Mengunarhætta vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:55:29 (3905)

1996-03-13 14:55:29# 120. lþ. 106.6 fundur 353. mál: #A mengunarhætta vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans. Vegna svars hans við 1. tölul. fyrirspurnarinnar tek ég fram að þó það sé vissulega rétt að það magn olíu, sem er flutt hingað til lands með skipum, er ekki í þeim mæli sem gerist erlendis þá segir magnið ekki allt, umhverfisaðstæður segja talsvert mikið um áhrif af slysum ef olía kemur í sjó. Eftir því sem sjórinn er kaldari þeim mun lengri tíma er olían að leysast upp með náttúrlegum hætti og það getur verið margfalt tjón. Ég hef lesið í erlendum ritum um allt að hundraðfalt tjón sem fer eftir köldum sjó annars vegar og hlýsævi hins vegar þar sem olíuslys verða og áhrif mengunar. Þetta ber því að taka með í dæmið.

Í öðru lagi ítreka ég hvílík nauðsyn er á að gætt sé samstarfs og samræmingar hjá Hollustuvernd ríkisins með öðrum aðilum aðilum sem í hlut eiga. Ég spyr hæstv. ráðherra enn frekar að því hvort þess sé gætt að allir hlutaðeigandi aðilar hafi það samstarf og sá undirbúningur liggi fyrir að allt gangi vel ef illa færi því að það er þá sem reynir á. Það varðar einnig þriðja þáttinn, þ.e. samstarf ráðuneyta eins og samgrn. og umhvrn., að mér er nokkuð til efs að þar sé tekið samræmt á málum eins og þyrfti að vera. Hæstv. umhvrh. gæti haft skoðanir á búnaði skipa sem kveðið er á um í lögunum um mengun sjávar, að ráðuneyti hans geti haft afskipti af og þar getur reynt á að gera alþjóðlegar kröfur um hertar aðgerðir fyrir utan það sem varðar flokkun og siglingaleiðir og flokkun á hafsvæðum með tilliti til hættu sem er heimild fyrir í lögum að hafsvæði séu flokkuð út frá því sjónarhorni.