Vá vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:56:50 (3884)

1996-03-13 13:56:50# 120. lþ. 106.2 fundur 354. mál: #A vá vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að flytja fyrirspurn til hæstv. samgrh. á þskj. 614 um vá vegna olíuflutninga. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því hér heima og erlendis að kröfur um gerð, búnað og siglingu skipa sem flytja olíu til landsins verði hertar og samræmdar, m.a. í ljósi ítrekaðra stórslysa við Bretlandseyjar?

2. Hvaða ráðstafanir koma einkum til álita til að draga úr líkum á strandi eða öðrum áföllum sem leitt geta til stórfelldrar mengunar vegna olíuflutninga við strendur landsins?

Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að jafnhliða þessari fyrirspurn hef ég beint annarri fyrirspurn sem er á dagskrá þessa fundar til hæstv. umhvrh. um mengunarhættu vegna olíuflutninga en geri hana að sjálfsögðu ekki hér að umtalsefni. En hv. þm. geta kynnt sér það mál á þskj. 613.

Þau stórslys við Bretlandseyjar sem vísað er til eru mönnum vafalaust í fersku minni, ekki síst það síðasta þegar olíuskipið Sea Empress strandaði við Wales í síðasta mánuði og nálægt 65 þús. tonn af hráolíu láku í hafið eða nærri helmingurinn af farmi skipsins. Þarna höfðu áður orðið ítrekað stórslys. Fyrsta stórslysið sem ég minnist á þeim slóðum var Torrey Canyon slysið 1967. Síðan kom árið 1989 Exxon Valdez sem var reyndar við Alaska og var mjög umtalað. Þar var gripið til margháttaðra aðgerða og vafalaust víðar af þeim sökum. Síðan kom Braer slysið við Hjaltland 1993 þar sem um 80 þús. tonn af olíu láku í hafið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hver alvara er á ferðum þegar slíka vá ber að höndum. Allt ber að gera sem hægt er til að koma í veg fyrir að slík stórslys verði en að sjálfsögðu þarf að hafa viðbúnað ef svo fer. Fyrirspurnin er fram borin til að fá fram viðhorf hæstv. samgrh. til málsins og upplýsingar um það til hvaða aðgerða hæstv. ráðherra telur að grípa þurfi til viðbótar þeim viðbúnaði sem fyrir er bæði hér heima og erlendis.