Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:03:55 (4737)

1996-04-15 17:03:55# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:03]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir út af fyrir sig gott að heyra að hæstv. forsrh. telur ástæðu til að meta stöðu málsins í ljósi þeirrar þróunar sem verði á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsríkjanna. En um leið hlýt ég að benda á hversu afdrifaríkt í raun það skref sem nú er verið að taka um áheyrnaraðild er í þessu sambandi þar sem því fylgir stefnuyfirlýsing íslenskra stjórnvalda um að gerast fullur samstarfsaðili sem þýðir í raun uppáskrift á allar greinar þessa viðamikla samnings. Og mér finnst í raun alls ekki við hæfi að svona skref sé stigið án þess að Alþingi segi sitt orð um málið. En mér er ekki kunnugt um að utanrmn. þingsins hvað þá fleiri hafi kveðið upp dóma í því efni eða lagt á það neitt heildstætt mat sem væri þó eðlilegt vegna þess á hvaða krossgötum við stöndum í þessu máli og erfitt kann að vera að snúa við. Menn halda áfram að undirbúa þetta mál og jafnvel að ráðast í kostnað af þeim sökum og óhjákvæmilegt að leggja í kostnað, m.a. hönnunarvinnu, vegna þeirra breytinga sem þyrfti að gera til þess að við getum flokkað sundur hafrana og sauðina í Keflavík þegar þar að kemur.