Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:41:26 (4570)

1996-04-11 16:41:26# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans hugleiðingar hér að því er snertir álag svokallaðra umhverfisgjalda eða umhverfisskatta til að takmarka mengun. Ég vil eindregið hvetja til þess að þau mál verði tekin ákveðnari tökum en gert hefur verið hingað til. Það hefur vafist fyrir mönnum innan Evrópusambandsins að ná þeim markmiðum sem menn hafa sett sér í þeim efnum. Við eigum ekki að bíða eftir að eitthvað gerist þar, við eigum að marka okkar stefnu í þessum málum. En ég var nú kannski ekki eingöngu að vísa til þessa þegar ég var að ræða um nýja umræðu innan Evrópusambandsins heldur umræðu sem er upp komin alveg nýverið í sambandi við það að endurskoða hugmyndirnar um olíugjaldið, endurskoða það frá grunni. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að láta kanna þau efni á vegum ráðuneytis síns þannig að þær upplýsingar liggi a.m.k. fyrir og séu teknar með. Þegar ég gagnrýndi skilin á mörkuðu tekjustofnunum var ég ekki að ræða um heildarfjármagn til vegagerðar sem slíkrar heldur þá staðreynd að í vaxandi mæli hafa markaðir tekjustofnar verið teknir til annarra nota inn í ríkissjóð í allt öðrum mæli en áður hefur þekkst. Það var að vísu gripið til þess ráðs illu heilli einu sinni líklega árið 1989 að smávegis var tekið af mörkuðum tekjustofnum í ríkissjóð. En þessi og fyrrv. ríkisstjórn hafa gerst býsna stórtækar í þeim efnum og það gagnrýnum við.

Varðandi þá stöðu okkar hér í sambandi við þungaflutninga að við höfum ekki járnbrautir eins og gerist í öðrum löndum erum auðvitað með sjóinn. Við erum með byggðina tengda við sjóinn og mér finnst menn hafa verið ansi fljótir að yfirgefa þungaflutninga á sjó á milli landshluta í stað þess að greiða fyrir þeim og ýta undir slíka flutninga sem eru ótvírætt að því er varðar umhverfisáhrif, orkunotkun og slíkt miklu hagkvæmari. Hitt er þó jafnljóst, virðulegur forseti, að auðvitað hafa landflutningarnir marga möguleika og eru miklu sveigjanlegri en sjóflutningarnir og það eru kannski þær aðstæður sem hafa ráðið ferðinni í þessum efnum.