Vá vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:05:22 (3886)

1996-03-13 14:05:22# 120. lþ. 106.2 fundur 354. mál: #A vá vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans vil ég gera nokkrar athugasemdir og ábendingar og þá það fyrst að mér fannst hæstv. ráðherra að ástæðulausu vísa frá sér að svara fyrsta tölulið fyrirspurnarinnar. Í raun kom hæstv. ráðherra að því máli síðar í sinni ræðu en hafði þau orð í sambandi við fyrsta töluliðinn að hann vildi fara í landvinninga gagnvart hæstv. umhvrh. og hala til baka þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um að færa mengunarvarnir yfir til umhvrn. Þetta var satt að segja mjög kostulegt í svari hæstv. ráðherra. En í þessu efni kom hæstv. ráðherra, einmitt þegar hann vék að svari frá Siglingamálastofnun, að ákveðnum þáttum sem vissulega gætu verið til verulegra bóta og eðlilegar ráðstafanir í sambandi við kröfur varðandi búnað og siglingu skipa til landsins því hér er ekki eingöngu verið að fjalla um viðbrögð við mengun sem hefur orðið heldur til þess að koma í veg fyrir að slík vá skapist við t.d. skipstrand. Það sem hæstv. ráðherra nefndi og hafði komið fram frá Siglingamálastofnun er að svæðisskipta hafsvæðum við landið eftir gildi þeirra, bæði verndargildi og eins að því er hættu varðar. Ég vil eindregið hvetja til þess að á það ráð verði brugðið og eftir atvikum verði siglingaleiðum olíuflutningaskipa breytt með tilliti til slíkra svæða og einnig að hertar verði kröfur varðandi siglingu þeirra.

Sama gildir um spurninguna um tæknilegan búnað og gerð skipa. Hæstv. ráðherra tók sérstaklega fram að hann vildi ekki taka undir kröfuna um tvöfaldan byrðing olíuflutningaskipa, kröfu sem mjög víða er uppi. Ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra vill útiloka það að Ísland leggist á sveif til að fá það samþykkt í alþjóðlegu samhengi og að gömul olíuflutningaskip verði endursmíðuð eða endurgerð og þeim ekki leyft að sigla í 30 ár eins og nú er samkvæmt samþykktum frá 1993, í 30 ár með einfalt byrði samfara þeirri mjög auknu hættu sem af siglingu slíkra skipa stafar ef til strands kemur. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að taka verulega á á sínu valdsviði til þess að í reynd verði gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að fyrirbyggja vá.