Jafnréttisfræðsla fyrir dómara

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:43:58 (5793)

1996-05-08 14:43:58# 120. lþ. 133.6 fundur 466. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir dómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum er grundvallaður á samþykkt allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, nr. 34/180, frá 18. desember 1979, sem tók gildi 3. september 1981. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd í júlí 1980 en fullgiltur með heimild í ályktun Alþingis 13. júní 1985. Hann öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 18. júlí 1995.

Ráðuneytið lítur svo á að með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1985 og síðari lögum um sama efni hafi Ísland fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt ofangreindum samningi hvað löggjöf varðar. Jafnréttismál heyra hins vegar sem kunnugt er undir félmrn. Þar sem mannréttindamál heyra hins vegar almennt undir dómsmrn. er að nokkru leyti um sameiginlega ábyrgð þessara tveggja ráðuneyta að ræða gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Á vegum skrifstofu jafnréttismála sem heyrir undir félmrn. er stöðugt unnið að fræðslu og kynningu á stöðu jafnréttismála með útgáfustarfsemi og á annan hátt. Þá má einnig geta þess að tilvitnaður samningur hefur verið gefinn út í ritinu Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem út kom í Reykjavík 1992. Þessu riti hefur verið dreift til allra dómstóla landsins. Af hálfu dómsmrn. hefur ekki verið unnið sérstaklega að kynningu ofangreinds samnings enda hefur ráðuneytið litið svo á að það hafi fyrst og fremst verið á verksviði félmrn. að standa að slíkri kynningu. Samningurinn hefur ekki verið kynntur fyrir dómurum sérstaklega fremur en aðrir alþjóðlegir samningar sem fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu. Ráðuneytið hefur hins vegar í framhaldi af þessari fyrirspurn boðað til fundar með fulltrúum félmrn., Dómarafélagsins og Skrifstofu jafnréttismála og á þeim fundi verður tekið til umræðu hvernig rétt sé standa að kynningu á samningnum gagnvart dómurum.