Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:23:52 (3417)

1996-02-29 12:23:52# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir deilum svipuðum viðhorfum að því er varðar hið norræna samstarf og ég þakka henni fyrir að vilja ræða þetta frekar. Ég tel að það sé um hvort tveggja að ræða þegar hún spyr um ástæðurnar fyrir áhyggjum mínum. Meginástæðan er innganga Norðurlandanna þriggja í Evrópusambandið og sú stefna sem Evrópusambandið setur sínum aðildarríkjum varðandi utanríkismál. Hún er tilkomin í vaxandi mæli eftir breytingar á Evrópusambandinu með Maastricht-sáttmálanum þar sem utanríkismálin eru orðin Evrópusambandsmál formlega og í ríkari mæli en áður. T.d. talar eitt Evrópusambandsríki hverju sinni á alþjóðaráðstefnum fyrir hönd Evrópusambandsins og Norðurlandaþjóðunum innan hinnar gömlu samvinnu er á vissan hátt gert ómögulegt að koma sínum áherslum sameiginlega að vegna þess ramma sem Evrópusambandið hefur dregið.

Nú kann að vera að þetta eigi eftir að ganga enn þá lengra innan Evrópusambandsins. Um það vil ég ekki fullyrða. Enginn veit í rauninni hverju ríkjaráðstefnan næsta skilar og hver þróunin þarna verður. En áhugi margra er að dýpka samstarfið í Evrópusamstarfinu og í átt að ríkisheild, hversu langt sem þar verður gengið. Ég held að við þurfum að bregðast við þessu, þ.e. þeir sem ekki sjá það fyrir sér að Ísland eigi að verða aðili að Evrópusambandinu í framtíðinni. Ég vil að við reynum að varðveita þrátt fyrir allt samskipti þar sem það er raunsætt en bæta okkur upp það sem tapast með því að efla sjálfstæða íslenska utanríkisþjónustu og leggja í hana meira en minna til að við getum staðið á eigin fótum.