Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:23:43 (5036)

1996-04-19 14:23:43# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur tíðindi sem koma fram í máli hæstv. utanrrh. sem jafnframt er formaður Framsfl. Forveri hans sem formaður í Framsfl. studdi þetta mál með meðflutningi á sínum tíma. Nú kemur arftaki hans fram og kveður upp úr um það að hann líti svo á að það sé útilokað að samþykkja frv. sem þetta, það eigi ekki að gera það og að það jafngilti úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Hæstv. utanrrh. hefur að sjálfsögðu sínar hugmyndir í þessu sambandi og enginn sem kemur í veg fyrir það að sjálfsögðu. En það er ágætt að það er dregið fram af hæstv. ráðherra hver hinn raunverulegi kjarni í hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins er. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra dró fram í því efni.

Grundvöllur í hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins hvílir á hinni svokölluðu fælingu með ógnarvopnum og því að Atlantshafsbandalagið áskilur sér rétt til þess að beita þessum ógnarvopnum að fyrra bragði og hefur verið ófáanlegt til þess, m.a. þegar dró til loka kalda stríðsins, að draga í land í þessum efnum og draga þessa kjarnorkustefnu sína til baka. Það er þetta sem er hinn nakti veruleiki að því er snertir Atlantshafsbandalagið á sama tíma og það ætti að vera markmið a.m.k. Íslendinga að berjast fyrir því að kjarnorkuvopn verði aflögð með alþjóðasamþykktum og beiting þeirra útilokuð með skuldbindandi alþjóðasamþykktum. En hæstv. utanrrh. Íslands tekur ekki aldeilis undir það því að hann samsamar sig í öllu stefnu Atlantshafsbandalagsins að þessu leyti.