Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 11:38:59 (3937)

1996-03-14 11:38:59# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[11:38]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Hér er fram haldið umræðu um frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem hafin var í byrjun síðustu viku ef ég man rétt og hefur slitnað nokkuð sundur. Það er ekki að undra þótt þessi umræða taki nokkurn tíma í þinginu í ljósi þess hvernig málið er vaxið. Hér er á ferðinni leikflétta, alveg óvenjuleg pólitísk leikflétta af hálfu hæstv. ríkisstjórnar landsins í sambandi við þetta mál. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þingið ræði og dragi skýrt fram hvernig þetta mál er vaxið. Það er reyndar ekki nein erfið gestaþraut í ljósi þess að fyrir þinginu liggur ekki aðeins þetta mál heldur 372. mál sem hefur verið útbýtt í þinginu. Það er frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sá fylgifiskur, einhverjir mundu segja gambítur, er fram kominn með formlegum hætti en var það ekki þegar umræðan hófst.

Framsöguræða hæstv. menntmrh. fyrir þessu máli um daginn var nokkuð sérkennileg og bar vitni þeirri einkennilegu stöðu sem hæstv. ráðherra er í og er settur í af ríkisstjórninni og sjálfsagt hluti af sem aðili að ríkisstjórn, þ.e. þessi tvö frv., það sem við ræðum hér og hið síðara sem ég nefndi, eru fram komin nokkurn veginn samtímis. Hið síðara var kynnt í drögum og lá fyrir þegar mælt var fyrir hinu fyrra. Áform ríkisstjórnarinnar, a.m.k. að því er varðar hæstv. fjmrh., hafa legið alveg skýrt fyrir um þessi efni um lengri tíma þannig að það er því miður ekki hægt að afsaka það hvernig hér er að málum staðið með því að menn hafi verið óvitandi um þetta þó að það kunni að vera að hæstv. menntmrh. hafi ekki vitað fyrr en þá tiltölulega nýlega hver áform hæstv. fjmrh. voru í einstökum atriðum. Um það er ekkert hægt að fullyrða.

Það er einn þáttur þessa máls sem ég vil koma að sérstaklega. Það eru skuldbindingar þingsins og þingheims þegar lögfest var frv. um grunnskóla á 118. þingi í febrúarmánuði á fyrra ári. Mér finnst að það hafi gleymst að rifja það upp hvernig mál stóðu þá. A.m.k. var ekki minnst á það af hæstv. ráðherra og kannski eðlilega. Ráðherrann talaði mikið um það í sínu máli og undirstrikaði að Alþingi hefði samþykkt einróma á sínum tíma frv. um grunnskóla sem fól í sér flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, samþykkt það einróma, úr þessu var mikið gert. En þá er rétt að rifja upp hvernig sú samstaða náðist í þinginu sem hæstv. ráðherra vitnaði til. Það var ekki þrautalaust og frá því var gengið með alveg ákveðnum hætti sem er nauðsynlegt að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd í núverandi stöðu. Það var nefnilega þannig að það stóð yfir mikil umræða um það, bæði innan þingsins en einnig meðal hagsmunaaðila og þá á ég ekki síst við samtök kennara, hvernig gengið yrði frá lagasetningunni að því er snertir yfirfærslu grunnskólans til ríkisins. Þessi staða endurspeglast mjög vel í þeim málsskjölum sem fram komu á síðasta stigi þegar gengið var frá frv. og það áður en það var lögfest. Þar komu fram álit eftir álit frá hv. menntmn. og formaður hennar sem hér er viðstaddur umræðuna man vafalaust gerla hvernig málum var háttað þá og hversu glöggt það stóð að frv. næði fram að ganga og hlyti lögfestingu með sæmilegu samkomulagi svo að ég orði það ekki fastar, því að meira var ekki hægt að segja. Sumir þingmenn sem sátu hjá við afgreiðslu málsins, þar á meðal sá sem hér stendur, höfðu ekki mikla sannfæringu fyrir því að það væri verið að stíga farsælt skref til framtíðar litið fyrir grunnskólann með því að flytja þá þætti sem eftir stóðu, þ.e. varðandi kennarana og laun þeirra og í rauninni forræði eins og um það er búið í lögunum um grunnskóla sem nú gilda.

[11:45]

Ég hef haft miklar efasemdir um að það væri rétt að ganga svo langt eins og gert var með lögunum um grunnskólann og þetta á við um fleiri þætti sem varða spurninguna um flutning verkefna frá ríkinu til sveitarstjórnastigsins. Það segi ég ekki vegna tortryggni gagnvart þeim sem skipa sveitarstjórnir hverju sinni eða sveitarstjórnir geti ekki rætt mál prýðilega að því er varðar þeirra verksvið og nærumhverfi og margt væri hægt að flytja þangað sem nú er á hendi ríkisins. Þegar um er að ræða stórmál eins og hér, þ.e. spurninguna um yfirráð yfir heilu skólastigi, málsmeðferð varðandi heilt skólastig þá spyrjum við spurningarinnar um það hvernig almannavaldið getur tryggt með löggjöf og íhlutunarrétti það jafnræði sem við gerum kröfu um að ríki óháð búsetu og kyni að því er varðar grunnskólann og þetta má gilda um mörg önnur svið.

Því er ég að rifja þetta upp að það snertir afgreiðslu málsins. Ég gekk ekki gegn málinu á lokastigi vegna þess að það samkomulag sem gert var hafði tekist, sú málamiðlun sem gerð var og endurspeglast í lokaafgreiðslu hv. menntmn. áður en frv. var lögfest vegna þess að hagsmunasamtök kennara töldu sig geta við unað. Hvernig var þá afgreiðslan? Hún birtist í því, virðulegi forseti, að 23. febr. 1995 kom fram framhaldsnefndarálit frá meiri hluta menntmn., sem sagt skipt nál. þar sem meiri hlutinn stóð að framhaldsnefndaráliti við 3. umr. málsins og fylgdu þar brtt. því áliti við 57. gr. eins og frv. var þá statt. Stjórnarandstaðan var ekki hluti af þessu nál. sem þarna lá fyrir. En tveimur dögum síðar, 25. febr. 1995, kemur inn í þingið annað framhaldsnefndarálit frá sömu þingnefnd, frá menntmn., um frv. til laga um grunnskóla þar sem öll nefndin stendur að málsafgreiðslu og nýrri brtt. sem fylgir þessu áliti. Það var þetta samkomulag sem hafði tekist í menntmn. um hvernig 57. gr. frv. skyldi orðuð sem innsiglaði þá samstöðu sem endurspeglaðist í þinginu þannig að ekki voru greidd atkvæði gegn þótt nokkrir þingmenn sætu hjá við afgreiðslu málsins og gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Þannig var þetta vaxið. Þetta nál. vil ég leyfa mér, að lesa upp samhengisins vegna, með leyfi forseta:

,,Menntamálanefnd hefur komið saman til fundar um málið eftir að það var tekið til 2. umræðu. Á fundinum var lögð fram eftirfarandi yfirlýsing:

,,Ríkisstjórnin telur mikilvægt að víðtæk sátt takist um flutning grunnskólans milli hlutaðeigandi aðila, ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara.

Ríkisstjórnin hefur gefið samtökum kennara fyrirheit um að þær breytingar verði gerðar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi kennurum og skólastjórnendum sem rétt hafa átt til aðildar að þeim sjóði að þessi réttindi þeirra verði eigi lakari eftir breytinguna.

Þá hefur ríkisstjórnin einnig heitið samtökum kennara því að sett verði sérstaklega í lög ákvæði er tryggi framangreindum hópi kennara og skólastjórnenda, eftir því sem við getur átt, óbreytt réttindi eftir flutning grunnskólans.

Stjórnmálaflokkarnir munu beita sér fyrir því meginmarkmiði að kennarar fái jafngild kjör og réttindi eftir að yfirfærslu er lokið.``

Nefndin leggur til breytingar á 57. gr. frumvarpsins sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um stöðu réttinda- og lífeyrismála kennara við tilflutning grunnskólans. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði á um að fyrir liggi breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Í þriðja lagi er lagt til að lögin komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1. ágúst 1996.``

Þetta er undirritað af öllum nefndarmönnum í hv. menntmn. 25. febr. Þegar atkvæði eru greidd og frv. afgreitt þá hefst 57. gr. með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996 enda hafi Alþingi þá samþykkt ...``

Nál. er hluti af þessari gjörð og allir sanngjarnir aðilar hljóta að sjá að með þessu er þingið að taka á sig siðferðilega skuldbindingu gagnvart þeim aðilum sem áttu í hlut og á þessu lokastigi málsins höfðu haft skýra fyrirvara, og þá á ég við kennarasamtökin, samtök kennara í grunnskólum, og töldu sig eftir atvikum að þessum gjörningi fyrirliggjandi við þetta unað og lögðu af þá miklu andstöðu sem var að finna í röðum þeirra, bæði af skólapólitískum ástæðum en einnig af kjarahagsmunaástæðum gegn því að yfirfærsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga ætti sér stað. Þessi andstaða að því er varðaði hin skólapólitísku sjónarmið var ekki síst víða úti um landið, í dreifbýli í landinu, sem á eðli máls undir högg að sækja að því er varðar kröfuna um jafnræði í kennslu og aðstöðu nemenda og starfsmanna skóla. Það eru þeir aðilar sem voru eðlilega uggandi um þessa tilfærslu og ég skil sjónarmið þeirra afar vel.

Ég held því að þetta verði að fylgja með þegar hæstv. menntmrh. undirstrikar í framsögu sinni fyrir málinu afgreiðslu Alþingis, einróma samþykki Alþingis á sínum tíma fyrir þessa yfirfærslu. Það gengur að sjálfsögðu ekki upp. Það gengur ekki með neinu móti upp að á sama tíma og menn ætla sér að ganga frá frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla með þeim hætti sem fyrir liggur í þessu frv. að breyta í mörgum grundvallaratriðum stöðu opinberra starfsmanna, þar á meðal kennara framhaldsskóla og annarra skólastiga sem taka laun frá ríkinu, breyta kjörum þeirra og réttindum og smeygja svo á lokastigi máls inn í grg. með frv. þeirri yfirlýsingu sem margoft hefur verið rædd í sambandi við málið að komi óskir um það frá sveitarstjórnarstiginu eða samtökum kennara muni ríkisstjórnin beita sér fyrir upptöku máls með öðrum hætti.

Það breytir engu í þessu sambandi þó að hæstv. menntmrh. lýsi því yfir að hann út af fyrir sig hafi ekki frumkvæði að upptöku málsins. Hvaða gagn er í slíkum yfirlýsingum þegar um málið er þannig búið sem raun ber vitni? Fyrir nú utan það að ævi manna á ráðherrastóli er háð óvissu og þar kemur að sjálfsögðu maður eftir mann og yfirlýsingar einstakra ráðherra duga ekki lengur en þeir fara með vald sitt. Ég tel að það sé með öllu óverjandi að ætla að knýja fram yfirfærslu grunnskólans, telja að forsendurnar fyrir henni séu uppfylltar þegar staðið er að málum af hálfu ríkisstjórnarinnar að því er varðar opinbera starfsmenn með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Ég er satt að segja mjög undrandi á því að hæstv. ríkisstjórn skuli reyna að þrýsta málum fram eins og hér er unnið. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin geri ráð fyrir því að komast upp með það að standa að málum eins og hér er lagt upp. Ég tala ekki um afleiðingarnar fyrir grunnskólann, fyrir skólann, fyrir börnin og nemendurna og starfsmenn alla sem hafa á undanförnum árum verið að reyna að bæta kjör sín að því er varðar kennarana, þau kjör sem þeir búa við í hatrömmum átökum við ríkisvaldið með þeim litla árangri sem sú barátta hefur skilað og þeim miklu fórnum sem hafa verið færðar og álagi á þetta skólastig sem því hefur fylgt ef á þeim tíma sem á að afhenda forræði skólastigsins eins og hér er um búið frá ríki til grunnskólans að þá ætli menn að hafa tímasprengju undir þeim gjörningi. Það er dagljóst að ekki verður til langframa við það búið að einhver allt önnur lögmál gildi um starfsmenn sveitarfélaga, um fjölmenna starfsstétt sem væri komin inn til sveitarfélaganna og hefði við þau að semja annars vegar, og starfsmenn sem gegna í reynd hliðstæðum störfum þó að á öðru skólastigi sé en þiggja laun frá ríkinu og að réttindi þeirra og staða verði öll önnur.

Ég skil vel þann fjölda áskorana sem berast alþingismönnum nú frá samtökum kennara og opinberra starfsmanna og fylla orðið möppur, sem borist hafa frá fundum þeirra sem haldnir hafa verið að undanförnu og enn er verið að boða til. Ég held að Alþingi og hæstv. ríkisstjórn eigi að hlýða á þau viðvörunarorð og ég hvet hæstv. menntmrh. og enn frekar hæstv. forsrh. til þess að doka við varðandi þessi mál, ekki að reyna að þrýsta þessu frv. fram til lögfestingar á meðan ekki er séð fyrir hver verða afdrif þess frv. sem nýlega hefur verið dreift um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þannig að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera í þessu efnum og Alþingi Íslendinga sjái eitthvað inn í framtíðina að því er þetta varðar.