Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:35:53 (4735)

1996-04-15 16:35:53# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:35]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að gerast áheyrnaraðili að svonefndu Schengen-samstarfi. Það skref felur í sér samkvæmt því sem stendur í skýrslu dómsmrh. og utanrrh. að stefnt sé að fullri þátttöku í Schengen-samstarfinu. Ég vek á því sérstaka athygli, ekki síst í ljósi niðurlagsorða hæstv. dómsmrh. þar sem hann sagði að þessi áheyrnaraðild hefði engar skuldbindingar í för með sér. Yfirlýsing um að þiggja boðið um áheyrnaraðild felur þó samkvæmt skýrslu ráðherrans í sér eins og ég nefndi hér, að stefnt sé að fullri þátttöku í Schengen-samstarfinu. Hér er því ekki um neitt smámál að ræða heldur afdrifaríkt skref sem haft getur veruleg áhrif á þróun íslenskrar utanríkisstefnu á næstunni. Í ljósi þess, virðulegi forseti, hef ég óska eftir því að auk þess sem hæstv. dómsmrh. er hér eðlilega við umræðuna þá verði hæstv. forsrh. hér einnig og mun ég beina til hæstv. forsrh. sérstakri fyrirspurn um þetta mál.

Sú skýrsla sem hæstv. dómsmrh. hefur mælt hér fyrir er í litlu samræmi við það sem fram kom af hans hálfu um hversu léttvægt þetta væri. Í skýrslunni er enga viðleitni að finna til að líta hlutlægt á þá kosti sem til staðar eru. Þess í stað er einhliða fjallað um það sem í Schengen-samstarfinu felst og þá fyrst og fremst rakin formtæknileg atriði Schengen-samningsins. Ekki er minnst á þann möguleika að Íslendingar hafni aðild að Schengen-samstarfi í skýrslunni sjálfri hvað þá að lagt sé mat á þá stöðu sem það hefði í för með sér. Vandlega er þagað um yfirlýsingar annarra valdamanna á Norðurlöndum þess efnis að norrænu Evrópusambandsríkin, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, muni ekki ganga í Schengen, og setja þar með norræna vegabréfasambandið í uppnám, nema Ísland og Noregur finni ásættanlegan flöt á samstarfi við Schengen-ríkin. Með öðrum orðum ef Ísland eða Noregur kjósa að standa utan Schengen-samstarfs verði norræni vegabréfasáttmálinn áfram í gildi.

Á 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember sl. sagði Poul Nyrup Rasmussen m.a. að Danmörk gangi því aðeins inn í Schengen-samstarfið, orðrétt á dönsku: ,,Når der er garanti for en løsning som sikrer at den nordiske pas union kan bevares og som de fem nordiske lande kan acceptere.`` Þ.e., lauslega þýtt: ,,Þegar fullvissa er fyrir lausn sem tryggi að norræna vegabréfasambandið geti haldið áfram og sem Norðurlöndin fimm geti fallist á.``

Þann 20. des. 1995 lagði sænskur þingmaður svofellda fyrirspurn fyrir sænska viðskiptaráðherrann, um leið Evrópuráðherra Svía: ,,Hyggst sænska ríkisstjórnin sækja um aðild að Schengen-samstarfinu þótt það sýni sig að norræna vegabréfasambandið um frjálsa för fólks geti ekki haldist áfram?`` Hellström viðskiptaráðherra svaraði spurningunni í sænska þinginu þann 2. jan. sl. stutt og laggott: ,,Svaret på frågan er nej.`` Þ.e.: ,,Svarið við spurningunni er nei.``

Á skýru máli þýðir þetta: Annaðhvort gerast öll Norðurlöndin saman þátttakendur í Schengen eða þau standa öll utan við. Í báðum tilvikum er áfram tryggt að ekki þarf að nota vegabréf innan Norðurlanda. Nú er það hins vegar þannig bæði hér og í Noregi notað sem meginröksemd, og jafnvel sú eina fyrir Schengen-þátttöku, að varðveita þurfi norræna vegabréfasamstarfið. Það er athyglisvert að heyra það af vörum dansks embættismanns á ráðstefnu sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs stóð fyrir um Schengen og haldin var í Keflavík í febrúar sl., að nei við Schengen-þátttöku af Íslands og Noregs hálfu væri aðeins ,,hypotetisk mulighed``, þ.e. fjarstæðuhugmynd. Og íslenski utanrrh. tók í rauninni í sama streng. Yfirlýsing danska forsætisráðherrans og sænska viðskiptaráðherrans fáum vikum fyrr skyldi gleymd og grafin og hún er heldur ekki nefnd af hæstv. dómsmrh. við þessa umræðu.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar ákveðið að velja síðari kostinn, þ.e. áheyrnaraðild svokallaða frá næstu mánaðamótum sem þýðir ákvörðun um fulla aðild að Schengen-samningnum þótt Ísland fái engu ráðið um ákvarðanir varðandi þann samning eða þróun hans en samningurinn telur ekki færri en 142 greinar. Schengen-samningurinn hefur að geyma ákvæði sem öll rúmast innan réttarkerfis Evrópusambandsins enda verða öll aðildarríki Schengen jafnframt að vera í Evrópusambandinu. Ákvæði Schengen-samningsins mega því að sjálfsögðu ekki ganga gegn forskriftum ESB. Miklu fremur eru Schengen-ríkin eins konar framvarðarsveit Evrópusambandsins að því er varðar afnám landamæraeftirlits og fylgja þar ákvæðum Maastricht-sáttmálans. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins knýr eðlilega á um að mikilvægir þættir Schengen-samningsins verði gerðir að hluta af reglum ESB og verkefni stofnana Evrópusambandsins og yfirgnæfandi meiri hluti á þingi Evrópusambandsins í Strassborg er sömu skoðunar. Það eru fyrst og fremst Bretar og Írar sem standa gegn því að afnema vegabréfaeftirlit á landamærum fyrir utan deilur sem enn eru uppi milli Schengen-landanna sjálfra og ég kem að síðar.

Með því að Ísland geri samstarfssamning við Schengen erum við að tengjast Evrópusambandinu enn nánari böndum en orðið er með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það er því ekkert undarlegt þótt þeir stjórnmálamenn hér á landi og í Noregi, sem eru ginnkeyptir fyrir aðild Íslands eða Noregs að Evrópusambandinu, klappi fyrir Schengen-tengslum. Norska ríkisstjórnin, sem beið ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Noregs í fyrravetur, leggur allt kapp á að binda trúss við Evrópusambandið á öllum sviðum. Hitt kann að sýnast torráðnara að íslensk stjórnvöld sem hafa aðild að ESB ekki á dagskrá skuli ætla að ganga þessa götu, samanber m.a. viðtal við hæstv. forsrh. Davíð Oddsson í Morgunblaðinu í gær. Hér er þó ekki allt sem sýnist því m.a. utanrrh. sem á hlut í þessari skýrslu setur sig ekki úr færi að undirstrika að aðild að ESB sé langt frá því að vera útilokuð jafnvel í náinni framtíð. --- Það vekur athygli, hæstv. forseti, að þeir eru ekki margir þingmenn Framsfl. sem sjá ástæðu til að vera hér við þessa umræðu og er þó hæstv. félmrh. hér og er það vel. Ég vona að hann sé ekki kominn í klappliðið.

Fyrir rúmlega hálfum mánuði hófst ráðstefna aðildarríkja Evrópusambandsins. Á henni er fjallað um breytingar á grunnsáttmála Evrópusambandsins sem og viðhorf til fjölgunar aðildarríkja. Á þessari ráðstefnu getur til þess komið að fleiri eða færri atriði sem nú eru skráð í Schengen-sáttmálann verði tekin upp af Evrópusambandinu í heild og verði hluti af reglum þess. Þetta er raunar viðurkennt í lokakafla þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu. Þar segir:

,,Geri aðildarríki Evrópusambandsins samninga í því skyni að koma á svæði án innri landamæra ákveða samningsaðilar með hvaða hætti ákvæði slíkra samninga koma í stað eða breyta ákvæðum Schengen-samningsins. Ákvæði sem eru í andstöðu við ákvæði sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa komið sér saman um skulu aðlöguð.``

Með þessu væri komin upp ný staða í samskiptum Íslands og Noregs við Schengen. Ákvæði sem nú þarf samþykki allra ESB-ríkja til að breyta gæti orðið hluti að meirihlutaákvörðunum á vettvangi Evrópusambandsins. Þá gæti svo farið að t.d. Noregur yrði að skerast úr leik vegna andstöðu nógu margra þingmanna í Stórþinginu samkvæmt reglum í norsku stjórnarskránni gegn breyttum Schengen-samningi. Þá væri norræna vegabréfasambandið í uppnámi. Því hljótum við að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum doka Íslendingar ekki við með samninga við Schengen þar til fyrir liggur hver verður niðurstaða ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins?

Ég vil leyfa mér af þessu tilefni að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh.: Telur hæstv. forsrh. ekki skynsamlegt að fresta af Íslands hálfu ákvörðunum um bindandi afstöðu til Schengen-samstarfs þar til lokið er ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins?

[16:45]

Það væri ekki óeðlilegt að þeir sem fyrirvaralaust mæla með uppáskrift á Schengen-reglu nú hefðu fyrir því að rökstyðja hve miklu skal kosta til að losna undan því að sýna vegabréf á landamærum í ferðum til Vestur-Evrópu. Hafa ber þá jafnframt í huga að menn munu hvort sem er þurfa að bera á sér persónuskilríki. Þannig hafa sænsk stjórnvöld nýlega gefið í skyn að innleiða þurfi sérstök skírteini fyrir einstaklinga til að framvísa hafi þeir ekki vegabréf í fórum sínum. Vegabréfaeftirlit felur sem slíkt ekki í sér hömlur á ferðafrelsi. Engum dettur í hug að innleidd verði skylda um vegabréfaáritun fyrir Íslendinga og Norðmenn sem ferðast inn á ESB- eða Schengen-svæðið. Bretar hafa hingað til staðið fast á að halda uppi vegabréfaeftirliti hjá sér og hið sama á við um Sviss, það mikla ferðamannaland. Allt of mikið er að mínu mati gert úr þýðingu þess að formlegt vegabréfaeftirlit sé aflagt. Í samskiptum Norðurlanda hefur það ekki síst haft táknræna þýðingu og hefur þetta verið mjög jákvætt en þegar bæta þarf afnám vegabréfaeftirlits innan Schengen upp með aðferðum sem um margt minna á lögregluríki ættu menn að spyrja sig hvort þau skipti séu í heild sinni til bóta.

Aðild að Schengen-samningnum felur m.a. eftirfarandi í sér fyrir Íslendinga:

Við gerumst landamæraverðir fyrir Evrsópusambandið þar eð landamæri okkar gagnvart ríkjum utan Schengen-samstarfsins verða um leið ytri landamæri Schengen-svæðisins og þá um leið Evrópusambandsins.

Við bindum okkur við sameiginlega stefnu með öðrum Schengen-ríkjum um landvistarleyfi og vegabréfaáritanir.

Ísland verður að skuldbinda sig til að fella ekki niður kröfu um vegabréfaáritanir gagnvart á annað hundrað ríkjum og við þurfum að segja upp samningum okkar um lausn frá vegabréfaáritunum, gagnkvæmt, við 19 ríki.

Við verðum að afnema heimildir fyrir kjörræðismenn Íslands til að veita vegabréfsáritanir og afturköllum um leið slíkar heimildir til 18 kjörræðismanna. Til að vega upp á móti afleiðingum af afnámi vegabréfaeftirlits á landamærum er gripið til víðtækrar samvinnu lögregluyfirvalda og margbrotinnar tölvuvæddrar upplýsingasöfnunar um einstaklinga.

Segja má að með Schengen-upplýsingakerfunum sé hinn alsjáandi stóri bróðir Orwells ljóslifandi kominn á vegginn. Víða í samningnum er rætt um ógn við almannaöryggi eða öryggi ríkisins. Skilyrði þess að veita útlendingi leyfi til að koma inn á Schengen-svæðið er m.a., auk þess að hann geti framfleytt sér á lögmætan hátt, og það er orðrétt tilvitnun í skýrsluna: ,,að hann hafi ekki verið lýstur óæskilegur í landinu og ekki megi ætla að hann muni spilla allsherjarreglu eða öryggi ríkisins í aðildarríki eða alþjóðlegum tengslum þeirra. Neita skal útlendingi, sem ekki uppfyllir öll skilyrði til aðgangs að svæðinu, um að koma inn á svæðið.``

Þetta má m.a. lesa á bls. 12. Þar stendur jafnframt varðandi eftirlit á ytri landamærum aðildarríkja Schengen að eftirlit skuli framkvæmt þar samkvæmt samræmdum reglum að teknu tilliti til sameiginlegra hagsmuna aðildarríkjanna. Og orðrétt segir þar, með leyfi forseta: ,,Samræmdu reglurnar eru að eftirlit með einstaklingum tekur ekki einungis til þess að staðreyna ferðaskilríki og önnur skilyrði fyrir komu inn á svæðið, dvöl þar, vinnu og brottför af svæðinu, heldur einnig rannsókna á og varna gegn hótunum gegn öryggi ríkisins og allsherjarreglu á Schengen-svæðinu.`` --- Það mátti ekki minna vera. Allsherjarreglu á Schengen-svæðinu.

Til að ná þessum markmiðum er sett upp þrefalt upplýsingakerfi sem í raun gerir mögulegar víðtækar og samræmdar persónunjósnir:

1. Kerfi í hverju einstöku aðildarríki.

2. Svokallað miðlægt stuðningskerfi. Það er stóra tölvan sem sendir vélrænt upplýsingar til kerfanna í aðildarríkjunum, þ.e. Schengen Information System.

3. Viðbótarupplýsingaskrifstofa í hverju landi sem kallast SIRENE sem er skammstöfun úr frönsku (Supplément d'information requis à l'entrée nationale). Og orðrétt er hlutverk þess ,,til að miðla milli lögregluyfirvalda upplýsingum sem falla utan þess sem skráð er í upplýsingakerfi Schengen`` --- þ.e. til viðbótar --- ,,og til að svara fyrirspurnum varðandi upplýsingakerfið.`` Því auðvitað verður að svara fyrir það.

Þá er gert ráð fyrir að gera megi samkomulag um staðsetningu svonefndra sambandsmanna, m.a. í þeim tilgangi að auðvelda skipti á upplýsingum milli Schengen-ríkjanna og veita þeim aðstoð til að gæta ytri landamæra. Væntanlega fá yfirvöld hér svona aðstoðarmenn, svona sambandsmenn frá þessum 14--15 ríkjum, eða fleiri kunna þau að verða, til þess að gæta ytri landamæranna. Allt lýtur þetta að þeim tilgangi að þétta netið á ytri landamærum Schengen-svæðisins og komi í staðinn fyrir vegabréfaeftirlit á landamærum. Jafnframt fær lögregla heimild til að elta menn yfir landamæri annars ríkis án sérstaks leyfis viðkomandi ríkis en á það reynir að vísu ekki hér þar sem haf skilur lönd.

Allir sem hýsa erlenda gesti, einnig borgarar Schengen-ríkja, skulu sjá til þess að fylla persónulega út skráningarkort og sanni á sér deili með gildum skilríkjum. Þetta á einnig við um tjaldsvæði, hjólhýsasvæði og báta, stendur þar.

Víða hafa komið fram áhyggjur og gagnrýni vegna þessarar víðtæku skráningarskyldu og upplýsingasöfnunar í tölvukerfi Schengen Information System. Miðstýrður tölvuheili Schengen-tölvunnar gengur þegar að fullu í Strassborg og þar eru þegar á skrá um 2 milljónir manna. Þrátt fyrir reglur um notkun og fyrirmæli um persónuvernd er ljóst að þessi kerfi lúta ekki nema í takmörkuðum mæli lýðræðislegu eftirliti og fara fljótt að lifa eigin lífi.

Á bls. 20 og 21 í skýrslu ráðherranna er fjallað um þessi efni, m.a. um rétt einstaklinga til að fá aðgang að upplýsingum um sjálfa sig, en það fari eftir lögum viðkomandi ríkis. Orðrétt segir, með leyfi forseta: ,,Sé slíkur aðgangur heimill ákveður eftirlitsaðili viðkomandi ríkis hvort heimilt sé að veita upplýsingar.`` --- Hvort heimilt sé að veita upplýsingar. --- ,,Neita skal um aðgang að upplýsingum ef það getur skaðað framkvæmd þeirra ráðstafana sem um er beðið eða til að vernda réttindi annarra.`` Gert er ráð fyrir sérstökum eftirlitsaðilum til að vaka yfir gagnasöfnun upplýsingakerfanna og eru um það afar flókin fyrirmæli, samanber bls. 21 í skýrslunni, þar sem samningsaðilar m.a. skuldbinda sig til að tryggja, orðrétt, --- það er löng setning, hæstv. forsrh., og byrja ég þó í henni miðri --- ,,að þeir sem hafa heimild til að nota skráðar upplýsingar fái aðeins aðgang að þeim upplýsingum sem varða starfssvið þeirra, að unnt verði að kanna og staðfesta til hvaða yfirvalda persónuupplýsingar hafa verið gefnar með vélrænum hætti, að unnt verði að kanna og staðfesta hvaða persónuupplýsingar voru færðar í annað tölvukerfi, hvenær það var gert og hver gerði það og að ekki verði unnt að lesa, afrita, breyta eða afmá persónuupplýsingar við framsendingu þeirra af öðrum en þeim sem til þess hefur heimild. Hver samningsaðili skal aðeins tilnefna sérstaklega hæfan aðila sem sætt hefur öryggisskoðun til að fara með upplýsingar í upplýsingakerfinu í eigin landi.``

Hverjum, hæstv. forseti, dettur í hug að kerfi sem þessi haldi á dögum þegar allt er falt fyrir peninga og innbrot í tölvukerfi eru álíka algeng og sjoppustuldur?

Margir hafa áhyggjur af afleiðingum Schengen-samningsins og þróun mála innan Evrópusambandsins í baráttu gegn útbreiðslu fíkniefna. Reglur innri markaðar Evrópusambandsins með afnámi tolleftirlits hafa nú þegar leitt til stóraukinnar umsetningar fíkniefna innan Evrópusambandsins. Reynsla Svía á fyrsta ári aðildar að ESB talar sínu máli en þar í landi var magn fíkniefna sem gert var upptækt af yfirvöldum árið 1995 um 40% minna en árið 1994, þ.e. áður en reglur ESB gengu í gildi. Viðurkennt er þó af öllum að magn fíkniefna og ólöglegs innflutnings, einnig á áfengi, hafi í reynd stóraukist, að ekki sé sagt margfaldast. Aukin umsvif fíkniefnasala í Svíþjóð hafa aukið stórlega álagið á Noreg í þessu sambandi sem sýndi sig m.a. í því að á síðasta ári gerðu norsk tollyfirvöld um helmingi meira af fíkniefnum upptækt en á árinu 1994 bæði að því er varðar magn og fjölda tilvika. Þróunin í Noregi er þar að auki í þá átt að sífellt meira er í umferð af sterkum eða hörðum fíkniefnum. Norðmenn verja sem svarar 100 millj. ísl. kr. meira til landamæravörslu í ár en í fyrra, einkum til að verjast fíkniefnasmygli vegna þessara breyttu aðstæðna. Formaður norska lénslögreglumannasambandsins segir nýlega í blaðaviðtali að baráttan gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna verði erfiðari með útvíkkun Schengen-svæðisins til Norðurlanda þótt norsk stjórnvöld haldi uppi tolleftirliti á landamærum. Það sé nánast óvinnandi vegur og gífurlega dýrt fyrir Noreg að taka að sér að gæta ytri landamæra Evrópusambandsins. Í stað lögreglusamvinnu samkvæmt Schengen-samningi vill hann efla alþjóðlegt samstarf lögregluyfirvalda gegnum Interpol og talar þar sama máli, ef ég man rétt, og Bogi Nilsson rannsóknarlögreglustjóri gerði á ráðstefnu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í febrúar sl.

Svipað mun verða upp á teningnum hér á landi og í Noregi. Þrýstingurinn af ólöglegum innflutningi fíkniefna mun aukast stórlega með afnámi landamæraeftirlits innan ESB og magnast enn frekar með Schengen-aðild Norðurlanda, beinni sem óbeinni. Hver skyldu vera áform íslenskra stjórnvalda um aukningu á tollgæslu og auknum fjárveitingum til að vinna gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna hingað? Hafa ber í huga að þótt ekki sé gert ráð fyrir formbreytingu á tollgæslu gagnvart ferðamönnum hingað til lands, hvort sem um er að ræða farþega utan eða innan Schengen-svæðis verður erfiðara fyrir tollyfirvöld að hafa skipulegt eftirlit með ferðamönnum eftir afnám vegabréfaeftirlits, einnig vegna þess að heimildin til að gera stikkprufur varðandi vegabréf, sem nú er í norræna vegabréfasamningnum, verður ekki lengur til staðar. Rökstuddan grun þarf að hafa til að hafa afskipti af ferðamönnum sem ferðast innan Schengen-svæðisins.

Mér vitanlega liggur heldur ekki fyrir með hvaða hætti á að halda uppi tollskoðun gagnvart ferðamönnum sem hingað koma frá Schengen-svæði eða hvort vænta má sérstakra krafna frá Schengen þar að lútandi. Þeir sem telja að hér sé um ástæðulítinn ótta að ræða að því er fíkniefnin varðar ættu að kynna sér stöðuna sem uppi er innan núverandi Schengen-svæðis eftir að samningurinn gekk formlega í gildi fyrir rúmu ári. Á það bæði við um fíkniefni og einnig vegna afbrotamanna og framsals þeirra. Belgar og Spánverjar hafa verið í hári saman út af því síðarnefnda. Frönsk stjórnvöld notuðu árs afmæli framkvæmdar Schengen-samningsins, 26. mars sl., til að gefa út það álit sitt að Schengen-samningurinn væri of lélegur til að Frakkar leggi út í að afnema vegabréfaskoðun og eftirlit með fólki á landamærum. Vísað var til baráttunnar gegn fíkniefnum en einnig lögreglusamvinnu og samræmdra reglna um vegabréfsáritanir. Að vísu ætluðu frönsk stjórnvöld fljótlega að opna landamærin til Þýskalands og Spánar án vegabréfaskoðunar en áfram yrði eftirlit gagnvart Niðurlöndum. Frakkar hafa nú ítrekað notfært sér undanþáguákvæði í Schengen-samningnum með vísan til þjóðaröryggis. Áhyggjur þeirra varðandi fíkniefni beinast m.a. að stefnu hollenskra stjórnvalda í fíkniefnamálum. Frakkar krefjast þess að Hollendingar leggi af þá stefnu að leyfa sölu og notkun svokallaðra mildari eða veikari fíkniefna en hollensk stjórnvöld hafa vísað slíkum kröfum á bug. Frakkar gera kröfu um að áður en landamæri til Benelux-landa verði opnuð verði Evrópusambandið sjálft að samþykkja ítarlegar leiðbeinandi reglur, er haft eftir Michel Barnier, Evrópumálaráðherra Frakka, nýlega. Meðal þess sem Frakkar vilja ná fram er allsherjarbann innan Evrópusambandsins gegn dreifingu hvers konar fíkniefna á ESB-svæðinu. Fundi sem ráðgert var að halda milli franskra og hollenskra stjórnvalda um fíkniefnastefnu Hollendinga var nýlega aflýst samkvæmt ákvörðun Frakka.

Virðulegur forseti. Ég vænti að það sem ég hef sagt varðandi fíkniefnamálin, sem er aðeins hluti af afleiðingum þess að fella niður vegabréfaskoðun og eftirlit og auðvitað liggja aðrar grundvallarástæður að baki sem valda þar auknum þrýstingi, ætti að nægja til þess að íslensk stjórnvöld tækju sig til að athuga þennan þátt í alvöru en vísi því ekki bara frá og treysti á tölvukerfin sem eiga að gæta ytri landamæra.

Svo kem ég, virðulegi forseti, að lokum að kostnaðarþættinum sem virðist vera það helsta sem stendur í sumum stjórnarliðum. Það er þegar kemur að peningunum. Ég hef ekki gert þá að aðalatriði þessa máls. Það eru hinir pólitísku þættir sem eru meginmálið þó að auðvitað hljóti menn að spyrja sig, einnig þeir sem eru inni á því að innleiða að ganga inn í Schengen með samstarfssamningi, hvað eigi að kosta miklu til. En það vekur sannarlega athygli og vekur tortryggni þegar fram koma skýrslur eftir skýrslur um áætlaðan kostnað vegna stofnkostnaðar, breytinga á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík sem byrjuðu í kringum 2 milljarða. Síðan komu upplýsingar á ráðstefnu í Keflavík í febrúar sl. um 1.000 milljónir sem það kostaði að stækka flugstöðina, að vísu ekki sundurgreint hvað væri Schengen og hvað væri almennar þarfir og þar var húsameistari á ferðinni. Síðan var annar aðili sem hafði verið látinn reikna og hann var með 600 millj. eða eitthvað þar um bil. En auðvitað varð að reikna betur því að hæstv. ráðherrum leist ekkert á blikuna að bera fram slíkar kostnaðartölur til að ganga inn í þessa sæld. Og þá er komin skýrsla sem metur þetta upp á 400 millj. samtals og reiknar með að Schengen-kostnaðarþátturinn sé 150 millj. Því eiga menn að kyngja til bráðabirgða meðan ekki kemur annað fram, hafa sér til huggunar á meðan verið er að koma þessu beisli á.

[17:00]

Virðulegur forseti. Að lokum ber ég fram til hæstv. dómsmrh. fáeinar fyrirspurnir. Hvenær er þess að vænta að mat á heildarkostnaði vegna Schengen-aðildar Íslands liggi fyrir? Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður því að þar eru margir þættir eins og vísað er til í skýrslunni.

2. Hefur farið fram sérstök greining á áhrifum Schengen-þátttöku Íslands á ólöglegan flutning eða smygl fíkniefna til Íslands?

3. Liggja fyrir hugmyndir um tilhögun á tollskoðun farþega sem hingað koma frá Schengen-svæðinu? Má treysta því að ekki komi til athugasemda frá Schengen þótt tolleftirlit verði hert ef talin er nauðsyn á, t.d. frá því sem nú er? Er hæstv. dómsmrh. reiðubúinn til að beita sér fyrir hertu eftirliti?

Virðulegur forseti. Ég hef tæpt á nokkrum atriðum varðandi þetta stóra mál sem ég tel að sé afar illa undirbúið af stjórnvalda hálfu og einhliða fram sett í þessari skýrslu. Ég vara við því að þetta skref sé stigið og þá sérstaklega nú meðan allt er á floti innan Evrópusambandsins um það hvað verða muni, hvaða Schengen-reglur verði hluti af Evrópurétti innan tíðar, hugsanlega í kjölfar þeirrar ríkjaráðstefnu sem nú er hafin. Þess vegna hef ég séð ástæðu til að spyrja leiðtoga ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., sérstaklega um það atriði hvort hann telji ekki ráðlegt að hinkra við þangað til menn sjá hverju ríkjaráðstefnan skilar í þessu efni.