Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:45:34 (5681)

1996-05-06 16:45:34# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mikils virði að sálarró hv. formanns allshn. virðist vera í besta lagi. Hv. þm. telur að nefndin hafi unnið málið vel. Ég hef ekki verið að fella neina sérstaka dóma yfir störfum nefndarinnar. Hún fékk í hendur mjög slæmt frv., afar slæmt frv. Á meðal höfunda þess er hv. þm. Hjálmar Jónsson sem ég hafði vænst að tæki öðruvísi á álitamáli eins og því sem hér liggur fyrir, en það hefur því miður ekki orðið. Svo kemur hv. formaður allshn. og hefur bara þjóðina á bak við sig í málinu. Meiri hluti þjóðarinnar er á þessari skoðun vegna þess að komið hafa fram, virðulegur forseti, umkvartanir við lög sem voru lögfest árið 1991 og því er formaður allshn. kominn með þjóðina á bak við sig í málinu.

Ég leyfði mér að benda á það að utan úr þjóðfélaginu hafa komið aðvörunarorð í grein eftir grein nú á undanförnum vikum eftir að umræða fór af stað um þetta mál úti í samfélaginu. Ég held að það væri fróðlegt og hefði verið ástæða til á þessum tímum skoðanakannana í landinu, þar sem verið er að skoða hjörtun og nýrun í næstum hverjum manni, að fara ofan í þessi efni til þess að finna m.a. hvort það væri einhver staður á bak við þær fullyrðingar sem nú eru að koma fram. En það er líklega of seint að til þess verði gripið.

Ég harma þá undanlátssemi sem hér er á ferðinni og kemur fram í tillögum meiri hlutans, þá vöntun á að standa vörð um okkar menningararf og vera að taka undir og hopa undan atriðum sem geta átt rétt á sér í vissum tilvikum, en hægt hefði verið að leysa með frjálslyndari framkvæmd gildandi laga.