Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:33:26 (3915)

1996-03-13 15:33:26# 120. lþ. 107.2 fundur 385. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# frv. 61/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir og aðeins segja að það er eðlilegt og sjálfsagt að reyna að breyta löggjöf okkar til samræmis við sáttmála sem við höfum verið þátttakendur í og viljum stuðla að að öðlist gildi.

Það er sérstaklega eitt atriði sem mér finnst ekki með góðum svip í þessu frv. en það kann að vera vandi við að fást. Þar er um að ræða lista í 3. gr. þar sem heimilað er að tilteknum efnum eða hlutum sé varpað í hafið. Það er 3. gr. frv. Ég tel að við Íslendingar þurfum að leitast við að umgangast hafið sem best og vera þar í fararbroddi. Til þess þurfum við auðvitað að bæta okkur í mörgum greinum og að setja heimild í lög um að hægt sé að setja dýpkunarefni, föst jarðefni, fiskúrgang og ekki síst skip og loftför í hafið fram til 2004, margt af því ber ekki góðan svip. Ég tel að við þurfum að endurskoða mjög alvarlega reglur um umgengni við hafið og hafsbotninn, bæði á grunnsævi og svo langt út sem seiling mannsins nær.

Ég man ekki betur en það sé bannað samkvæmt reglum okkar nú að sökkva skipsskrokkum í hafið, kann þó að vera að mig misminni, en samkvæmt þessu erum við með opna heimild til ársins 2004. Mér finnst að við verðum að leita annarra leiða í löggjöfinni ef þarna er um að ræða að uppfylla ákvæði alþjóðasamnings en taka svo til orða sem hér er gert.