóla, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús o.s.frv., þannig að reykingar væru fortakslaust bannaðar innan þessara stofnana einnig að því er varðar starfsfólk. Spurningin er hvort háskólar eigi ekki líka að vera reyklausir. Mér finnst það ekki nokkur rök að draga mörkin að því er ungt fólk varðar á milli 17 ára og tvítugs eins og það sé ekki ungt fólk sem þar er um að ræða. Ég veit t.d. að innan háskólans í Ósló var fyrir alllöngu orðið reyklaust. Hvort það var með lögum eða af eigin ákvörðun skal ég ekki fullyrða. En það er auðvelt að sækja fordæmin út fyrir Atlantsála í þessum efnum. Ég held að við ættum að reyna að halda eitthvað í þann orðstír sem við fengum þegar lögin um tóbaksvarnir voru sett 1984 þannig að við erum á allt öðru og lakara spori með þeirri endurskoðun sem hér liggur fyrir borið saman við það sem menn hafa tekið best á í þessum efnum.