Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:34:26 (3711)

1996-03-07 15:34:26# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekkert að fara að leggja mat á það sem var uppistaðan í andsvari hv. þm. að ég hafi á einhvern hátt verið ósanngjarn í viðbrögðum mínum við ræðu hans. Það verður að vera annarra að taka það til athugunar. En eitthvað hef ég hitt á viðkvæma taug og það þykir mér leitt ef það hefur verið svo að ómaklega hafi verið að vegið. Það var mér alls ekki í huga. Hitt leyndi sér ekki af ræðu hv. þm. að hann gagnrýndi nefndina í ýmsum greinum og það voru viðbrögð við því sem ég hafði uppi í mínu máli og ætti ekki að verða tilefni til viðbragða af þessum toga. Ég undrast það satt að segja en vona að það verði ekki til að valda misskilningi til langframa. Menn geta borið saman ræður okkar og séð hver tilefni voru til og hvernig orðum var hagað. Hér er um stórt mál að ræða þar sem eru vissulega álitaefni og þar sem hv. þm. kom að sem ráðherra við undirbúning málsins. Ég held að málið hafi komið inn í þingið að mestu leyti í þeim búningi sem það lá fyrir fyrir stjórnarskiptin.