Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:49:30 (3880)

1996-03-13 13:49:30# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það mun hafa verið 1987 eða þar um bil að Alþingi samþykkti þingsályktun um jöfnun símkostnaðar. Sá sem hér talar var fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu. Í framhaldi af því tókst að lækka mjög verulega þann mikla mun sem var nær áttfaldur um þetta leyti á langlínusamtölum þar sem ódýrast var og þar sem dýrast var. Það var í tíð fyrrv. samgrh., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að eitthvað gerðist sem um munaði í þessum efnum. Það er síðan alveg rétt að það er enn talsvert í land að afnema mismununina og það er það sem ber að gera. Ég tek undir með fyrirspyrjanda að því leyti. Og að blanda því saman við spurninguna um kjarajöfnun er auðvitað mál sem er hægt að taka á eftir sem áður ef menn vilja. Að gera landið að einu gjaldsvæði er réttlætismál jafnt fyrir einstaklinga sem fyrirtæki. Það er undir stjórnarliðum komið hvort það verður gert eitthvað í málinu hvort sem það tengist lögum um Póst og síma eða verði sjálfstæð aðgerð. Þeir hv. stjórnarþingmenn sem hér hafa talað verða auðvitað að tryggja fylgi við slíka aðgerð.