Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:13:53 (4975)

1996-04-18 14:13:53# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ástæðan til þess að ég bið aftur um orðið er að mér finnst ekki alveg nógu ljóst hvort farið er að ákvæðum reglugerðar nr. 137 frá 1987 sem kveður á um það beinlínis að óheimilt sé að auka efnum í bensín eða selja aukaefni í bensín til eldsneytis nema samkvæmt heimild ráðuneytis. Það er auðvitað afar nauðsynlegt að fylgt sé ákvæðum af þessu tagi og ótvírætt að það ber að gera það. Það ber líka að vera á verði gagnvart svona efnum og ekki bara einu sinni heldur fylgjast reglubundið ef til greina kemur að þarna sé um verulega hættuleg og heilsuspillandi efni að ræða. Ég tengi þetta því um leið að sú stofnun, Hollustuvernd ríkisins, sem á að vinna þessi mál fyrir ráðuneytið samkvæmt óskum þess, býr við slíkar aðstæður fjárhagslega að það er mjög erfitt fyrir þessa stofnun að framfylgja lögboðnum skyldum og höfum við oft rætt um það á þessu þingi, ég og hæstv. umhvrh. og þetta gengur ekki. Það gengur ekki að ætla sér að reka aðalvörsluaðila hollustumála í landinu með þeim hætti sem núverandi stjórnvöld og meiri hluti á Alþingi lætur gerast. Margt er þar í undandrætti af því sem lögboðnar skyldur eru, hvað þá að standa fyrir flóknari málum og fylgja eftir rannsóknum af þeim toga sem hér er um að ræða. Þörfin á því er mikil líka vegna þess að sumt af því sem er í umræðunni, kannski eitthvað af því sem er í ágætu efni sem hv. málshefjandi kom fram með, getur átt rót sína að rekja vegna samkeppni aðila sem hafa hagsmuna að gæta að viðhalda t.d. sölu blýbensíns. Menn þurfa að gæta þess að það er ekki allt heilagur sannleikur sem þannig er borinn á borð þó að í erlendum ritum sé.