Gæludýrahald

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 16:30:12 (5068)

1996-04-19 16:30:12# 120. lþ. 123.18 fundur 424. mál: #A gæludýrahald# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:30]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. við málinu. Ég vænti þess að það verði almennt litið jákvætt á þetta og af alvöru. Ég vil ekkert fullyrða um það að hér hafi flutningsmaður hitt naglann á höfuðið í öllum atriðum og er að sjálfsögðu reiðubúinn að hlusta á öll rök um það sem betur mætti fara.

Hér er spurt um fjölda. Það verður að segjast að um hann eru takmarkaðar upplýsingar eins og raunar kemur fram í greinargerð með frv. Þar er þó dreginn fram fjöldi skráðra hunda. Það er sú tegund þar sem skrá hefur verið haldin. Það kemur fram á bls. 3 efst í þingskjalinu að heildartölur um gæludýrahald liggja ekki fyrir, en hundahald er háð opinberri skráningu. Í Reykjavík eru skráðir hundar á árinu 1995 1.135 talsins og á Akureyri um 200 talsins. Það mætti kannski tvöfalda þessa tölu ef litið er til alls landsins. Þó efast ég um að það mundi ná því þegar litið er til þéttbýlis eingöngu.

[16:30]

Varðandi ketti þá liggja ekki fyrir neinar haldbærar upplýsingar um þá þannig að ég get ekki reitt þær fram. En það er gert ráð fyrir heimild til skráningar og það er sveitarfélaganna að ákveða hvort þá heimild skuli nota. Það er þá fyrst og fremst til að ná utan um málið til að hafa eftirlit sem ástæða gæti verið til slíkrar skráningar en ekki er sett nein lagakvöð um það heldur er það sveitarfélaganna að móta slíkt.

Varðandi kostnað er kannski hægt að fá vísbendingar úr því gjaldi sem fylgir skráningu ef gjaldtakan á að endurspegla tilkostnað við eftirlit og annað þess háttar. Mér sýnist að leyfisgjald fyrir hundahald sé víða á bilinu 5--7 þús. kr. á ári. Ákvæðið er að finna í samþykktum sem menn sjá gjarnan í B-hluta Stjórnartíðinda og er að heita má í hverju hefti gjaldskrár um hald hunda. Þetta er það sem ég get brugðist við í andsvari við fyrirspurn hv. þm.