1996-02-28 13:43:54# 120. lþ. 97.1 fundur 292. mál: #A ákvæði hegningarlaga er varða óviðeigandi ummæli um erlenda þjóðhöfðingja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég skynjaði það svo af orðum hæstv. ráðherra þó að ekki gangi beint fram af orðum hans að hann mundi kannski stuðla að því eða hjálpa til við að breyta umræddum lagaákvæðum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að láta reyna á þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi vék að sérstaklega og það fyrr en seinna.

Ég vek athygli á því að það getur háttað misjafnlega til varðandi afstöðu til þjóðhöfðingja. Þjóðhöfðingjum er ekki annað sameiginlegt en nafnið oft og tíðum. Sumir eru tákn, nánast í ætt við þjóðfána, þ.e. valdalausir þjóðhöfðingjar, kóngar og forsetar sem hafa ekki völd en hins vegar valdamiklir stjórnmálamenn sem standa fyrir umdeildum aðgerðum. Þarna gætu menn hugsanlega greint á milli ef mönnum sýndist svo.