Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:30:33 (3665)

1996-03-06 19:30:33# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að ég hef ekki rýnt ítarlega í málið sem hér er til umræðu og ætla ekki að koma með stórar athugasemdir við það eins og það liggur hér fyrir. Þá á ég við bæði frv. En ég vil þó taka undir þær ábendingar sem fram hafa komið við umræðuna, m.a. frá hv. 17. þm. Reykv. að því er varðar starfsmannamálin. Það er afar mikilvægt að það sé gengið þannig frá hnútum að ekki sé hætta á að þeir séu á neinn hátt óeðlilega reyrðir að því er varðar réttindi starfsmanna og frágang á þeim málum öllum. Ég vil líkt taka undir það sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. að því er varðar spurninguna um stjórn fyrir þessa stóru stofnun. Það er vissulega mikið íhugunarefni hvernig á slíku máli skuli haldið. Ég tel að þær ábendingar sem hér hafa komið fram um að það sé mikil þörf á því að fara yfir þau efni út frá almennum sjónarmiðum þannig að ekki ráði nánast tilviljun eða viðhorf einstaks ráðherra sem situr á þeim tíma sem lög eru sett hvort gerð er tillaga um það að stjórn sé skipuð yfir stofnun eða ekki. Það blasir við að þarna háttar misjafnlega í einstökum ríkisstofnunum og það verður ekki séð að það liggi fyrir nein gild almenn sjónarmið sem leiðarljós í þeim efnum. Spurningin um þetta snertir ekki aðeins viðkomandi stofnun og hvernig á málum hennar er haldið heldur einnig uppbyggingu ráðuneytanna og styrk þeirra. Sú stefna hefur verið tekin upp sums staðar og í vaxandi mæli hér, að setja stjórn yfir ríkisstofnanir en ekki að leggja af stjórnir, ekki það ég man, ekki hin síðari ár. Stjórnir eru settar yfir stofnanir þar sem engar voru fyrir. Þetta á m.a. við um stofnanir á sviði orkumála svo dæmi sé tekið þar sem settar hafa verið stjórnir yfir stofnanir þar sem engar voru fyrir. Þetta eru áreiðanlega viðbrögð oft og tíðum tilkomin af því að ráðuneytin eru mjög veik. Þau eru óeðlilega veik til þess að halda utan um málefni viðkomandi stofnana, fyrir utan það að auðvitað geta verið gild almannasjónarmið sem ráða því hvort stjórn er sett yfir stofnun vegna þess m.a. að æskilegt er talið að Alþingi sem fulltrúi almannavalds hafi aðgang að málefnum viðkomandi stofnunar með einhverjum hætti. Og það hefur verið gert í mjög mörgum tilvikum. Þetta fer að nokkru leyti eftir eðli starfsemi. Það viðurkenni ég. Í sumum tilvikum getur verið eðlilegt að ráðherra skipi t.d. alla stjórnarmenn án tilnefningar, t.d. í fyrirtækjum sem eru í reynd í forsjá framkvæmdarvaldsins fyrst og fremst. En í öðrum tilvikum getur verið eðlilegt að Alþingi hafi þar íhlutunarrétt og skipi eða tilnefni eða kjósi fulltrúa í stjórn viðkomandi stofnunar.

Ég hvet til þess að á þessum málum verði tekið. Mér finnst að það færi vel á því að samgn. skoði þetta mál, jafnvel sérstaklega hvað varðar þessa stofnun, en eigi þá jafnframt hlut að því gagnvart þeim sem eðlilegt er að reyni að taka á þessum málum --- það verður nú að teljast Stjórnarráðið þótt Alþingi geti vissulega tekið það einnig upp og ekkert væri á móti því --- að það verði um þetta vélað og fjallað fyrr en seinna.

Ég er síðan eindregið þeirrar skoðunar sem hér kom fram í máli hv. 15. þm. Reykv. að þar sem um er að ræða að ráðuneyti skipa formenn stjórna eins og er mjög algengt, þá eigi tvímælalaust að skipta um eða losa þá skipan alltaf þegar um ráðherraskipti er að ræða, jafnvel að hafa það opið þó að ráðherraskipti verði innan sama flokks eins og stundum á sér stað vegna þess að það skiptir auðvitað mjög miklu máli og er hugmyndin að baki þess að skipa slíkan fulltrúa að hann sé raunverulegur tengiliður milli viðkomandi ráðuneytis og ráðherra þar sem tengsl og samskipti séu góð á milli þannig að trúnaður sé á milli aðila í þessu efni. Ég hef alltaf gert tillögur um þetta, í seinni tíð a.m.k., þegar ég hef verið tilkvaddur til að vinna að tillögugerð sem snertir þessi efni. Ég mæli eindregið með því að sá háttur verði upp tekinn og sú breyting gerð sem víðast þar sem um ráðherraskipan er að ræða í nefndir og ráð.