Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:54:50 (3727)

1996-03-07 16:54:50# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er alltaf ánægjuefni þegar hér koma fram mál sem tengjast náttúruverndarmálum og umhverfismálum, ekki síst ef þau hafa verið vel unnin og undirbúin og verið flutt til úrbóta á atriðum í löggjöf eða breytinga á löggjöf. Það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir er vissulega um gildan þátt í umhverfismálum, þ.e. frv. til nýrra laga um náttúruvernd. Það er sannarlega þörf á því að lögin frá 1971 fái heildarendurskoðun og Alþingi afgreiði frá sér nýja löggjöf um náttúruvernd. Ég hef lengi haft áhuga á því að yfir þessi mál verði farið í ljósi þeirra breytinga á stjórnkerfi okkar sem gerðar hafa verið og raunar má segja að það sé mjög sérstakt að lögunum frá 1971 skuli ekki hafa verið breytt svo neinu nemi utan lágmarksbreytinga sem gerðar voru þegar umhvrn. var komið á laggirnar 1990 og þá fyrst og fremst til að ganga þar frá formsatriðum þó einstaka efnisþættir vissulega kæmu inn í málið.

Eins og hæstv. ráðherra gat um hafa áður komið fram í þinginu ein þrjú frumvörp til endurskoðunar náttúruverndarlaga, að hluta þó um breytingu á lögunum en ekki heildarendurskoðun. Þótt þetta frv. sé flutt í þessum búningi er hér, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, um að ræða takmarkaða endurskoðun á gildandi löggjöf en ekki heildarendurskoðun eins og ætla mætti af búningi málsins eins og það kemur fyrir þingið. Mér finnst verulegur ljóður á þessu þingmáli að þar skuli ekki, eftir svo margar atrennur hin síðustu ár að þessari löggjöf, koma fram heildstæð endurskoðun á lögum um náttúruvernd heldur eingöngu tekið á stjórnunaratriðum náttúruverndarmála.

Það er svo að þessi efni er æskilegt að skoða í samhengi og líta á málið í heild sinni. Það kom fram við umræður um þau frumvörp sem flutt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar af hálfu margra, þar á meðal margra umsagnaraðila svo og alþingismanna, að mikil nauðsyn væri á því að taka heildstætt á endurskoðuninni. Ég minni t.d. í þessu sambandi á vel rökstudda umsögn frá Ferðafélagi Íslands og forseta þess sem lá fyrir á síðasta þingi og umsagnir margra fleiri aðila sem komu á fund umhvn. eða sendu henni umsagnir. Mér finnst mikill ljóður á þessu þingmáli að það skuli vera svo takmarkað, ekki síst í ljósi þess að um þann þátt sem hér er vísað til sem meginefnisbreytinga, þ.e. breytingar á stjórnunarþættinum, hafa legið fyrir tillögur og hann hefur verið mikið ræddur á undanförnum þingum. Mér hefði fundist eðlilegt að nýr umhvrh. tæki málið þeim tökum að láta fara fram heildarendurskoun og reyna að vinna að því rösklega að hún færi fram, frekar en að fylgja fordæmi forvera sinna að þessu leyti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með það að svona skuli staðið að máli.

[17:00]

Í því sambandi leyfi ég mér að benda á að það eru fjölmargir þættir þessarar löggjafar um náttúruvernd sem þarfnast brýnt, og ekki síður en stjórnunarþátturinn, að hljóta endurskoðun og taka breytingum í ljósi breyttra aðstæðna. Eins og ég hef oft tekið fram voru lögin frá 1971 framsækin lög á sínum tíma og góð um margt en þó ekki í öllum greinum og það á m.a. við um efnistöku. Ákvæðin varðandi efnistöku og nám jarðefna er þáttur sem er afar brýnt að sé endurskoðaður og ný og hert ákvæði séu sett um út frá nútímalegum viðhorfum. Raunar liggur fyrir þessu þingi frv. til breytinga á lögum um náttúruvernd frá þeim sem hér talar um það atriði sérstaklega og ég veit að af hálfu umhvrn. og hæstv. ráðherra hefur verið lögð áhersla á að á þessum þætti verði tekið og var sérstök ráðstefna haldin um þetta efni á sl. hausti. Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er ekki að finna afstöðu til þess mál sem fyrir liggur? Ég er ekki að biðja um að það verði tekið upp út af fyrir sig, það er tæknilegt atriði hvernig á því er tekið, en mér finnst að það sé a.m.k. óeðlilegt að taka ekki á breytingum um þessi efni með undirtektum við fyrirliggjandi frv. eða með öðrum hætti af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar.

Ég bendi einnig á önnur atriði eins og umferðarrétt almennings því að þó að það sé kannski ekki dagaspursmál, þá er þar um að ræða nauðsyn á endurskoðun. Ég nefni akstur utan vega. Á því er aðeins gripið í frv. Það er aðeins gripið á því efni. Mér finnst að ekki hafi nógu vel til tekist frekar en í fyrri útgáfum frá tíð fyrri ríkisstjórnar að því leyti. Það er knýjandi nauðsyn að það mál sé tekið fastari tökum en gert hefur verið og eitthvað öðruvísi en hér er boðað og það má auðvitað lagfæra.

Sama gildir um umgengni af ýmsum toga varðandi rusl, sorp og annað. Hér er alveg úrelt ákvæði í löggjöf að þessu leyti sem þarf að færa til nútímahorfs, ákvæði um gróðurvernd, um eyðibýli, girðingar og mannvirki í vanhirðu o.s.frv., þannig að það eru hér margir þættir sem þurfa athugunar og breytinga við sem hefði hins vegar ekki þurft að taka mjög langan tíma að endurskoða eða koma með tillögur um þannig að hægt verði að líta á þau. Þetta vildi ég sagt hafa um þennan ramma málsins sem hér liggur fyrir til umræðu.

Ég vil nú snúa mér að frv. eins og það kemur fyrir frá hæstv. ríkisstjórn. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra eru þrjú meginatriði sem lagt er til að verði breytt. Það er að sett verði á fót ný ríkisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, með fimm manna stjórn og síðan vísað í reglugerð um alla innviði. Og jafnhliða því að stöðu Náttúruverndarráðs verði gjörbreytt frá því sem nú er. Í stað sex manna ráðs auk formanns, ef ég man rétt, er gert ráð fyrir níu manna ráði en fyrst og fremst umræðuhópi án nokkurrar starfsaðstöðu. Um það er ekkert fjallað í þessu frv. og ekki heldur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. þannig að það virðist svo sem aðbúnaður að Náttúruverndarráði sé afar lítilfjörlegur samkvæmt frv. Síðan er í þriðja lagi um að ræða friðlýsingarmálin, undirbúning þeirra og framkvæmd friðlýsinga þar sem þau mál eru færð með ákveðnari hætti en áður var frá Náttúruverndarráði eða stofnun undir ráðuneyti til ráðuneytisins eða ráðherra eins og það er orðað í frv. Þetta eru þessi þrjú stóru viðfangsefni. Um þau vil ég segja nokkuð.

Varðandi þá útgáfu sem hér liggur fyrir að því er varðar hugmyndina um ríkisstofnun, þ.e. að mynda sérstaka ríkisstofnun, þá finnst mér betri eða má segja skárri í öllu falli svipur á þessu en á fyrri tillögum um þetta efni þar sem gert var ráð fyrir Landvörslu ríkisins með þriggja manna stjórn og hins vegar tiltölulega óskýrum mörkum í mörgum greinum milli þeirrar stofnunar sem gert var ráð fyrir samkvæmt fyrri frumvörpum. Þá er ég að vísa til frumvarpanna frá 1993 og 1994. Það er heldur skýrara greint á milli Náttúruverndarráðs og hennar samkvæmt þessu frv. heldur en þá var gert. Það er út af fyrir sig alveg skoðunarvert að taka mál þeim tökum að mynda ríkisstofnun um þessi efni í stað skrifstofu Náttúruverndarráðs og færa verkefnin með skýrari hætti undir ráðuneytið. Undir það hef ég tekið oft í umræðum um þessi mál og er sjálfsagt að líta á það efni, en spurningin kemur síðan um Náttúruverndarráð og stöðu þess til hliðar við þessa ríkisstofnun.

Nafnið á þeirri ríkisstofnun sem hér kemur er ekki illa til fundið, raunar hef ég einhvern tíma heyrt það fljúga fyrir áður, og mér finnst það vel geta hæft þeirri stofnun sem á að fjalla um náttúruverndarmálefni hliðstætt því sem er um Hollustuvernd ríkisins að gefa því nafnið Náttúruvernd ríkisins. En mér finnst skýringar um það hvernig á að byggja þessa stofnun upp í einstökum atriðum vera afar lítilfjörlegar samkvæmt frv., enda nánast vísað í reglugerð. Og í greinargerð með frv. er ekkert bitastætt að finna frekar um hugmyndir um uppbyggingu stofnunarinnar og aðbúnað nema ef taka ætti alvarlega þau orð sem standa í umsögn fjmrn. um starfsaðstöðu og þess háttar, reyndar orð eða umsögn sem er unnin í samvinnu við umhvrn. eftir því sem þar stendur, en þar er því í rauninni slegið nokkurn veginn föstu að menn ætli að komast af með sama fjármagn og hefur runnið til Náttúruverndarráðs í öllum aðalatriðum og ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka vegna frv. þannig að ekki horfir það til mikillar rýmkunar á fjárhag stofnunarinnar. Mér finnst það mjög merkilegt að það skuli a.m.k. ekki í greinargerð með frv. koma upplýsingar um með hvaða hætti hugmyndin er að byggja þessa stofnun upp skipulagslega og eitthvert mat á nauðsynlegri starfsaðstöðu því að þörfin blasir við á fjölmörgum sviðum að bæta þarna um frá því sem nú er á skrifstofu Náttúruverndarráðs. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir þessu í umræðu. Það er óhjákvæmilegt að þingnefnd sé einhver grein gerð fyrir því með hvaða hætti sé hugsað að taka á þessu.

Þá vil ég koma að hugmyndinni um stjórn þessarar stofnunar, en það finnst mér eitt það lakasta sem er að finna og nokkuð óvænt að sjá koma fram í frv., þ.e. með hvaða hætti hugmyndin er að setja þessari stofnun stjórn. Það er auðvitað alltaf álitamál hvernig á að skipa stjórnir ríkisstofnana og líka eins og rætt var í þinginu í gær hvaða ríkisstofnunum á að setja stjórnir, eða hvort eigi að gera það að almennri reglu. Hér er gert ráð fyrir því að umhvrh. skipi þrjá menn í stjórnina, Náttúruverndarráð tilnefni einn og svo á að koma ráðherra úr óskyldum málaflokki, samgrh., og skipa fimmta manninn. Mér finnst alveg meiri háttar tíðindi að sjá þetta. Að vísu örlaði á svipuðum tillögum í fyrri frumvörpum en ég hélt að það hefði verið nógsamlega rætt til þess að hæstv. ráðherra færi ekki að taka undir slíkar tillögur. Það stendur í greinargerð einhvers staðar sem skýring á þessari tillögu um sérstakan vaktmann samgrn. í stjórn Náttúruverndar ríkisins að samgrh. fari með stóra málaflokka, t.d. vegamál og ferðamál. Rétt er það, vissulega. Hann fer líka með hafnamál og margt fleira sem mætti þar til nefna. Auðvitað er nauðsynlegt að eiga gott samstarf við samgrn., ekki síst með tilliti til ferðamála. Það er alveg rétt eins og við svo fjölmörg önnur ráðuneyti, t.d. landbrn. vegna þeirrar skörunar sem þar hefur verið og enn virðist eiga að halda uppi í sambandi við gróðurverndarmálin, þar á meðal skógvernd. Mér finnst ekki nein skýr rök fyrir því og ekki hægt að taka undir þá tillögu að það sé ætlast til að ráðherra úr öðrum málaflokki, í rauninni hagsmunatengdu ráðuneyti að því er varðar umhverfimálin, þ.e. þar sem um hagsmunaárekstra getur vissulega verið að ræða í ýmsum greinum. En það á svo við mörg önnur ráðuneyti. Og ég spyr: Af hverju ekki eins menntmrh. varðandi þann gilda og þýðingarmikla þátt sem er fræðsla um náttúruvernd í hinu almenna skólakerfi sem er einhver brýnasti þátturinn til að renna skoðun undir aukinn skilning uppvaxandi fólks í landinu á gildi náttúruverndar og þýðingu náttúruverndar fyrir nútíð og framtíð? Af hverju ekki menntamálaráð? Það væri þá eitthvað hlutlausari aðili, skulum við segja, að því er varðar náttúruverndarmálin. Ég vara mjög eindregið við að ætla að hafa þennan hátt á í sambandi við uppbyggingu á stjórn þessarar ríkisstofnunar. En um þessi efni sem og önnur er varða frv. verður auðvitað fjallað í þingnefnd og er sjálfsagt að líta á það. Ég tel að þarna hafi óhönduglega til tekist í tillögugerð og menn þurfi að skoða þetta opnum huga í þingnefnd.

Í sambandi við Náttúruverndarráð þá finnst mér að það þurfi að líta á hugmyndina að baki Náttúruverndarráði kannski með svolítið öðrum hætti heldur en gert er í þessu frv. Það er verið að mynda sérstaka ríkisstofnun undir skýru forræði ráðuneytis og það eru rök fyrir því. En síðan er Náttúruverndarráði ætlað að starfa sem umræðuvettvangur til þess að fjalla um náttúruvernd í víðu samhengi og þá er eftir sem áður ráðherra ætlað að skipa formann og varaformann í þetta ráð og síðan á að leita til sérfræðistofnunar eftir tilnefningu og þrír eiga að verða kosnir á náttúruverndarþingi. Ég varpa í fullri vinsemd fram þeirri hugsun hvort það gæti ekki verið skynsamleg ef menn halda Náttúruverndarráði sem umræðuvettvangi og ég hefði viljað sjá það þá til hliðar við þessa ríkisstofnun sem vökumanni í náttúruverndarmálum í víðu samhengi, eins konar samvisku, til þess að veita stjórnvöldum aðhald og koma fram með tillögur og standa að bæði umræðu og fræðslu eftir því sem möguleikar þess leyfa í þjóðfélaginu en vera ekki svona kerfisbundið eins og þarna er hugmyndin að byggja ráðið upp.

Það kæmi að mínu mati fyllilega til greina að náttúruverndarþingið kysi þetta ráð í heild sinni og þar á meðal formann þess sérstaklega ef menn vilja leggja þá áherslu á forustu í ráðinu og að ráðið sé þannig í rauninni frjáls vettvangur almennings í landinu að svo miklu leyti sem það endurspeglast í setu og þátttöku í náttúruverndarþingi sem er svo mál út af fyrir sig hvernig eigi að vera skipað og hverjir eigi að koma þar að máli. Ég óttast að þetta verði dálítið stirt og kerfisbundið undir ráðuneytinu eins og þetta er sett fram þarna og bið menn í allri vinsemd að hugleiða málið, ef menn ætla að fylgja þessum ramma að öðru leyti sem hér er fyrir lagður.

Ég held að það væri í rauninni mjög æskilegt að geta viðhaldið þessum félagslega þætti náttúruverndarmálanna með góðu samstarfi við áhugamannahreyfinguna, með fólk sem víðast af landinu og þá sem eru að sýsla um umhverfisverndina. Náttúruverndarþingið hefur reynst vera gagnlegur vettvangur og góður til þess að ræða og sumpart takast á, m.a. við opinbera embættismenn sem þar hafa setið með málfrelsi og tillögurétti. Ég get tekið undir að halda þeim vettvangi og halda Náttúruverndarráði sem vökuaðila þessara mála, en þá verður líka að búa sæmilega að þessu ráði eða a.m.k. þannig að það sé ekki bara skilið eftir og látið á guð og gaddinn eins og ætla má af þessu frv. því að það er hvergi neitt að finna um starfsaðstöðu fyrir þetta ráð. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að Náttúruvernd ríkisins taki við húsnæði Náttúruverndarráðs og skrifstofunni sem nú er og er áætlað að það fari svona 1,5--2 millj. kr. til þess að standa undir kostnaði við það. Það er hvergi kveðið á um starfsmann. Því eru ætlaðar einhverjar tekjur frá Endurvinnslunni sem er harla lítið eins og verið hefur og óvisst með það. Að öðru leyti er lítið að hafa úr greinargerð um það hvernig menn ætla að ætla þessu ráði yfirleitt að starfa.

Ég efast líka um þessa tilnefningarleið sem þarna er farin frá tilnefndum fimm stofnunum eða svo, fjórum eða fimm stofnunum sem gert er ráð fyrir. Þetta tel ég að þurfi umhugsunar við og það þurfi að gaumgæfa þetta miklu betur heldur en fram kemur í þeim texta sem hér liggur fyrir.

Virðulegur forseti. Það eru vissulega fleiri þættir sem ég vildi ræða ef tími minn leyfir.

(Forseti (ÓE): Hann leyfir það.)

Þá vil ég koma þeim líka á framfæri en það var um þessi ...

(Forseti (ÓE): Ég bið nú afsökunar. Tíminn er liðinn.)

Það var það sem ég hafði haldið, virðulegur forseti, en ég hef möguleika til að koma að nokkrum atriðum. Ég hef fjallað um burðarvirkin í þessu frv. ef má gefa því það gott nafn að tala um burðarvirki. Mér finnst sumir hornsteinanna vera heldur á lausri jörð og hefði viljað sjá ýmislegt með öðrum hætti, en ég er viss um að ráðherra bregst við því sem hér hefur fram komið og eftir atvikum aðrir þingmenn. En ég mun bæta kannski nokkru við síðar í umræðu.