Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:39:15 (4750)

1996-04-15 18:39:15# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. fer enn sem köttur í kringum heitan graut um þetta pólitíska álitaefni og segir að það séum ekki við Íslendingar sem eigum að meta það hvað séu viðunandi kostir, að yfirlýsingar hinna Norðurlandanna séu þær að þeir ætli að meta það fyrir okkur hvað sé viðunandi. Þannig getur ekki málið legið. Þannig liggja ekki yfirlýsingar forustumanna annarra Norðurlanda fyrir enda væri það nú skrýtið nema hæstv. ráðherra hafi fengið eitthvað allt annað að heyra frá hv. kollegum á Norðurlöndum um þessi mál sem þeir hafa ekki viljað hafa í hámæli.

Vegna þess sem kom fram hjá hæstv. ráðherra hvet ég mjög eindregið til þess að það verði sett upp sem sjálfstætt viðfangsefni hinna færustu aðila, sem fjalla um fíkniefnamál hérlendis, að fara yfir afleiðingar af hugsanlegri aðild að Schengen með tilliti til varna gegn fíkniefnum en ætla það ekki sem hliðarverkefni starfshópa sem þegar eru að störfum.