Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 14:51:15 (3823)

1996-03-12 14:51:15# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem við ræddum fyrr á þinginu er nú komið frá þingnefnd. Ég verð að segja að það er fyrr heldur en ætla mætti miðað við eðli málsins. Við sem störfum í nefndum þingsins erum að vísu oft gagnrýnd fyrir það af þeim sem bera frumvörp fram að þingnefndir séu heldur seinvirkar, en í þessu tilviki sýnist mér að hv. allshn. hafi flýtt sér heldur mikið við að afgreiða mál þetta til 2. umr. og þá samkvæmt starfsvenjum hér markað hraða málsins í þinginu ef meiri hluti er fyrir því að málið gangi áfram til afgreiðslu að lokinni þessari umræðu.

Ég tel að það efni sem við ræðum sé mjög mikilvægt. Sú spurning sem við hv. þingmenn stöndum frammi fyrir, réttara væri að segja spurningar því að þær eru margar sem tengjast þessu máli og sem svara þarf ef á að fara að breyta lögum, eru margar þess eðlis að það væri eðlilegt að bæði þingheimur sem og almenningur í landinu fengi meira ráðrúm til þess að fjalla um málið, hugleiða málið, koma sjónarmiðum á framfæri heldur en hér er stefnt að. Ég segi þetta vitandi um það að mál þetta var sýnt á 118. þingi, þ.e. í fyrra, en varð þá ekki unnið í nefnd, a.m.k. engu nefndaráliti skilað um það þannig að umræða fór takmarkað fram í þjóðfélaginu að ég held á grundvelli þess flutnings.

Hér er eins og fram hefur komið um að ræða mál sem snertir hvern einstakling í landinu og ekki síður þá sem óbornir eru, hvernig til tekst að marka lagaramma um nafngiftir og þar höfum við Íslendingar af hefð að státa sem margir öfunda okkur af sem kynnast þeirri nafnhefð vegna þess hversu merkileg hún er, hversu skýr menningararfur er þar á ferðinni og hversu óvenjuleg hún er einnig miðað við það sem gerist hjá mörgum öðrum þjóðum og raunar flestum sem búa í nágrenni við okkur í þessum heimshluta sem svo er stundum kallaður. Ég held að við þurfum að gæta vel að því við umfjöllun þessa máls þegar skoðaður er þessi stóri þáttur í menningu Íslendinga, eins og það er kallað með réttu í nefndaráliti, áður en við lögleiðum breytingar sem fyrr en varir geta leitt til kollsteypu. Og það er í rauninni það sem mér sýnist stefna í, það gæti orðið niðurstaðan ef fallist er á þær breytingar sem frv. hefur í för með sér og að teknu tilliti til breytingartillagna frá hv. þingnefnd.

Ég hafði vænst þess, virðulegur forseti, að frsm. nefndar væri viðstaddur umræðuna, hafði óskað eftir því að svo væri því að ég mæli m.a. til þingnefndarinnar og þá ekki síst til oddvita hennar. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu efni eru nokkrir þættir sem ég mun koma að, en ég vil þó áður ítreka það sjónarmið sem er að finna í nefndaráliti og sem mér finnst að eigi að leggja til grundvallar þegar fjallað er um mál sem þessi og það er hversu stór þáttur nafnhefðin er í okkar menningu. Það hlýtur að leggja okkur þá skyldu á herðar, ef við erum sammála um þetta, að hlúa að þessum arfi þó að við viljum ekki gera hann stirðnaðan eða óumbreytanlegan því að það er ekki það sem stefna ber að. Auðvitað þurfum við að vera reiðubúin í því eins og með íslenskt mál almennt að þróa það, auðga það með nýjungum eins og við gerum í málinu, en við þurfum að gera það af hugkvæmni og við þurfum að ætla breytingum tíma til þess að sanna sig, ekki að hlaupa upp til að breyta settum reglum eingöngu af því að það gætir óánægju hjá einstaklingum, fleiri eða færri eftir atvikum, með reglurnar og kanna mál vel áður en breytingar eru lagðar til.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson talaði í sínu máli áðan um ófrelsi hefðanna, ef ég hef tekið rétt eftir. Það er sjálfsagt rétt að hefðir eru hefðir vegna þess að þær skapa aðhald. En ég vil ekki kalla það ófrelsi. Ég tel að í velflestum hefðum felist jákvæður þáttur sem menn skulu varast að klippa á og líta á sem fjötur. Það þurfa a.m.k. að vera mjög gild rök fyrir því ef það á að líta þannig á málið og svipta kannski grundvellinum undan hefðinni, sem ég er þó alls ekki að ætla neinum sem eru að bera fram þetta mál hér, að þau stefni að því. Það sem okkur kann að greina á er matið á því til hvers nýjar leikreglur munu leiða, hvert bera þær okkur?

Ég hef getið þess í umræðu um þetta mál, af því að ég hef leyft mér að tala um það við 1. umr. í þau tvö skipti sem frv. hefur verið lagt fram, að ég hef nokkra reynslu af þeim höftum sem var að finna, og þeim reglum um leið, til þess að knýja m.a. fólk af erlendu bergi brotið til þess að fylgja íslenskum nafnhefðum. Ég hef ekki fundið til þess að það hafi verið svo sársaukafullt að það væri ástæða til þess að við rýmkuðum rammann til muna frá því sem verið hefur, þó ég sé eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að heimila fólki af erlendu bergi að bera sín nöfn þó að það gerist íslenskir ríkisborgarar og það eigi fyrst og fremst að miða breytingarnar við afkomendurna. Það er í sambandi við nafngiftir á börnum sem við eigum að setja reglurnar en vera frjálslynd að því er varðar það að leyfa fólki sem hingað kemur að bera sín nöfn á meðan lifir þó það fái fullan þegnrétt í landinu. Þetta kann að þykja nokkuð hörð kenning og auðvitað ekki alltaf skilningi að mæta hjá þeim sem flytja til landsins á því að þurfa að lúta slíku. Ég held þó að málið snúist í raun ekki um það. Ég held að það sé ekki svo erfitt í reynd þótt það geti verið gagnrýnissefni og fólk sé ekki fyllilega sátt við það, að af þeim sökum þurfi að gera róttækar breytingar á okkar nafnkerfi.

[15:00]

Þá ætla ég að koma að fáeinum atriðum en vísa annars til margs sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv. sem flutti ítarlega ræðu og hefur greinilega farið vel yfir málið. Ég er sammála mjög mörgu af því sem kom fram í hans máli og ætla ekki að endurtaka það eða tilgreina það út af fyrir sig sérstaklega, en vil taka undir þá meginósk sem þar var borin fram að þingið flýti sér ekki við lögfestingu á þessu frv. og þeim breytingum sem það felur í sér.

Ég ætla fyrst að koma að eiginnafninu, því sem varðar 5. gr. og kannski væri rétt að nefna það sem er í 1. gr., spurninguna um fjölda nafna þar sem segir: ,,Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals.`` Ég væri alveg reiðubúinn til þess að hafa þennan ramma opinn, þ.e. fjölda eiginnafna. Mér finnst það ekkert stórmál hvort menn finna upp á því að gefa þrjú nöfn, fjögur nöfn eða jafnvel fimm nöfn og þaðan af fleiri. Það er nú svo að við almenna skráningu taka dálkarnir ekki við nema takmörkuðu. Ég verð iðulega fyrir því, og ber þó aðeins eitt nafn, að það styttist af sjálfu sér í tölvukerfi nútímans vegna þess að í því er 21 bókstafur ef föðurnafn er meðtalið og þá verður að fella af. Þannig verður það í reynd að þó að menn séu skreyttir með fjölda nafna, þá rúmast ekki í almennum dálkum, hvort sem það eru vegabréf eða hvaða gögn það eru, þá rúmast ekki nema lítið af því og þaðan af síður eru líkur á því að það sé notað í reynd. Ég hef þess vegna ekki miklar áhyggjur af því.

Hins vegar hef ég vakið athygli á því í tvö skipti við umræður um þetta mál að það er í raun í gangi í samfélaginu breyting á íslenskum nafnhefðum sem mjög hefur sótt á allra síðustu ár og tengist því að það eru gjarnan gefin og í vaxandi mæli miðað við það sem verið hefur tvö eiginnöfn, sem ég kalla tvínefni. Það verður til þess að t.d. í máli manna og í máli fjölmiðla, og jafnvel er til þess ætlast af þeim sem nöfnin gefa, að báðum sé til skila haldið. Það leiðir til þess í reynd að við erum að koma með tvenns konar nafnkerfi bara vegna þessara breytinga, þ.e. maður, karl eða kona, er nefndur tveimur nöfnum, föðurnafni eða kenninafni er sleppt. En sé í sama vetfangi nefndur einstaklingur með eitt nafn, þá þykir alls ekki nóg að nefna hann einu nafni heldur er kenninafnið látið fylgja, þ.e. föðurnafn, ættarnafn eða móðurnafn eftir atvikum látið fylgja. Við höfum dæmi hér á Alþingi Íslendinga um þetta og hvernig fjölmiðlarnir segja frá mönnum sem eru með tvínefni, tvö eiginnöfn. Í sömu fréttinni er sagt frá því að þessi eða hinn þingmaðurinn með tvínefni hafi flutt mál og svo hafi þessi sonur þessa (Gripið fram í: Er ekki hefð fyrir þessu í fornum íslenskum sögum?) Það kann að vera. Ég hef ekki kannað það sérstaklega. En ég vek athygli á þessu og þetta sækir mjög á. Þegar maður hefur þessa breytingu í huga sem þarf ekki nema einn fréttatíma til að finna dæmi um, þetta heyrist í hverjum fréttatíma ljósvakamiðlanna, þá geta menn séð það til hvers millinafnakerfið með heimild til að taka upp ættarnöfn sem millinafn mun leiða fyrr en varir. Og var það þó eitt af því sem hv. frsm. nefndarinnar lagði áherslu á að ætti að vinna gegn ættarnöfnum í landinu. Þarna held ég að liggi ein stór kórvilla í þessu máli í mati hv. þingnefndar á því sem hér er lagt til að innleitt verði.

Ég er alveg sannfærður um það að þetta millinafnakerfi með heimild fyrir upptöku ættarnafna m.a. mun leiða til þess fyrr en varir að okkar gamla nafn muni riðlast í allt öðrum og meiri mæli heldur en gerst hefur fram að þessu. Ég er undrandi á því að borin skuli fram sem rök í þessu máli einhver jafnræðissjónarmið, að vesalingar, sem ekki hafa orðið þeirrar upphefðar, virðulegur forseti, aðnjótandi að fá á sig danskt nafn eða eitthvert dalanafn fyrr á öldinni á meðan menn gátu keypt sér ættarnöfn, skuli hafa heimild til að bera millinafn. Það er borið fram sem veruleg rök í málinu, jafnræðiskenning, og ekki er það jafnræði kynja sem þar er á ferðinni. Það er svo annar þáttur í þessu máli og nokkuð sérkennilegur líka sem ég mun koma að. Ég hafna gjörsamlega þessari vorkunnsemi við þá sem ekki bera ættarnafn eða hafa átt kost á því, það skuli opnað fyrir það. Með því eru menn í rauninni að vega með mjög ákvarðandi hætti að þeirri íslensku nafnahefð sem er stór þáttur í menningu Íslendinga eins og kveðið er að orði í nefndarálitinu. Ég vil skilja það svo af þeim sem bera málið fram að þeir vilji bera það fyrir brjósti en þeir draga rangar ályktanir af þeim tillögum sem þeir bera fram fyrir þingið.

Það mun ekki verða mikið um það, svo eitt dæmi sé tekið, að Guðmundur Briem Jónsson, ef ég tek ímyndað dæmi, verði kallaður Guðmundur Jónsson í umræðum af vandalausum. Ég segi vandalausum því að það kann að vera að þeir sem nafn hafa gefið hafi hugsað sér eitthvað annað, en það sem verður ráðandi eru þeir sem um fjalla, ekki síst ef viðkomandi persóna er oft nefnd á nafn almennt í fjölmiðlum eða annars staðar. Ætli það verði ekki lítið um það að hann verði kenndur við Jón og ætli líði á löngu áður en Briemsnafnið verður orðið ráðandi, þetta millinafn? Ég held að það blasi við öllum sem hugsa um málið að það mun verða ofan á fyrr en varir og menn eru í rauninni --- ég veit ekki hvort það er réttmætt að orða það svo, en mér datt í hug að menn væru að gefast upp. Það er óbeint þó það sé ekki vilji hv. tillögumanna að gefast upp eða innleiða hér nafngiftir sem munu leiða til mjög róttækra breytinga fyrr en varir á íslenskri nafnhefð. Ég held að það séu engin tilefni til þess í formi óánægju eða krafna úti í samfélaginu að slíkar breytingar verði innleiddar. Þó að megi vafalaust finna dæmi frá einstaklingum um óánægju með það kerfi og þær reglur sem við höfum búið við, og það er sjálfsagt að hlýða á það, það er sjálfsagt að íhuga hversu alvarleg sú óánægja er og hversu sterk rök eru fyrir því að taka tillit til hennar með sveigjanleika sem ekki þarf þó endilega að felast í breytingu á almennri reglu.

Ég held að það sé nokkuð til í því sem hér hefur verið sagt að hluti af þeim þrýstingi til breytinga, sé hann raunverulegur, sé hann til staðar, hafi stafað af því að það hafi hugsanlega verið of mikið horft á bókstafinn þegar afstaða hefur verið tekin af þeim sem hafa ráðið ferðinni, þegar það hefur verið metið hvað skuli heimilað og hverju hafnað á undanförnum árum. Ég tel að það sé mjög sérkennilegt, það sem fram kemur hér og liggur fyrir í þessu máli að aðeins fjórum eða fimm árum eftir að samþykkt voru ný lög um mannanöfn, þá er komið frv. sem hefur að geyma svo miklar breytingar sem raun ber vitni, ekki bara frá fyrri gildandi lögum heldur nýmæli. Í greinargerð með frv., ekki nefndaráliti, heldur í greinargerð með frv. segir um það:

,,Einkum hefur nefndin þó stuðst við þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga nr. 37/1991 og litið til þeirrar gagnrýni á lögin sem fram hefur komið.``

Ætli nefndin hafi ekki verið að störfum frá hausti 1993? Hún hefur störf u.þ.b. tveimur árum eftir að ný lög voru sett og studdist einkum við þá reynslu sem fengist hafði af framkvæmd tveggja ára gamalla laga. Þetta er mjög einkennilegt, ef menn verða allt í einu svo vitrir á tveimur árum og telja að af svo mikilli reynslu sé að taka að tveimur árum liðnum í máli sem varðar hefðir í menningu Íslendinga treysta þeir sér til að bera fram breytingar með vísun í reynslu. Mér finnst það ekki trúverðugt og hljóti önnur viðhorf að vega þyngra þegar þessar tillögur eru fram bornar.

[15:15]

Þá er það 5. gr., virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg réttmætt að benda á að sú grein opnar fyrir nýmæli varðandi eiginnöfn sem mjög erfitt verður að setja skorður við og mjög erfitt að skera úr um hvað skuli heimilað og hvað ekki að því er varðar nýmæli. Nú er mér það ljóst að auðvitað eru mestar líkur á því að fólk af íslensku bergi brotið miði við eitthvað sem gæti talist eiga sér einhverja hefð í málinu, hvort sem það er nú gælunafn eða eiginnöfn sem verið hafa, nöfn sem eru sótt í frændgarðinn o.s.frv. Ég geri frekar ráð fyrir því.

Varðandi t.d. nýbúa í landinu, þá hljóta þeir að telja eðlilegt að þeir geti sótt slík nýmæli í sinn frændgarð annars staðar frá og með góðum rétti í ljósi þessara ákvæða krafist þess að geta skýrt eða nefnt sín afkvæmi í samræmi við það, enda lúti þau þeim ramma sem 5. gr. setur. Til dæmis um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða unnið sér hefð í íslensku máli, sem er þá annar mælikvarði en ekki sami mælikvarði. Það er annar tveggja af þeim sem þarf að standast samkvæmt þessu ásamt því að þetta brjóti ekki í bága við íslenskt málkerfi, enda hlýtur það að vera mælikvarðinn að eignarfallsendingin standist. Það er sá mælikvarði sem settur er varðandi málkerfið. Ég tek skýrt fram að ég tel þetta ekki vera stórmál. Mér finnst spurningin um eiginnafn vera mun minna mál en spurningin um millinöfn, sem mun að mínu mati kollvarpa okkar nafnhefð fyrr en varir, enn frekar en orðið er. Ég tel að það skipti ekki sköpum fyrir þá hefð þó tekin séu inn ný eiginnöfn, jafnvel þótt framandi þyki í upphafi. Ef við lítum yfir þau nöfn sem Íslendingum hafa verið gefin í 35 kynslóðir eða svo, ef við hefðum það allt á skrá, er þar margt að finna sem kemur okkur nútímafólki spánskt fyrir sjónir. Það þarf ekki annað en líta yfir lista frá síðustu öld. Sumar hefðir voru bundnar við landshluta að því er varðaði eiginnöfn þannig að það var hægt að ráða af nafni manns í ýmsum tilvikum hvaðan hann kom og það jafnvel þótt nöfnin væru ekki mjög sjaldgæf, eins og t.d. mitt föðurnafn. Það er engin tilviljun að Halldór Laxness, sá fundvísi rithöfundur, lét Guttorm Guttormsson, sem kemur fyrir í Íslandsklukkunni, vera Austfirðing. Þetta nafn var bundið við Austurland. Ég hef ekki fundið nokkurn mann með þessu nafni enn þá, ég hef að vísu ekki lagst djúpt í ættfræði, sem ekki á ættir að rekja til Austurlands og ef grannt er skoðað er hann þá frændi þess sem hér talar að langfeðgatali. Svona er okkar nafnkerfi skemmtilegt þar sem íhaldssemi hefur gætt og má margt af því læra. Jón Þeófílusson Íslandsklukkunnar gat að sjálfsögðu ekki verið nema af einu landshorni eða úr einum landsfjórðungi svo að annað dæmi úr sama ritverki sé tekið. Þetta er ánægjuleg hefð af að státa sem við skulum reyna að viðhalda. En við eigum ekki að gera það með því að hafna nýjum nöfnum. Það riðlar ekki okkar gamla kenninafnakerfi, sem er eitt aðalatriðið í þessu máli og það sem mestu skiptir að standa vörð um.

Ég tel, virðulegur forseti, að með millinafnakaflanum og þeirri stefnu að innleiða millinöfn séu menn á röngu spori og þurfi að líta miklu betur á það mál. Ég tek hér dæmi um ættarnöfn úr 7. gr. Þar sá ég enga breytingu svo ég leyfi mér að vitna í það þar sem fjallað er um ættarnöfn:

,,Ættarnafn er einungis heimilt sem millinafn í þeim tilvikum sem um getur í þessari grein.

Hver maður sem ber ættarnafn í þjóðskrá má breyta því í millinafn, sbr. 15. gr.

Hver maður sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess má bera það sem millinafn.

Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.``

Nú þurfa þeir að leggjast undir feld sem vilja breyta til að sjá hvort þeir komast í gegnum nálarauga þessarar greinar og afla sér millinafns í formi ættarnafns. Það er margt sem breyta mætti í skjóli þessa, einnig hjá þeim sem eiga sín nöfn. Það er ekki ástæða til að loka á það allt saman, en mér finnst hér ekki stefnt í rétta átt með þessu. Ég segi það í fullri vinsemd við þá sem bera þessar tillögur fram, bæði ráðuneyti og þingnefnd. Ég bið um að fólk hugsi sitt ráð betur áður en farið er að samþykkja tillögu af þessu tagi.

Þá kem ég að þriðja þættinum sem ég vildi nefna. Þó er kannski rétt að koma aðeins að því sem segir í tölul. 4 í nefndarálitinu. Þar er tekið dæmi sem lýsir þessu vel og hv. formaður allshn. reiddi fram. Dæmið um Gunnar Nyström segir heilmikla sögu um þetta. En þó ekki alla, því að opnað er fyrir millinafnið hjá Íslendingum í marga ættliði sem geta fundið fótfestu fyrir því að taka sér ættarnöfn sem fyrr en varir verða að ráðandi nafni í stað kenninafns.

Þá kemur að þriðja þættinum, það er heimildin til þess að taka upp millinafn sem eins konar kenninafn föður eða móður. Ég hef látið það koma fram að ég tel sjálfsagt að það sé heimilt hvort sem er að kenna sig til föður eða móður og ætti í rauninni ekki að þurfa fram að taka að það sé eðlileg regla, bæði út frá jafnræðissjónarmiði sem og eðli máls. Í rauninni má færa mörg rök fyrir því að eðlilegra sé að kenna menn til móður en föður vegna þess að þær heimildir eru að jafnaði traustari fyrir blóðtengslunum. Ef við horfum fram í tímann í ljósi frv. um tæknifrjóvgun og annarra slíkra hluta, getur margt skolast til, einnig að því er varðar móðurkyn. Ég ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega í sambandi við þetta frv., en vek athygli á því og styð eindregið að það sé í lögum að frjálst sé að kenna sig hvort sem er til föður eða móður. Þó finnst mér eðlilegt að það sé hluti af nafngift, þ.e. að það sé ekki litið á það sem sjálfsagt eða eðlilegt að börnin fari að hringla með það eftir á, eftir því hvort þeim er vel við mömmu eða pabba. Mér finnst ekki skynsamlegt að ætla börnunum að kveða upp úr um það, heldur er það foreldranna að koma sér saman um það. En til þess að sleppa fram hjá því, er hv. allshn. með heimild um það. Hún leggur til breytingu, hafi ég lesið rétt í málið, um að heimilt sé að hafa hvort tveggja, að taka inn nafn þess foreldris sem barnið er ekki kennt við sem millinafn í eignarfalli eins og dæmi eru rakin um hér og bæri sá er hér stendur þá nafnið Hjörleifur Guðrúnar Guttormsson eða þá öfugt. Þetta var vissulega haft í flimtingum á mínu æskuheimili þar sem réttindamál kynja voru til umræðu. Ég minnist þess að faðir minn lét þá skoðun í ljós að honum væri mjög ljúft að börnin væru kennd við móður. Mér finnst sem sagt sjálfsagt að það sé hluti af nafngift að skera úr um það. En að fara að innleiða það að taka upp hvort tveggja, finnst mér mikill misskilningur. Í mínum huga á það ekkert skylt við jafnræðisreglu og getur að mínu mati ekki verið spurning um einhver réttindamál kynja sem slíkra.

Hefðin fyrir því að kenna til föðurs hefur verið rík í málinu en það getur breyst. Fyrir því eru fullar heimildir og sjálfsagt að festa það í lögum að mínu mati en hitt líst mér ekki á.

Við sem höfum búið í sjávarplássum í þekkjum það ósköp vel að það er ekkert óalgengt, t.d. í sjómannssfjölskyldum, að barnið sé kennt við móður til aðgreiningar frá öðrum börnum og föðurnafnið gleymist nánast. Og þetta loðir lengi við menn. Ég leyfi mér að nefna dæmi úr minni heimabyggð til virðingar við ágætan kunningja minn sem er kallaður Nonni Möggu Sigga Hall og þekktur undir því í bæjarfélaginu og vafalaust út fyrir það. Það má segja að það sé vinsæl getraun þegar fólk kemur í plássið og spyr: Hvað heitir hann, þessi? Ýmsum vefst tunga um tönn. Réttilega er auðvelt að rata á Jón en hitt getur vafist fyrir mönnum að kenna til föður og þannig er það með fleiri.

[15:30]

Annað dæmi úr mínu umhverfi: Siggi Stínu og fleiri börn úr því ágæta húsi. Auðvitað er það vegna fjarvista föður sem slíkt þróast og það er ekkert við því að segja. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt að halda slíkum möguleikum opnum. Menn þróa þá og taka sér þá hvað sem lög bjóða. Þetta er hluti af hefðinni því gælunöfn eru víða mjög tíðkuð og segja oft sína sögu. Það auðgar umhverfi okkar að viðhalda þeim og ekki eiga þau sé litla stoð í menningarsögunni, nægir að vísa til Íslendingasagna, sá hafsjór sem þær eru af viðurnefnum sem eru svo annar þáttur ekki óskyldur.

Virðulegur forseti. Það er margt annað sem ástæða væri til að koma að í sambandi við þetta mál en ég held ég hafi drepið á það sem mér er einna efst í huga. Ég held að skipti hvað mestu varðandi þetta frv. sem er fram borið og efni þess og þær getsakir --- því ég vil kalla það getsakir um líklega þróun sem ég hef haft hér uppi, því að auðvitað býr enginn þar yfir einu réttu svari, það leiðir að líkum hvert stefna muni í þessum efnum. Ég ítreka að ég tel að það skipti mjög miklu hvernig til tekst í máli sem þessu. Mér finnst sem þær breytingar sem er verið að leggja til geti nánast leitt af sér þá ályktun af minni hálfu að það væri jafngott að hafa engin lög um þessi efni eins og það sem hér er fram borið. Mér finnast þær breytingar sem er verið að leggja til vera það rúmar og alveg sérstaklega ýta undir þróun sem mér finnst óæskileg að ég held að það sé alveg eins gott að sleppa þeim og flytja einfalt frv. um það að lög um mannanöfn, nr. 37/1991, séu felld úr gildi. Það er ekki fjarstætt að álykta svo. Lög nr. 37/1991 verða úr gildi felld vegna þess að svo langt er gengið í hér í tillögum að ég held að það verði mjög erfitt að stöðva sig af og nýta þennan ramma, ef að lögum yrði, til þess að stuðla að því að viðhalda þessum gilda þætti í íslenskri menningu sem íslensk nafnhefð hefur verið til þessa. Ég bið hv. þm. og þá sem bera þetta mál fram að hugleiða það sem hér er sagt um þetta og gefa þingheimi góðan tíma til að fara yfir málið betur en kostur hefur verið til þessa og leyfa jafnframt almenningi í landinu að koma svolítið að málinu í ljósi þeirrar umræðu sem hér fer fram af tilefni þessa nefndarálits og þessa frv.