Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 14:10:12 (4631)

1996-04-12 14:10:12# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það er tímabært að málefni sjávarútvegsins komi til umræðu og vill nú svo til að í dag er 12. apríl og innan fárra daga rennur út samkvæmt lögum sá frestur sem stjórnvöld hafa til að taka afstöðu til hugsanlegra breytinga á heildarafla þorsks á yfirstandandi fiskveiðiári lögum samkvæmt en þar er miðað við 15. apríl sem eindaga.

Það frv. sem hér er mælt fyrir varðar að vísu ekki það efni en það er ekki óeðlilegt að til þess sé hugsað ekki síst í ljósi þess sem hefur verið að koma fram þessa daga og á þessum degi að því er varðar ákvarðanir þar að lútandi og mat frá ráðgjafa stjórnvalda, Hafrannsóknarstofnun, sem hefur verið að berast til eyrna manna í framhaldi af þeim rannsóknum sem hafa farið fram og eru kenndar við togararall, sem er þáttur til þess að fylgjast með viðgangi eins aðalnytjastofns okkar, þorskstofnsins, og hæstv. sjútvrh. hefur þau mál nú til athugunar af sinni hálfu. Ég nefni í þessu sambandi að manni finnst það allsérstök aðstaða sem hæstv. sjútvrh. er kominn í í sambandi við þau efni þegar yfir rignir hugmyndum frá stjórnarþingmönnum, það mætti kannski vel kalla það ráðgjöf, um hver eigi að vera niðurstaða hæstv. sjútvrh. varðandi þennan þýðingarmikla þátt, þ.e. ákvörðun um hugsanlegar breytingar á veiðum á yfirstandandi ári og aflahámark þar að lútandi. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki sérstaklega öfundsverður þegar fram koma frá einum stjórnarþingmanninum á fætur öðrum hugmyndir um breytingar og fréttir um að verið sé að flytja tillögur innan stjórnarflokkanna um að binda hendur hæstv. ráðherra. Síðan gerist það eftir að þær fréttir berast að sjálft höfuð ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., kemur fram á völlinn og greinir frá því sem sínu mati að það væri nú allt í lagi að rýmka til. Hæstv. forsrh. er því orðinn þátttakandi í þessu sérkennilega kapphlaupi sem hafið er á stjórnarheimilinu að tilefni dagsetningarinnar fram undan, 15. apríl, og ákvarðanir sem því tengjast.

Ég ætla ekki að gefa hæstv. sjútvrh. einhver ráð í þessum efnum. Ég hef ekki haft handa á milli þær tillögur sem fyrir liggja frá Hafrannsóknarstofnun varðandi þorskstofninn, stærð hans og mat stofnunarinnar að því leyti. Ég vil aðeins segja um þetta efni að ég tel það vera mjög mikils virði, mjög þýðingarmikið að stjórnvöld haldi á þessum gífurlega þýðingarmiklu málum af forsjálni og fyrirhyggju og að menn varist að hlaupa upp til handa og fóta þó að vísbendingar sé um betri tíð í þessum efnum og gera kröfur um það í kapphlaupi hér á Alþingi að nú eigi að bæta við 5.000 tonnum eða 10.000 tonnum eða þaðan af meira. Menn eru orðnir svo framsýnir að þeir eru farnir að gera kröfur á næsta fiskveiðiár og farnir að viðra hugmyndir þar að lútandi. Ég veit satt að segja ekki, virðulegur forseti, hvar svona vinnubrögð eiga að enda. Að vísu þykist ég vita að hæstv. sjútvrh. reyni að leggja hlutlægt mat á þessi mál í sambandi við hugsanlegar breytingar. Ég er engan veginn að hafna því með þessum orðum að það geti ekki verið rök fyrir breytingum en ég vil aðeins hvetja til þess að á þau efni verði litið bæði faglega miðað við nútíð og ekki síður varðandi framtíð.

[14:15]

Ég hef tilhneigingu til þess að setja nokkurt traust á þá stofnun sem gerst ætti að vita og hefur aðstöðu til þess og er ætlað lögum samkvæmt að leggja mat á þessa hluti með hlutlægan rannsóknum. Hitt er annað mál að sú dagsetning sem hér er um að ræða, 15. apríl, er ekki mjög vel valin með tilliti til hugsanlegra breytinga vegna þess að niðurstöður eða úrvinnsla athugana sem fram hafa farið að undanförnu liggur ekki endanlega fyrir þannig að menn geti gert málin yfirvegað upp. Meðal annars er gert ráð fyrir því að af hálfu Alþjóðahafrannsóknaráðsins fari fram sérstakt mat á niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar og íslenskra fiskifræðinga að þessu leyti. Það mat mun ekki liggja fyrir fyrr en innan tíðar. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að tveir hv. þm. Alþb., Steingrímur J. Sigfússon og Kristinn H. Gunnarsson, hafa lagt fram frv. sem er síðar á dagskrá þessa fundar, um að færa þessa dagsetningu til frá 15. apríl til 1. júní sem veitti skynsamlegt svigrúm til þess að fjalla um þessi mál og taka ákvarðanir.

Ég ætla að snúa mér, virðulegi forseti, að frv. sem við ræðum hér sem er breyting á lögum um stjórn fiskveiða og tillögur sem þar liggja fyrir varðandi veiðar smábáta. Hér er um að ræða afar þýðingarmikið mál. Ég orðaði það svo á almennum fundi á Austurlandi um þessi efni með hæstv. sjútvrh. þar sem var fjöldi manns, að mér þótti það góð tilbreytni af hálfu hæstv. sjútvrh. að bjóða talsmönnum Landssambands smábátaeigenda til viðræðna um þessi mál. Það frumkvæði hæstv. ráðherra kom ýmsum nokkuð á óvart en með því var ráðherrann í rauninni að viðurkenna þá miklu gagnrýni sem fram kom á síðasta þingi, þ.e. 119. þingi þegar þessi mál voru mjög til umræðu. Stjórnarandstæðingar á þeim tíma og raunar stjórnarliðar ef ég man rétt, einhverjir, áttu hlut að því að gagnrýna þá málafylgju sem þá var uppi höfð í sambandi við tilhögun þessara mála. Og það var rökstutt með mjög skýrum hætti að sú útfærsla sem hæstv. ráðherra lagði þá til mundi ekki ganga upp. Það væri mjög erfitt að framkvæma þær tillögur og þær gætu engan veginn talist sanngjarnar eða líklegar til þess að ganga upp. Það sem hér liggur fyrir í tillögum sem hæstv. ráðherra ber fram með þessu frv. er í rauninni viðurkenning á því. En auðvitað er margt fleira sem þar fylgir því þar er verið að leggja til sem meginatriði að aflahlutdeild smábáta verði ákvörðuð með föstu hlutfalli miðað við tiltekna stærð á veiðistofni eða miðað við ákveðið aflahámark, 155.000 tonn, 13,9%.

Um þetta efni eru að sjálfsögðu deildar meiningar og menn hefur greint mjög á um stjórnun fiskveiða varðandi smábátana en auðvitað líka fjölmörg önnur efni sem ég ætla ekki að fara út í tímans vegna. En ég vil leggja áherslu á að það er tímabært að reyna að ráða þessum málum til lykta þannig að menn geti snúið sér að öðrum mjög brýnum hagsmunamálum varðandi sjávarútveginn, m.a. löggjafaratriðinu til að umræðan snúist ekki um þessi efni í hvert sinn sem stjórnun fiskveiða ber á góma.

Hæstv. sjútvrh. leggur til með frv. að aflahlutdeildin verði ákvörðuð sem fast hlutfall. Það er auðvitað tala sem er álitamál eins og fleira sem hér liggur fyrir en þá er jafnframt gert ráð fyrir því að hún geti dugað eitthvað fram í tímann og að veiðar báta sem velja fyrir mitt þetta ár að stunda frjálsar veiðar sem við köllum, þ.e. krókaveiðar, verði sniðnar að ákveðnum dagafjölda, þ.e. veiðidagar sem eru 84 samkvæmt frv. Þetta er breyting. Þetta er aukinn sveigjanleiki og allt annað en áður var uppi í sambandi við möguleika krókabáta til að sækja sinn afla. Ég tel út af fyrir sig að það sé margt jákvætt í þessum tillögum sem sjálfsagt sé fyrir þingið að taka á. Spurningin er hversu brýnt menn telja málið vera. Það kvarta margir undan því að ekki hafi nægt samráð farið fram varðandi athugun þessara mála. Gagnrýnin á tillögur hæstv. ráðherra kemur ekki síst fram af hálfu Landssambands íslenskra útvegsmanna og talsmanna þeirra og frá samtökum útvegsmanna í einstökum landshlutum sem hafa gagnrýnt hæstv. ráðherra mjög mikið fyrir m.a. skort á samráði. Nú skal ég ekki leggja mat á það efni. En ég tel að það sé jákvætt að fram eru komnar ákveðnar tillögur um tilhögun þessara mála sem þingið getur fjallað um í framhaldi af því að þessu máli verður vísað til hv. sjútvn. og að í framhaldi af því verði teknar ákvarðanir um það hvort menn kjósa að draga uppgjör þessara mála eitthvað lengur til þess að ítarlegri skoðun geti farið fram. Á það vil ég ekki leggja hér neinn endanlegan dóm né á þessar tillögur í einstökum atriðum. Ég vil þó segja að mér sýnast tillögurnar stefna í rétta átt og vera veruleg framför frá þeim tillögum sem mjög var deilt um á síðasta þingi.

Á það hefur verið bent í sambandi við þessi efni að fyrir utan þær þrengingar sem fyrirsjáanlegar voru hjá smábátum undir sex tonnum og stunduðu frjálsar veiðar, vegna skerðingar sem við blasti á aflahlutdeild þeirra, þá sé bátaflotinn sá hluti veiðiflotans sem verst hefur orðið úti í skerðingum á liðnum árum, þar á meðal smábátar sem völdu sér aflahámark og fengu því úthlutað á sínum tíma. Ég tel að það séu mjög mikil rök fyrir þessari gagnrýni og þó að það sé réttmæt ábending að sú skerðing á þeim sem hafa búið við ákveðið aflahámark, hvort sem um mikla eða litla hefur verið að ræða, það hefur gengið jafnt yfir alla, þá eru aðstæður hinna stærri skipa, togaraflotans, verulega aðrar og möguleikar hans til þess að bregðast við þessum samdrætti í þorskafla verulega aðrar en hjá þeim sem eru á smæstu fleytum, þ.e. smábátum sem völdu sér aflamark á sínum tíma og eru nú komnir í slíkar þrengingar að það getur ekki endað nema á einn hátt í rauninni enda hefur þeim fækkað sem hafa haldið áfram í þessu kerfi og þeir freistast til þess að selja aflahlutdeild sína.

Ég tel því að það sé réttmætt og nauðsynlegt að fara yfir stöðu þessa hluta flotans alveg sérstaklega og athuga hvort hægt sé að lagfæra stöðu þeirra sem þarna eiga hlut að máli. Í rauninni er það eiginlega mjög merkilegt að ekki skuli hafa verið gripið til róttækari aðgerða af hálfu samtaka smábátaeigenda til þess að knýja fram breytingar á kjörum þeirra sem þarna um ræðir, jafnvel með því að að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort að þarna sé gengið á rétt manna. Um það vil ég út af fyrir sig ekkert fullyrða en dæmið er ljótt þegar á það er litið eins og m.a. var dregið fram á almennum fundi á Austurlandi fyrr í þessari viku þar sem menn sem lögðu upp með allt 100 tonnum í afla eru komnir niður í 16 tonn hvað snertir heimilaðar veiðar með aflamarki.

Ég vil vekja á því athygli, virðulegur forseti, að Alþb. hefur áður flutt tillögur á þinginu, reyndar þing eftir þing, um breytingar á vissum atriðum varðandi stjórnun fiskveiða, þar á meðal tillögur sem lúta að því að bæta hlut báta undir sex brúttórúmlestum sem stunduðu veiðar með aflamarki. Um það fluttu þeir hv. þm. Jóhann Ársælsson og Steingrímur J. Sigfússon tillögur á 117. löggjafarþingi sem því miður náðu ekki fram að ganga en gerðu ráð fyrir leiðréttingu að þessu leyti.

Það hefur mikið á það skort að mínu mati að fram færi víðtækt mat á því hvað sé æskilegt í uppbyggingu og samsetningu flota okkar til lengri tíma litið. Hvers konar þróun menn vildu sjá í sambandi við nýtingu landhelginnar og hvaða bátastærðir, hvers konar fiskiskip og hvers konar veiðiaðferðir séu eðlilegar í sambandi við sjálfbæra nýtingu sem er auðvitað það sem við þurfum að stefna að. Ég held að það séu miklar hættur því samfara að ætla að setja allan flotann, einnig hinar smæstu fleytur, á framseljanlegt aflamark sem getur fyrr en varir leitt til þess að veiði þeirra dragist mikið saman eða verði aflögð með öllu vegna þess að veiðiheimildir þeirra verði keyptar upp. Það er því nauðsynlegt að mínu mati að yfir þessi efni sé farið með miklu meira ákvarðandi hætti en gert hefur verið og leitast við að meta hvað telst hagkvæmasta nýtingin, hvers konar bátastærðir það eru sem æskilegt er að þróa til að nýta okkar auðlindir sjávarins á sjálfbæran hátt. Og þetta ætti að vera eitt af þeim rannsóknar- og þróunarverkefnum sem eru ofarlega á baugi í sambandi við okkar sjávarútvegsmál.

Þetta eru nokkur atriði sem ég vildi að fram kæmu við 1. umr. þessa máls. Ég vil ítreka að ég tel það mjög sérkennilegt að þessa dagana eru að koma fram af hálfu stjórnarliða tillögur sem vísa verulega í aðrar áttir en það sem fram kemur hjá hæstv. sjútvrh. Auðvitað er hver þingmaður ábyrgur fyrir sínum hlut á Alþingi en við hljótum að taka eftir því þegar uppi er höfð mjög ákveðin gagnrýni og reyndar boðaðar tillögur sem vísa verulega í aðra átt heldur en hér um ræðir.

Það var frá því greint á almennum fundi á Austurlandi sem haldinn var á Reyðarfirði níunda þessa mánaðar að um þessi mál væri full eindrægni í þingflokki Sjálfstfl., í flokki hæstv. sjútvrh. En eftir að sá fundur var haldinn hefur nú annað komið í ljós því a.m.k. einn hv. þm. flokksins hefur boðað fyrirvara eða andstöðu, --- fulla andstöðu við þetta frv. sem liggur fyrir nema að á frv. verði gerðar tilteknar breytingar sem þingmaðurinn hefur viðrað. Það blása því vindar um hæstv. sjútvrh. þessa dagana, bæði að því er varðar þetta mál og þá ákvörðun sem ráðherrann þarf að taka af eða á í sambandi við aflamark þorsks á yfirstandandi fiskveiðiári, raunar fyrir næstkomandi mánudag. Ég treysti fulltrúa okkar í sjútvn. þingsins, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, afar vel til að halda á þessu máli fyrir okkar hönd í nefndinni, en þingmaðurinn er með fjarvistarleyfi í dag vegna annarra skyldustarfa og því ekki þátttakandi hér í umræðunni.