Gæludýrahald

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 16:35:45 (5070)

1996-04-19 16:35:45# 120. lþ. 123.18 fundur 424. mál: #A gæludýrahald# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:35]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alveg burt séð frá því hvað okkur finnst almennt um gæludýrahald, og ég tek það fram að málið er tekið upp með skilningi og jákvæðum hætti að því hvað varðar möguleika fólks til að halda gæludýr, þá er það greinilega vaxandi vandamál í þéttbýli að hafa bönd á þessum málum þannig að sæmilegur friður geti ríkt um það. Þar reynir á löggjafann að setja leikreglur sem þeir sem eiga að útfæra þær nánar, þ.e. sveitarstjórnirnar eins og hér er lagt til, hafi einhvern ramma til að starfa innan og til þess að réttaróvissu sé eytt. Í útlöndum, um það var reyndar spurt fyrr í umræðunni, er einnig verið að taka á þessum málum í vaxandi mæli. Ég gat um dönsku ákvæðin þar sem gert er ráð fyrir hlutlægri bótaábyrgð þeirra sem halda gæludýr. Þegar litið er í samþykktir sem sveitarfélög hafa verið að setja og ég get veitt hv. þm. og öðrum aðgang að slíku eftir því sem ég hef dregið saman, þetta liggur að vísu fyrir í Stjórnartíðindum, þá er einmitt að finna viðleitni til þess að draga úr þessum neikvæðu áhrifum, þ.e. að styrkja grannaréttinn að því er þetta varðar. Menn hljóta t.d. í ljósi þess sem minnst er á í greinargerð með frv. að hafa vilja til að draga úr heilbrigðislegum vandamálum eða þrifnaðarvandamálum sem stafa af lausgangandi gæludýrum eins og hefur m.a. verið leitt í ljós með rannsóknum sem nýlega hafa farið fram í Reykjavík að því er varðar leikvelli barna. Það er ekki út af fyrir sig neitt gamanmál og það kunna að vera ýmis úrræði sem hægt er að grípa til og þá ber auðvitað að leitast við að gera það. Ég legg áherslu á að fyrir þá sem halda gæludýr er ekkert síður verðmætt að leikreglurnar séu skýrar og þetta geti farið fram með þeim hætti að grannaréttur sé virtur en þeir sem halda gæludýrin viti einnig sem skýrast um réttarstöðu sína.