1996-05-03 00:07:58# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka viðleitni þingmannsins til að skýra fyrir mér þau viðhorf sem hún vissulega ber fram í sínu nál. og ég geri ekki athugasemdir við það. Það sem ég hafði kannski sérstaklega í huga og hafði gert ráð fyrir að kæmi meira inn í umræðuna frá þessu sjónarhorni er sú mikla breyting sem er því samfara að það er verið að breyta móðurhlutverkinu frá því sem verið hefur í gegnum aldir og árþúsundir, milljónir ára á þróunarinnar braut með því að taka upp gjöf á eggfrumum. Móðurhlutverkið verður margrætt eins og vikið er að í lögfræðiritinu sem ég vitnaði hér til áðan. Spurningin er sem sagt: Hvert ber síðan tæknin okkur í þessu sambandi? Hvert ber hún okkur? Er hugsanlegt að menn í framtíðinni gangi enn lengra og móðirin þurfi ekki að ganga með barnið? Það er hægt að koma barni til þroska og verður ugglaust gert einfaldlega utan móðurlegs. Það eru þessi viðhorf, þessar stóru spurningar sem mér finnst að hljóti að snerta okkur reyndar af hvoru kyni sem er, en kannski ekki síður konur en karla. Ég velti fyrir mér hvort staða konunnar og sá styrkur sem henni hefur verið að móðurhlutverkinu veikist ekki við þau inngrip sem hér er um að ræða og þær breytingar og þau breyttu viðhorf sem þessu geta fylgt.