Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:37:41 (5679)

1996-05-06 16:37:41# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:37]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það dregur væntanlega að lokum umræðu um þetta umdeilda frv. og ég ætla að mæla aðeins nokkur orð af því tilefni.

Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa varað við lögfestingu þessa máls. Ég tel að það skorti mikið á að málið hafi fengið þá umfjöllun sem því ber. Ég tel að í frv. eins og það nú liggur fyrir sé að finna afar varhugaverð ákvæði sem líkleg eru til þess að draga úr þeirri hefð sem allir viðurkenna að er sérstök fyrir okkur Íslendinga, þ.e. kenninafnahefðinni og vega að þeim góða sið m.a. með ákvæðum um millinöfn sem upp verða tekin samkvæmt frv. Ég óttast að það sem hér er verið að lögleiða, ef það gengur fram til lengri tíma, verði til þess að rústa okkar kenninafnakerfi. Það er vissulega til bóta ef samþykkt verður tillaga sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur borið fram og hefur fengið þannig undirtektir að ástæða er til að vænta þess að hún verði samþykkt, þ.e. að yfir málið verði farið reglubundið og það metið. Þá hugsanlega kemst Alþingi að því að þörf er á að staldra við og breyta þeim lögum sem hér er verið að keyra í gegnum þingið.

Síðan málin voru rædd síðast hafa komið fram í mörgum greinum frá aðilum sem vel eiga að þekkja til þessara mála mjög ákveðnar og sterkar aðvaranir sem ég tel að geri að engu þær fullyrðingar sem hér hafa fram komið, og síðast í andsvari frá hv. þm. Hjálmari Jónssyni, að allar mótbárur við frv. þetta hafi verið reknar til baka og að engu gerðar. Ég tel að það sé afskaplega mikil einföldun og raunar allt of sjálfbirgingslegt að setja slíkt fram í ljósi þeirra gildu raka og aðvarana sem fram hafa komið að undanförnu og eru bornar fram með góðum hug og fyrst og fremst út frá því sjónarmiði að stuðla að varðveislu á íslenskum menningararfi. Mér er ljóst að það er meiri hluti fyrir því að lögfesta þetta mál. Ég vil ekki stuðla að því að þetta verði að lögum en ég tel til bóta að fá umrædda tillögu samþykkta.

Ég vil vekja athygli á því að dag hvern verður skýrara það sem ég hef varað við í umræðum um þetta mál í þinginu nú og áður, þ.e. sú tískubreyting sem er í fullum gangi að kalla Íslendinga tveimur nöfnum og ekki aðeins að skíra þá tveimur nöfnum eða gefa þeim tvö nöfn, heldur að nota þau og sleppa kenninafni. Þessi þróun er í fullum gangi og er ásamt því sem hér á að taka upp um millinöfn líkleg til þess að gera að bókstaf okkar kenninafnahefð. Það væri að æra óstöðugan að draga fram dæmi um það sem ég er að leiða líkur að svo mörg sem dæmin eru sem falla í fjölmiðlum landsins og máli manna dag hvern, þar sem fólk með tvínefni er nefnt tveimur nöfnum og kenninafni sleppt, en þeir sem við einnefni búa fá að halda kenninafni. Ég vara mjög alvarlega við þessari breytingu sem fær undirtektir á Alþingi m.a. þar sem menn láta sig hafa það sama í þessum efnum þegar vitnað er til einstaklinga eins og er að gerast úti í þjóðfélaginu.

Ég vænti þess að menn reyni að halda vöku sinni, einnig þeir sem virðast blindaðir af þeim nýjungum sem hér er verið að innleiða. Ég mun ekki stuðla að framgangi málsins á lokastigi.