Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:52:39 (4144)

1996-03-21 10:52:39# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:52]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Mér kemur það ekki svo afskaplega mikið á óvart hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn gengur fram gagnvart forustu þingsins og stjórnarandstöðu. Við höfum verið að sjá fram á það nú undanfarið síðustu vikurnar hvað það er sem þetta stjórnarsamstarf öðru fremur snýst um. Hver er bakfiskurinn í þessari ríkisstjórn, hinn málefnalegi bakfiskur? Hann hefur verið að koma fram undanfarnar vikur og nú birtist hann okkur þannig að hvern daginn á eftir öðrum koma fram frv. sem renna að einum ósi hvað snertir vilja ríkisstjórnar. Hitt finnst mér aftur óskynsamlegt af forustu þingsins að beita sér fyrir þessum vagni sem ríkisstjórnin ýtir þarna fram. Ég tel það mjög óskynsamlegt út frá því ef menn ætla hér að sinna alvöruþingstörfum og reyna að ná fram t.d. lagafrumvörpum á komandi vikum sem sæmileg sátt er um og ekki fela í sér stríðsyfirlýsingar eins og þau frv. sem hafa verið að birtast okkur að undanförnu.

Ég veit að hæstv. forseti liggur undir miklum þrýstingi frá þeim meiri hluta sem telur sig ráða öllu í þinginu. En ég vænti þess að hæstv. forseti hlusti á þær aðvörunarraddir sem hér hafa komið fram í umræðunni, þá kröfu um að þingheimur fái a.m.k. sæmilegan tíma til að fjalla um mál og setja sig inn í mál áður en þau eru tekin til umræðu. Hins vegar er okkur ekkert að vanbúnaði að ræða um þessa almennu stefnu sem hér er farið að draga að húni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það kemur ekkert á óvart, virðulegur forseti, að einmitt í þessu stjórnarsamstarfi skuli vera ýtt úr vör með mál sem ríkisstjórnir fyrri tíðar hafa ekki náð saman um eða lagt út í að flytja inn í þingið. Og ég veit ekki hvort ég á að óska Framsfl. til sérstakrar hamingju með það að ganga þarna í vatnið fyrir ákveðin öfl atvinnurekendamegin.