Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:59:02 (5901)

1996-05-10 15:59:02# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:59]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er annað af stóru málum ríkisstjórnarinnar á þessu vorþingi komið til 2. umr. Hitt málið, stéttarfélög og vinnudeilur, er enn þá í hvarfi þó að það muni e.t.v. birtast innan tíðar.

Þegar mál þetta var rætt 21. mars sl., þ.e. málið um stéttarfélög og vinnudeilur var til umræðu, þá sagði formaður þingflokks Framsfl. m.a., með leyfi forseta:

,,Þetta er mál sem margar ríkisstjórnir hafa ætlað sér að taka á en ekki hefur orðið af því fyrr en nú og að mér læðist sá grunur að hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar gremjist það svolítið að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa haft kjark í sér til þess að taka á þessu vandasama og viðkvæma máli.``

[16:00]

Þessi ummæli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur láta kannski ekki mikið yfir sér, en þau segja talsvert um eðli ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. Mér sýnist að það hugarfar sem opinberast í þessum ummælum, að hafa kjark í sér til að taka á þessu viðkvæma máli, segi talsvert um forsendurnar fyrir myndun ríkisstjórnarinnar, þessarar helmingaskiptastjórnar sem sækir styrk sinn og hugmyndir, ekki síst til atvinnurekendasamtakanna í landinu.

Þegar ný forusta tók við í Framsfl. vorið 1994 vék komandi formaður, hæstv. núv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, m.a. að vinnumarkaðinum og nauðsyn þess að taka á vinnulöggjöfinni í landinu. Hann kastaði þá og síðar út agni til hins flokksins sem hlustar gjarnan á sjónarmið atvinnurekenda í landinu öðrum flokkum fremur um það hvað væri í boði við myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Hinn nýi formaður Framsfl. hafði mikið umleikis það ár sem átti eftir að líða til kosninga til þess að gera kröfu til þess að ný ríkisstjórn tæki við þannig að sjónarmið Framsfl. fengju áheyrn í ríkisstjórn landsins.

Það kom líka skýrt fram strax eftir flokksþing Framsfl. í öndverðum maí fyrir réttum tveimur árum, 1994, að að mati ritstjórnar Morgunblaðsins voru veruleg tíðindi á ferðinni. Í leiðara sem Morgunblaðið skrifar 6. maí 1994 er þessum forustuskiptum fagnað sérstaklega með tilvísun í ummæli hins nýja formanns flokksins sem boði veruleg veðrabrigði og gætu átt eftir að setja sitt eigið mark á Framsfl. Orðrétt segir þar, með leyfi forseta:

,,Af ummælum hans [þ.e. hins nýja formanns] er greinilegt að búast má við töluverðum áherslubreytingum. Í fyrsta lagi hefur hinn nýi formaður Framsfl. slegið á mildari strengi í Evrópumálum.`` Og síðar segir: ,,Þá hefur Halldór Ásgrímsson lýst því yfir að hann telji að endurskoða verði vinnulöggjöf hér á landi til að koma í veg fyrir að fámennir hópar geti í krafti valds náð fram kjarabótum umfram láglaunafólk. Enn fremur hefur formaður Framsfl. lýst þeirri skoðun að ekki verði lengra gengið í skattheimtu og áfram verði þörf á verulegu aðhaldi í ríkisbúskapnum.`` Og undir lok leiðarans segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Yfirlýsingar hins nýja formanns flokksins vekja upp áleitnar spurningar um hvort Framsfl. eigi eftir að færast til í hinu pólitíska litrófi á næstu árum. En jafnframt er ekki ólíklegt að viðleitni nýrrar forustu að því marki muni kalla fram sterka andstöðu innan flokksins, andstöðu sem nú þegar bryddir á.``

Ég læt þessa tilvitnun í heillaóskaleiðara Morgunblaðsins til hins nýja formanns Framsfl. nægja. Hún talar máli sínu um þær væntingar sem þar voru uppi og við verðum að segja að því miður hafa þessar væntingar Morgunblaðsins gengið eftir tveimur árum seinna ótrúlega skýrt, m.a. það sem kom fram á þessum tíma um áhuga forustu Framsfl. á endurskoðun vinnulöggjafarinnar. Auðvitað var það sett fram ekki með þeim hætti sem birtist okkur nú í formi frumvarpa á Alþingi, heldur undir rós um það að koma eigi í veg fyrir að fámennir hópar geti í krafti valds náð fram kjarabótum umfram láglaunafólk eins og það hét á þeim tíma.

Þegar við lítum til baka til allra síðustu ára þá held ég að það séu einmitt þau veðrabrigði sem þarna urðu vorið 1994 sem launafólkið í landinu er nú að súpa seyðið af. Það tók aðeins ár og þá fékk Framsfl. verulegan byr í kosningum og hin nýja forusta aukinn styrk sem hún notaði síðan til þess að mynda með hraði ríkisstjórn með Sjálfstfl. og það leið ekki á löngu þangað til byrjað var á verkefnunum sem höfðu verið boðuð og við erum m.a. að ræða á hv. Alþingi.

Það má nefna að í litlu kveri sem kallast ,,Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar`` voru þau áform sem uppi voru innsigluð þannig að þau fóru út af fyrir sig ekki dult þar sem segir, svo að ég haldi því til haga, með leyfi forseta, þar sem segir um það sé eitt meginverkefni ríkisstjórnar: ,,Að endurskoða vinnulöggjöfina með það markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.`` Menn taka eftir orðalaginu: ,,og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.`` Það var boðað að það kæmi ítarlegri málefnaskrá til viðbótar við þessa fáorðu stefnuyfirlýsingu. Ég hef hana ekki undir höndum. Kannski var verið að vísa til væntanlegra lagafrumvarpa sem fylgdu með stefnuræðu forsrh. Að minnsta kosti hefur þetta verið látið nægja sem sérútgáfa varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar.

Þessar fyrirætlanir varðandi endurskoðun vinnulöggjafarinnar og hér eru nú til umræðu hafa fengið algeran forgang á Alþingi að undanförnu. Allt annað er látið víkja fyrir þeirri hugsjón að draga tennurnar úr samtökum launafólks, lama þau sem verða má með breytingum á löggjöf og um leið og reynt er að ýta undir sérhyggju innan raða verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er gömul og þekkt herkænska, kennd við eitt meginleiðarljós sem uppi var þegar í Rómaríki hinu forna að deila og drottna, divide et impera. Til að stýra vinnunni við þann þátt sem snýr að starfsmönnum ríkisins var fenginn prófessor í lögum, Eiríkur Tómasson, og ýmsir minni spámenn eins og Haukur Ingibergsson, forstöðumaður Hagsýslu ríkisins. Gæta varð þess auðvitað að hafa framsóknartengslin í lagi úr því að Sjálfstfl. lagði til húsbóndann, þ.e. hæstv. fjmrh.

Starfið hófst með nefndarskipan 23. ágúst 1995 og 12. des. var samtökum ríkisstarfsmanna tilkynnt um að fyrir dyrum stæði heildarendurskoðun á lögum frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nú skyldu forustumenn þessara samtaka makka rétt eða hafa verra af ella. Hér voru höfð hröð handtök því að í byrjun febrúar á þessu ári, aðeins fimm mánuðum eftir að nefnd Eiríks Tómassonar hóf störf, lá fyrir fullbúið frv., í aðalatriðum það sama og skilaði sér hingað inn í mars sl. Vinna að þessu máli á vegum ríkisvaldsins hefur þannig verið í leiftursóknarstíl þó að eitthvað hafi hægt á síðustu vikurnar en það er ekki allt sjálfrátt ríkisstjórninni eða hennar vilja og hennar liðsmanna á Alþingi.

Hæstv. forseti. Hugmyndafræðin að baki frv. er sett fram í knöppu formi í greinargerð með því. Það er nauðsynlegt að draga hana fram til að reyna að skilja þetta annars fremur torræða frv. Í athugasemdum á bls. 14--15 stendur m.a. í kaflanum um markmið nýrrar starfsmannastefnu og leiðir til að ná þeim markmiðum, með leyfi forseta:

,,Öllum sem láta sig fjármál ríkisins einhverju skipta er það hins vegar ljóst að eina leiðin til þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, án þess að hækka skatta, er að lækka ríkisútgjöld og það verður ekki gert að neinu ráði nema með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald á vegum ríkisins, eins og ofangreindar upplýsingar sýna.

Að dómi okkar nefndarmanna er eina ráðið til að bregðast við þessum vanda að breyta núverandi starfsmannastefnu hins opinbera, a.m.k. eins og sú stefna hefur birst í framkvæmd. Hér á Íslandi verður, á sama hátt og gert hefur verið í nær öllum öðrum aðildarríkjum OECD, að ráðast gegn þeim hugsunarhætti sem endurspeglast í setningum á borð við: Þjónustan verður ekki aukin eða hún bætt nema með fleira starfsfólki.`` Þetta er orðrétt tilvitnun felld inn í greinargerð.

,,Einkafyrirtæki, ekki aðeins framleiðslufyrirtæki heldur einnig þjónustufyrirtæki, hafa þurft að bregðast við vaxandi samkeppni með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald og jafnframt að bæta þjónustu við viðskiptavini sína. Þannig hefur sumum fyrirtækjum tekist að standast samkeppnina með því að gjörbreyta skipulagi sínu og starfsháttum meðan önnur hafa setið eftir í sama gamla farinu og þar af leiðandi orðið undir á markaðnum.``

Áfram segir: ,,Ríkið minnir að ýmsu leyti á fyrirtæki sem hefur orðið undir á samkeppni á frjálsum markaði. Rekstrarútgjöldin eru meiri en tekjurnar, þjónustu við ,,viðskiptavinina``, þ.e. fólkið í landinu, þyrfti að bæta á mörgum sviðum, en svigrúmið til að breyta skipulagi og starfsháttum er harla lítið. Þessu verður að breyta, ekki með neikvæðum heldur jákvæðum formerkjum þar sem höfuðáherslan er lögð á að skapa möguleika til að mæta nýjum þörfum í rekstri hins opinbera og bæta opinbera þjónustu um leið og gripið er til hagræðingar til að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum án þess að skattar eða aðrar álögur verði hækkaðar.``

Enn segir í greinargerðinni um þessa hugmyndafræði: ,,Meginmarkmiðin með þeirri endurskoðun á starfsmannastefnu ríkisins sem nú stendur fyrir dyrum eru, eins og fram kemur í skipunarbréfi nefndarinnar, ,,að auka hagkvæmni í ríkisrekstrinum, stuðla að bættri þjónustu hins opinbera og gera starfsmannastefnu ríkisins skýrari en nú er``.``

Tilvitnun lýkur í skipunarbréf og síðan heldur greinargerðin áfram með því að reifaðar eru nokkrar leiðir sem að áliti nefndarmanna stefna að þessum markmiðum og ég vísa til greinargerðar með frv. þar að lútandi.

Eins og hér kemur fram er uppi m.a. töfraorðið hagræðing. Draga skuli úr starfsmannahaldi. Takið eftir að hér stóð: Ríkið minnir að ýmsu leyti á fyrirtæki sem hefur orðið undir í samkeppni á frjálsum markaði. Forskriftin að þessari hugmyndafræði er sótt í hugmyndabanka Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem svo er kölluð, oft skammstöfuð OECD, enda beinlínis til hennar vitnað. Þann sama aðila og miðlað hefur hugmyndum til aðila í einkarekstri og til aðila ríkisstjórna aðildarríkja að OECD en í þeim hópi er m.a. Nýja-Sjáland sem oft er nefnt í umræðu um þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Það er nauðsynlegt, virðulegur forseti, að athuga svolítið til hvers þessi ráðgjöf hefur leitt á síðustu árum í iðnvæddum ríkjum, hver er árangur þessarar stefnu, m.a. að því er varðar baráttuna við atvinnuleysi sem stjórnmálamenn í orði tala um sem eitt mesta böl síðari ára og út af fyrir sig gott að fá játningu af því tagi þó að sumir dragi í efa að þar fylgi hugur máli en það er nauðsynlegt að sjá til hvers hefur þessi stefna leitt, þessi ráðgjöf, þetta forrit sem OECD hefur m.a. stýrt. Auðvitað eru það margir aðrir eins og ég mun koma að í þessu sambandi.

[16:15]

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. hefur það ég veit fylgst með þessum málum á erlendum vettvangi, lagt sig fram um að ræða við starfsbræður sína og taka þátt í ráðstefnum og öðru þar sem fjallað hefur verið um þennan grundvöll og ég ætla hæstv. ráðherra út af fyrir sig ekkert nema gott til að taka við þessu mynstri út frá sjónarhóli ráðherrans. En það breytir ekki því að þessi hugmyndafræði er ekki að skila þjóðfélögum, aðildarríkjum OECD-ríkjanna, fram á við til lausnar á gífurlegum vanda sem þar er uppi og mætti nefna aðaldrættina í þeim stóru vandamálum sem þar er við að fást og sem setja reyndar mark sitt í vaxandi mæli á heimsbyggð alla. Það er umhverfisfylling, það er sem sagt eyðing umhverfis, vaxandi mengun af mörgu tagi og ágengni á auðlindir jarðar. Það er sívaxandi misskipting milli þjóða og milli hópa innan þjóðríkja og það er ekki síst sívaxandi atvinnuleysi sem er meðal stærstu vandamála samtímans eins og ég hef þegar nefnt. Öll þessi stóru vandamál eru tengd ríkjandi efnahagskerfi og þróun þess. Ég staðhæfi það hér, virðulegur forseti, og mun leiða að því nokkrar líkur í máli mínu að það sér ekkert fyrir endann á þessari þróun. Það sér ekkert fyrir endann á lausn þessara stóru vandamála og þeir aðilar, sem bundið hafa sig við formúlur sem fella má undir ráðgjöf OECD en er stýrt með miklu meiri ákveðni á einstökum svæðum eins og innan Evrópusambandsins, eru í rauninni að ýta undir þessi vandamál, að magna upp þessi vandamál í stað þess að leita lausnar á þeim. Ég dreg ekki í efa að það er í raun vilji þeirra góðu manna, þeirra stjórnmálamanna sem í hlut eiga, þar á meðal hæstv. fjmrh. --- Mér þætti vænt um, virðulegur forseti, ef frsm. nefndarinnar væri sem oftast viðstaddur umræðuna og vænti þess að hann sé ekki langt undan. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tekur vissulega þátt í athugun þessara mála á alþjóðavettvangi og hefur vafalaust sínar skoðanir á þeim og mun áreiðanlega taka þátt í umræðu um það í framhaldi.

Ég staðhæfi, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. fylgir að því er varðar efnahagsstefnu og þar með kjaramálastefnu ráðleggingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Það er raunar skýrt tekið fram í greinargerð. Þess utan erum við Íslendingar bundnir meginreglum Evrópusambandsins um efnahagsmál eftir að við gerðumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þar er á kerfisbundinn hátt leitast við að framkvæma þá markaðsstýringu eða markaðsfrelsi sem hefur verið leiðarljós innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar og þátttökuríkja hennar frá því á 6. áratugnum og bar að því er ýmsir töldu árangur í mjög miklum hagvexti um skeið en er nú kominn í þá sjálfheldu sem raun ber vitni og er að leiða mannkyn allt fram á hengiflug sem alls er óvíst hvort menn geta forðað sér frá í tæka tíð, verði ekki spyrnt við fótum og breytt um stefnu.

Einnig fjármálastefna ríkisins verður með vissum hætti að taka mið af fjórfrelsinu sem eru boðorðin fjögur, grundvallarboðorð innri markaðarins sem er megininnihald samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og auðvitað innri markaðar Evrópusambandsins. Og þó að fjármálastefna ríkjanna og skattlagning sé ekki beinn hluti fjórfrelsisins komast aðildarríki hins Evrópska efnahagssvæðis, að ekki sé talað um aðildarríki Evrópusambandsins sjálfs, ekki hjá því að taka mið af því sem gerist hjá öflugustu ríkjunum innan þessa svæðis, innan þessa bandalags. Og þess sér auðvitað stað hér þannig að í raun eru áhrifin af þátttöku okkar í innri markaði Evrópusambandsins mun djúptækari en regluverkið sjálft og eitt segir til um.

Aðildarríki Evrópusambandsins fá sannarlega að kynnast þessum málum þessi missirin, hvernig þau eru knúin til þess að breyta stefnu sinni á mörgum sviðum að því er varðar fjármálastefnu, að því er varðar skuldsetningu og annað það sem tengist kröfunum um væntanlegt myntbandalag eða Efnahags- og myntbandalag sem gengur á enskunni undir skammstöfuninni EMU sem á að setja á samkvæmt Maastricht-sáttmálanum frá 1992. Uppgjörið um það hverjir komast í gegnum þetta þrönga nálarauga myntbandalagsins fer fram í raun þegar á næsta ári, þ.e. í byrjun árs 1998 verður lagt mat á árangurinn eins og hann skilar sér í þessum 4--5 stærðum sem ríkin verða að standast varðandi sína efnahags- og fjármálastefnu til þess að vera tæk inn í hinn heilaga klúbb frá 1. janúar 1999. Og menn hafa verið að heyra hvernig forustumaður stærsta og öflugasta efnahagsveldis Evrópusambandsins, Helmut Kohl Þýskalandsforseti, telur nauðsynlegt að taka á málum þar í landi til þess að komast hjá því, sem einhverjir mundu kalla hneyksli, að sjálft Þýskaland komist ekki í gegnum nálaraugað sem það átti hvað mestan þátt í að þrengja sjálft og ákvarða mælikvarðana.

Ég held að menn verði að ræða þessi mál, virðulegur forseti, á Alþingi í því samhengi sem þeim ber. Ég sé að hæstv. fjmrh. er með alþjóðlegt tímarit sem fjallar um þessi mál og einmitt erfiðleika Þýskalands til að standast þessa mælikvarða. Við höfum heyrt boðskap Kohls kanslara sem lýtur að því að þrengja verði um útgjöld ríkisins, mig minnir það vera 2 þús. milljarðar þýskra marka, en 2.000 var talan en ég segi þetta með fyrirvara. Hæstv. fjmrh. hefur það vafalaust þarna í ritinu sem hann er að fletta, virðulegur forseti, og getur þá komið nánar að þessu á eftir. (Fjmrh.: 70 milljarðar þýskra marka.) 70 milljarðar þýskra marka já, ætli það hafi ekki verið umreikningur yfir í íslenskar tölur, þessi 2.000 sem ég var að nefna, en alla vega eru það háar tölur og svo mikið er víst að mörgum þarlendis hefur blöskrað. Og eftir er að sjá, virðulegur forseti, hvað gerist í þessu forusturíki kapítalsins innan Evrópusambandsins. Hver verða viðbrögðin, hin pólitísku viðbrögð, við þeim fagnaðarboðskap sem þarna er fram reiddur eða hitt þó heldur fyrir vinnandi fólk í ríki sem telur nú yfir 4 milljónir atvinnuleysingja formlega skráða innan sinna vébanda? Minna var það ekki og hefur aldrei verið meira síðan í kreppunni miklu á árunum fyrir stríð sem var gróðrarstían fyrir nasistana sem brutust til valda í byrjun þess áratugar eða snemma á þeim áratug.

Virðulegur forseti. Við getum líka litið til Frakklands. Þar fengu menn kannski fyrsta varnaðarskotið fyrir bóginn og þá á ég við, virðulegur forseti, sem ríkjum ráða og eru að fylgja þessu spori hins frjálsa kapítals, hinna frjálsu fjármagnshreyfinga og allra þeirra boðorða sem innsigluð eru í fjórfrelsinu þegar verkalýður í Frakklandi, opinberir starfsmenn vel að merkja, reis upp í nóvember sl. og það fór hrollur um þá sem sitja í fílabeinsturnum fjármagnsins, ekki bara þar í landi heldur um alla Vestur-Evrópu trúi ég. Það fór hins vegar ekki svo að það skapaðist nýtt ástand svipað og 1968 í Frakklandi, ekki í þetta skipti. En það fóru af stað þjóðfélagslegar hræringar sem hljóta að gera vart við sig, sem hljóta að endurtaka sig fyrr en síðar, ef menn ætla blint að fylgja því spori sem hér er markað.

Er ekki alveg ástæðulaust, virðulegur forseti, að ræða þessi mál hér í þessum ræðustóli? Kemur þetta Íslandi eitthvað við? Hæstv. fjmrh. hristir höfuðið. Hann er léttlyndur maður, virðulegur forseti, hæstv. fjmrh. Það er ágætt að hæstv. ráðherra heldur gleði sinni. Ég veit ekki hvort ráðherrann hefur lesið Reykjavíkurbréf fyrir tveimur til þremur vikum þar sem vikið var að myntbandalagi Evrópu og ráðamenn einnig hér beinlínis hvattir til þess að fara að leggja við hlustir og athuga sinn gang. Kannski kæmi sá tími að við þyrftum að skoða það hvort við ættum ekki að kasta þeim leifum af stjórntækjunum sem felast í því að vera með eigin gjaldmiðil, kasta þeim fyrir róða og stökkva um borð. Þetta var til umræðu í því málgagni sem nátengdast er Sjálfstfl. og ég held að hæstv. fjmrh. eigi ekki að vísa því frá með brosi á vör að þessi efni séu til umræðu þar sem stefnan í fjármálum og efnahagsmálum landsins er rædd í þeim turnherbergjum og bakherbergjum þar sem menn eru að spá í framtíðina í sambandi við þessi efni.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að stefna og umsvif íslenska ríkisins og sveitarfélaga ríkja, tekjuöflun þeirra og útgjöld, varðar sannarlega vinnumarkaðinn í hverju landi og einnig vinnumarkaðinn hér á landi. Hagræðing og samdráttur í störfum á vegum opinberra aðila eykur í mörgum tilvikum með beinum hætti á það atvinnuleysi sem fyrir er og með óbeinum hætti verkar það á marga lund þó að að sumu leyti sé verið að afhenda einkaframtakinu verkefnin með sölu á ríkisfyrirtækjum, bæði framleiðslufyrirtækja og þó einkum þjónustufyrirtækja, sem nú er verið að boða m.a. varðandi Póst og síma. Enda er það til umræðu á Alþingi þessa dagana og mikið lagt undir til að koma því máli í höfn.

Virðulegur forseti. Innri markaður Evrópusambandsins átti að vera töfralausn í mörgum skilningi. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hv. alþingismenn og hæstv. ráðherra að lesa ritgerðirnar og bækurnar sem skrifaðar voru um hina töfrandi tölu ártalið 1992 og var í rekkum í sjoppum og bókabúðum álfunnar með tilheyrandi gyllingu á því sem mundi gerast þegar búið væri að taka lokurnar og hömlurnar úr hinum frjálsa markaði og innleiða stefnuna sem hafði legið í skúffum hjá Evrópusambandinu um lengri tíma. Dustað var af þessu rykið 1985 og kúrsinn settur á töfralausnina: Innri markaður kominn í gagnið á árinu 1992. Þessi innri markaður átti að auka stórkostlega hagvöxt á öllu Evrópusambandssvæðinu og draga úr atvinnuleysi. Ef ég man rétt var það á þeim tíma eitthvað nálægt 8--9%, þ.e. í kringum 1990. Það er hins vegar óhjákvæmilegt, virðulegur forseti, að virða fyrir sér veruleikann eins og hann blasir við hálfum áratug síðar. Ég veit að hæstv. forsrh. þekkir það efni nokkuð vel af kynnum sínum af þessum málum á alþjóðlegum vettvangi fyrir utan það að lesa sér til meðan við erum að tala yfir hæstv. ráðherra í þingsölum. Ég ætla ekki að lasta það að hann líti í blöð. En það er sannarlega fróðlegt að virða fyrir sér hvað hefur verið að gerast í þessum efnum.

Ef við lítum til Evrópusambandsins sérstaklega, virðulegur forseti, þá hefur þetta ekki gengið eftir. Minnkun atvinnuleysis átti að skila sér með tiltölulega skjótum hætti eftir að allt var smollið saman varðandi innri markaðinn. En það hefur haldið áfram að vaxa stig af stigi og hefur aldrei komist í þær hæðir sem nú er og er nú komið upp í um 20 milljónir manna í Vestur-Evrópu eða jafnvel rúmlega það með þeim hrikalegu afleiðingum sem því fylgja fyrir fólk í álfunni sem við þetta býr, atvinnuleysi sem snertir nær allar fjölskyldur. Það eru fáar fjölskyldur sem ekki verða varar við þetta með einhverjum hætti, atvinnuleysi sem komið er yfir 20% í sumum landanna, atvinnuleysi sem snertir ungt fólk öllum öðrum fremur og þar sem atvinnuleysi í röðum fólks á milli tvítugs og þrítugs er komið upp í nærfellt þriðjung þar sem ástandið er verst. Atvinnuleysi hefur einnig gert vart við sig hér á landi í vaxandi mæli og hefur fest sig í sessi, að vísu ekki í þeim hæðum sem menn búa við í nágrannalöndum, bæði á Norðurlöndunum og að ekki sé talað um lönd eins og Spán og Finnland, þar sem ástandið er hrikalegt í þessum efnum.

[16:30]

Það var athyglisvert að sjá það nýlega í skýrslu sem kom frá vinnumálaskrifstofu félmrn. sem fylgist með atvinnuleysinu, hver þróunin er í þessum efnum, hvernig langtímaatvinnuleysi hefur verið að festast í sessi, hvernig atvinnuleysi hefur grafið um sig í vaxandi mæli á höfuðborgarsvæðinu, sumpart vegna þess að fólk er að flytjast af landsbyggðinni vegna stefnu ríkisstjórnarinnar á mörgum sviðum. Það kýs þá frekar jafnvel að deila kjörum með atvinnuleysingjum á höfuðborgarsvæðinu, auðvitað komið hingað í von um það að fá úrlausn sinna mála. Þetta er að gerast á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn er að leggja fram tillögur og heldur fram efnahagsstefnu sem ljóslega leiðir til þess að atvinnuleysi mun fara vaxandi, einnig hér á landi á komandi árum vegna þess að við erum búin að njörva okkur niður með efnahagsstefnu annarra ríkja og erum nátengd henni.

Vissulega eru hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn að vonast til þess öðru hverju að fá happdrættisvinninga. Einn slíkur happdrættisvinningur til að lina skammtímaþjáningar þjóðarinnar í þessum efnum var samningurinn um stækkun álbræðslunnar í Stramsvík. Og hæstv. ráðherrar Framsfl. rembast við það eins og rjúpa við staur að draga inn aukna fjárfestingu af þessu tagi og eru úti um allar koppagrundir í þeim efnum komnir alla leið til Kína til þess að reyna að lokka til sín álbræðslurnar sem eiga að rísa. Hvar? Hér við Faxaflóa, þar sem á að varða ströndina með stóriðjuverum.

Hvað varðar áhrifin á umhverfið sem ég minnti á sem eitt af mestu vandamálum okkar tíma, þá fer ekki mikið fyrir áhyggjunum af því. Og hvað varðar spurninguna um það að útlendingar nái tökum á orkuverunum og auðlindunum og geti skammtað sér aðgang að þeim úr hnefa með því að fjárfesta þar sjálfir, þá fer ekki mikið, virðulegur forseti, fyrir áhyggjum af þeim tíðindum þegar hæstv. iðnrh. á í hlut. Því er bara tekið sem fagnaðarefni að hér sé von á tilskipun frá Evrópusambandinu sem opni fyrir fjárfestingar útlendinga í orkulindum landsins, bæði í virkjunum og dreifiveitum sem verði að aðskilja og að innleiða hér frjálsa samkeppni í orkumálum. Það er ekki svo að forusta Framsfl. bregðist við þessum tíðindum með því að slá varnagla. Ónei. ,,Við höfum reiknað með þessu. Við höfum verið að búa okkur undir þetta. Þetta er allt í besta lagi.`` Þetta eru viðhorfin sem þarna eru uppi og tengjast stefnu Framsfl. Með þessu er væntanlega verið að reyna að öngla eitthvað upp í að standa við kosningaloforðin um fjölgun starfa í landinu. Voru það ekki 12 þúsund sem átti að skaffa til aldamóta? Mig minnir það vera eitthvað í þá veru. (VE: Hækka þau í 15 þúsund.) Já, fulltrúi Sjálfstfl., virðulegur forseti, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, upplýsir um að það sé búið að hækka þessa tölu í 15 þúsund nú nýverið. Það er sjálfsagt út á álbræðsluna frá Kína, álbræðslu Kínverja trúlega, fyrir utan þessa gömlu sem á að reisa upp á Grundartanga og ættuð er frá Þýskalandi. Það er búið að taka hana niður og bara er eftir að velja henni stað. Við öllu er tekið. Það er engin spurning. Við öllu er tekið bara til að öngla upp í kosningaloforðin. Skítt veri með umhverfið á höfuðborgarsvæðinu. Það er algert aukaatriði rétt eins og spurningin um atvinnu eða atvinnuleysi þegar rætt er um stefnu í umsvifum og þjónustu ríkisins og hvernig staðið er að þeim málum gagnvart starfsmönnum ríkisins.

Virðulegur forseti. Ég hef þegar sagt að ég veit að hæstv. fjmrh. er talsvert sokkinn niður í OECD-fræði. Ég held að hæstv. ráðherra sé bara nokkuð vel að sér í þeim fræðum. Ég hef hitt hæstv. ráðherra á erlendri grund og rætt við hann og hans starfsbræður um þessi fræði á árum áður. Ég var t.d. á fundi með hæstv. fjmrh. í Lyngby í Danmörku sem Norðurlandaráð stóð fyrir í apríl 1994, þar sem viðfangsefnið var hið ógnvekjandi atvinnuleysi í álfunni og hvernig ætti að bregðast við því. Skýrsluna hef ég á borðinu hjá mér. Ég tók hana ekki með upp í ræðustólinn. Þar er að finna m.a. ræðu hæstv. fjmrh. sem hann flutti. Ég er reyndar með hana í danskri útgáfu, ekki á íslensku. Hún heitir á dönskunni: Vigtige forudsætninger på øged beskæftigelse i Norden, april 1994. Þetta flutti hæstv. fjmrh. yfir okkur þarna úti í Danmörku. Mér fannst þetta allt saman virðingarvert því að hæstv. ráðherra hefur ákveðinn vilja en hins vegar skortir hann sýn á það hvernig á að taka á málum. Hann er bara að kópíera það sem er forskrifað hjá hagfræðingaveldinu sem er að ryðja brautina fyrir fjármagnið um víða veröld. Hann er bara að kópíera það og þetta gengur eftir í þessum frumvörpum.

Ég hlýt að nefna það, virðulegur forseti, að einmitt á þessari ráðstefnu í Lyngby kom finnskur ráðherra sem ég kann ekki að nefna hér og því miður var ræðu hans ekki haldið til haga í þeim samantektum sem við fengum eftir ráðstefnuna. Hann hafði séð ljósið og flutti fyrir okkur sem þarna vorum --- það var mjög fríður hópur og blandaður eins og vera ber á svona fundi, --- flutti fyrir okkur fregnir af þessu ljósi í myrkri atvinnuleysisins. Og hvaðan ætli það hafi verið ættað? Ó jú, það var komið alla leið um hnöttinn þveran. Hæstv. fjmrh. man eftir því. Það var komið frá Nýja-Sjálandi. Ég leyfði mér á þessum fundi, virðulegur forseti, að spyrja þennan öfluga ráðherra sem líklega var atvinnumálaráðherra Finna, ekki var það hvalveiðiráðherra Finna --- ég held að það hafi verið atvinnumálaráðherra Finna sem þarna var á ferðinni --- og spyrja hann svona nánar út í stefnuna. Og hvað haldið þið að hafi komið í ljós? Ráðherrann hafði fengið fagnaðarerindið sent í pósti. Til Nýja-Sjálands hafði hann aldrei komið en hann var að undirbúa ferð sína þangað. Þetta hefði ekki upplýsts nema vegna fyrirspurnar á fundinum. Allir héldu að ráðherrann væri búinn að kanna á vettvangi hvernig þessi mikla frelsun hefði virkað, þessi inngjöf í hagkerfið á Nýja-Sjálandi, þessi svipting, þessi opnun allra gátta og lokur teknar frá. O nei, hann var að búa sig undir ferðina og hafði fengið einhvern pappír í hendurar og flutti þetta bara blygðunarlaust yfir fólki sem fagnaðarerindi. Ég veit að hæstv. fjmrh. man enn þá mjög vel eftir þessu því að sannfæringin fór ekki alveg nógu vel í fólk. (Gripið fram í.) Já, og ég hlýt að geta þess að það var athyglisvert að það komu öflug viðbrögð og þau voru einmitt frá íslenskum fulltrúa á þessari ráðstefnu, fulltrúa Kvennalistans sem flutti sérstakt erindi á ráðstefnunni, Kristínu Einarsdóttur, sem gat rekið allbærilega ofan í ráðherrann upplýsingar og rakið upplýsingar um hvernig þetta hafði reynst á Nýja-Sjálandi. (VE: Hefur Kristín verið ...?) Hún hafði kynnt sér það og því var ekki mótmælt á þessum fundi. En nú kannski skortir nokkuð á. Það væri ekki úr vegi að skjóta saman í farareyri handa hæstv. fjmrh. og fleirum, kannski hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, til þess að þeir geti nú komist á vettvang. (Fjmrh.: Alþb. gæti útvegað fararstjórann, Steingrím J. Sigfússon.) Til þess að kynna sér á vettvangi --- gjarnan með fararstjóra frá Alþb. Ég hef ekkert á móti því --- kynna sér á vettvangi árangurinn mikla í þessu landi, láta sér ekki nægja sendiboða eins og hér hefur verið rakið og við þekkjum að hafa komið hingað til lands, hvort sem það er greitt undir þá eða ekki af Íslendingum. Það skal ósagt látið.

Það er óhjákvæmilegt, virðulegur forseti, að nefna öll þessi atriði vegna þess að þetta er grunnurinn sem verið er að starfa á. Það er ekki viðleitni til þess að fjölga störfum, bæta úr atvinnuleysinu með því að auka umsvif ríkisins eins og auðvitað getur komið fyllilega til greina á ákveðnum sviðum. Nei, það er fyrir fram útilokað, virðulegur forseti, vegna þess að það má ekki safna meira í sameiginlegan sjóð. Það er komið hámark á skattana. Það er bara ekki til umræðu. Það þarf ekki einu sinni að skoða það. Og formaður Framsfl. tók undir mjög eindregið og kröftugt vorið 1994 að það stæði ekki til af hálfu Framsfl. að fara að auka skattheimtu í landinu.

Nú er mér ljóst að það er ekkert sérstaklega vinsælt að mæla fyrir auknum sköttum. En ég tek það mjög skýrt fram að ég er ekki í hópi þeirra sem ... (VE: Skattahækkanir fækka störfum.) Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að það sé komið að einhverjum endimörkum í að jafna kjörin í landinu með því að taka meira frá þeim sem betur mega í landinu í sameiginlegan sjóð, með því að leggja meira á þá sem eru aflögufærir, m.a. í því skyni að geta bætt við, bæði að gæðum og einnig að mannafla ef ástæða er til, nýjum kröftum á vegum hins opinbera.

Eitt svið, virðulegur forseti, hefur verið nefnt bæði í hinni alþjóðlegu umræðu og einnig hér af Alþb. og fleirum, sem full ástæða er til að skoða í ljósi þess atvinnuleysis sem hér hefur haldið innreið sína og er til umræðu víða um lönd. Það er að reyna að ráðast gegn umhverfisspillingunni. Það er viðleitni til að bæta umhverfi okkar, girða fyrir mengun og annað af þeim toga með því að fjölga störfum á því sviði, með því að glíma við það til þess að bæta umhverfi okkar.

Það er ljóst að þörfin á því að bæta þjónustu af ýmsum toga, m.a. í heilbrigðismálum, blasir víða við. Þetta er spurningin um það, hvernig menn vilja forgangsraða. En það er bara ekki til umræðu hjá ráðandi öflum hér eða víðast hvar annars staðar innan hins Evrópska efnahagssvæðis að halda þannig á málum. Þar gefa menn sér: Ekki hærri skatta. Það þýðir ekkert um það að tala og hagræðing er meginkrafan gagnvart starfsemi hins opinbera. Það er margt sem getur falist í hugtakinu ,,hagræðing`` annað en mat á gæðum þjónustunnar sem verið er að veita og þeirrar starfsemi sem rekin er af ríkinu.

Ég þarf ekki hér, virðulegi forseti, að víkja að þeirri hringekju sem felst í því að halda uppi fólki á atvinnuleysisbótum með opinberum stuðningi eins og eðlilegt er annars vegar og hins vegar kröfu fjármagnsins, kröfunni um hagræðingu með fækkun starfa. Það þýðir ekkert að vísa því frá sem einhverju sem ekki sé umræðuvert að taka verði á þessum málum á annan hátt en gerist sjálfkrafa, ef menn ætla að láta markaðinn ráða ferðinni á öllum sviðum. Menn eru farnir að hafa áhyggjur af þessu, einnig þeir sem hafa ekki tekið mikið undir með þeim málflutningi sem hér er uppi hafður. Ég minni m.a. á mann sem var býsna öflugur innan Evrópusambandsins til skamms tíma, Jacques Delors. Hann setti m.a. fram hvítbók í þeirri viðleitni í orði að bæta stöðuna og andæfa gegn atvinnuleysinu innan Evrópusambandsins. Hann setti fram hvítbók árið 1993 um að nú skyldi farið í mikla sókn og nú skyldi þetta milljónatuga atvinnuleysi helmingað fram til aldamóta. En það sér ekki högg á vatni. Það er eins og með eikina í sögunni um Tuma Þumal sem ég veit að hæstv. fjmrh. þekkir. Eikin óx svo mjög framan við kóngshöllina að það varð almyrkt. Menn fengu ekkert við ráðið því þegar ein grein var af höggvin þá uxu tvær í staðinn. Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast. Myrkviðurinn þéttist í krafti þeirrar stefnu og aðgerðarleysis sem ráðandi öfl í löndunum láta yfir þjóðirnar ganga. Og það er ekki fyrr en einhver kemur úr kotinu, einhver Tumi Þumall sem vísar á nýjar leiðir að eitthvað rofar í gegnum þetta svartnætti vaxandi atvinnuleysis sem er að byrgja og eyðileggja lífshamingju milljóna manna, milljóna tuga í Vestur-Evrópu.

[16:45]

Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að dusta rykið af ýmsu. Ég var að tala um Jacques Delors og ætla ekki að gleyma því, virðulegur forseti, að nefna samhengið því að sami Jacques Delors er einmitt nú upp á síðkastið farinn að vara við afleiðingum --- ég vil ekki segja eigin stefnu því að auðvitað var hann bara þægur þjónn og var tyllt upp sem forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auðvitað enginn gerandi í þessum málum því að fjármálaöflin ráða þar ferðinni. En sami Jacques Delors er núna farinn að vara við að þjóðfélagslegar afleiðingar þessarar stefnu kunni að valda slíkum óróa, uppreisn þolendanna í löndunum að fjármagnseigendurnir, hvort sem það eru eigendur fyrirtækja eða hvort það liggur í bankahólfunum, þurfi að fara að vara sig, þurfi að átta sig á því að undirstöðurnar séu kannski ekki jafnstyrkar og skyldi. Ég get fundið þessum varnaðarorðum stað einhvers staðar í því safni, virðulegur forseti, sem ég hef nálægt mér. (Fjmrh.: Sem flutti ræðuna í Kaupmannahöfn.) Og ræðan úr Kaupmannahöfn í marsbyrjun hefur vafalaust haft svipaðan boðskap þannig að hæstv. fjmrh. kannast við þessi varnaðarorð. Það gerist ekki með því að ganga götuna blindandi áfram. Þannig gerist það ekki. Þar sem einn étur eftir öðrum vitleysuna, leiðsögnina sem er að færa þjóðirnar fram á bjargbrún. Það nægir ekki fréttabréf úr fjmrn. þó að þau séu ágæt eins og hæstv. fjmrh. gaf út. Ég er með eitt frá 30. mars 1994, ágætis fréttabréf upp á fjórar síður. Atvinnuleysisvandinn --- hvað er til ráða? Hæstv. fjmrh. birti þar ýmsar tölur og er þar að reyna að klóra í bakkann. Það eru meira að segja nefndar aðgerðir sem kenndar eru við krata sem eru nákvæmlega í sömu sporum þó að þeir séu því miður búnir að skrifa upp á leiðsögnina víða. Þá á ég ekki við alla sem raða sér í þær fylkingar heldur þá sem leiða hjörðina og hafa slegist í hópinn með hægri öflunum í Vestur-Evrópu og þar með Norðurlöndunum til að draga þjóðirnar inn á þá villuslóð sem hér er fylgt og þurfti mikið til að forða Norðmönnum frá því að vera girtir þar af.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að vekja athygli fjmrh. á grein sem ég hef í höndum og er skrifuð af manni sem heitir Kåre Willoch. (Fjmrh.: Er það um frv.?) Greinin varðar frv. sem er til umræðu. Hún er undir fyrirsögninni Miljøpolitik og højere sysselsetning og varðar einmitt það sem ég var að vísa til að í öflugum aðgerðum til úrbóta á umhverfissviði er að finna einhvern vísi til lausnar á þeim mikla og hrikalega vanda sem við er að fást og þá um leið verið að glíma við þá váboða sem varða eyðingu umhverfis. Kåre Willoch var formaður norska hægri flokksins, nú lénsmaður í Noregi, og hann er einn af þessum eldri mönnum sem voru þátttakendur í þessari pólitík fyrir nokkru og sem trúðu á forskriftina frá OECD en eru farnir að efast og eru farnir að leita. Þeir eru farnir að endurskoða málin, eru ekki lengur þátttakendur í hinni hörðu pólitík, eru svolítið til hlés og geta leyft sér að hugsa upphátt. Þetta er ekki eina dæmið um það. Ég á margar greinar eftir þennan ágæta mann sem var uppi á sama tíma og Olof Palme í Svíþjóð og tókst á við hann á þingum Norðurlandaráðs á þeim tíma. Marga hildi háði hann þar. Þá var tekist á um raunveruleg vinstri sjónarmið borin fram af krötum, borin fram af Olof Palme en ekki þeim einstaklingum sem hafa verið kjörnir til forustu í Jafnaðarmannaflokki Svíþjóðar eftir daga Olofs Palme. Við skulum hafa sem lægst um þau efni í bili. En það er nefnilega þannig og það veit ég að hæstv. fjmrh. vill ræða við þann sem hér talar, það er nefnilega þannig að töfralausnin, aukinn hagvöxtur og atvinna fellur ekki lengur hvort að öðru. Það sem talið var óyggjandi töfraráð hér á árum áður að auka hagvöxt, ná upp efnahagsstarfseminni, fá inngjöf í hagkerfið til þess að draga úr atvinnuleysi. Það er jafnvel viðurkennt af hörðum frjálshyggjupostulum sem við köllum svo. Þetta skilar sér ekki. Það eru önnur öfl að verki. Það er komið eitthvert hikst í gagnverkið, þetta gangverk sem menn voru farnir að trúa á vegna þess hverju það skilaði á sjöunda og áttunda áratugnum. Ég veit að hv. formaður efh.- og viðskn. þekkir þetta.

Hér er ég með fjármálasíðu úr Dagens Nyheter frá því í júní 1993. Þá þegar er það komið upp sem hefur sýnt sig æ betur síðan að vöxtur gefur ekki fleiri störf og þar stendur sem undirfyrirsögn: Evrópusambandsráðherrarnir fálma í myrkri. Þar eru þeir staddir enn, fálmandi í myrkri. En enn eru menn uppi á Íslandi að éta tugguna eftir þessum ágætu mönnum og lítil ef nokkur viðleitni til þess að svipast um eftir einhverjum öðrum og skaplegri siglingaljósum. (VE: Getur þingmaðurinn þá gert okkur grein fyrir þróuninni í Bandaríkjunum?) Nú kemur hv. þm., formaður efh.- og viðskn., með fróma ósk um það að þingmaðurinn geri grein fyrir þróuninni í Bandaríkjunum og það er sjálfsagt að bregðast við því fyrst um er beðið.

Það er nefnilega svo að þar er enn þá eftir, virðulegur forseti, strá, ég vil segja hálmstrá sem gripið er í þegar horft er framan í veruleikann á því svæði sem við erum stödd efnahagslega, Vestur-Evrópu, Evrópusambandið, hið Evrópska efnahagssvæði. Þar sér hv. formaður efh.- og viðskn. svolítið ljós, vestur í Bandaríkjunum, því að þar hefur atvinnuleysið ekki farið upp með sama hætti og í Evrópusambandinu sem hv. þm. hefur átt drjúgan þátt í að tengja okkur við og vill ólmastur manna á Alþingi keyra okkur inn í þar sem atvinnuleysið er núna um 11%, 20 millj. en af einhverjum ástæðum horfir hann samt vestur um haf. Þar er smáglæta. Þar er atvinnuleysi núna tæp 6% sem telst bara ósköp skaplegt á bandarískan mælikvarða. Þegar farið er að gá undir yfirborðið kemur náttúrlega margt í ljós.

Ef litið er til tekjudreifingar í Bandaríkjunum liggur það fyrir að bilið milli ríkra og fátækra þar í landi hefur aukist stórkostlega og fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Þar eru yfirleitt engar lágmarkstryggingar á vinnumarkaði, þar er ekkert öryggisnet, þar er ekkert sem við kennum við velferð. Það er nákvæmlega það sem nú er komið upp svo að hv. þm. tók smávegis forskot á sæluna því að það er nákvæmlega forskriftin sem nú á að fara að grípa til til þess að ráða bót á vandanum í Vestur-Evrópu. Það er að taka burtu öryggisnetin, það er að greiða fyrir frjálsri tekjudreifingu eins og það mundi vera kallað í samfélaginu, lofa þeim að éta það sem úti frýs sem verða sér ekki úti um atvinnu og sem hafa ekki efni á því að leita að heilbrigðisþjónustu og annað þess háttar, hvað þá að sjá börnum sínum farborða eða koma þeim til mennta. Láta þá bara um þetta og láta menn glíma í kapphlaupi um störf með því að bjóða niður hver fyrir öðrum þar sem verkalýðshreyfingin er komin á kné og var reyndar aldrei uppistandandi á evrópskan mælikvarða vestur í Bandaríkjunum en hefur misst máttinn með þeim hætti að forustumenn atvinnurekenda hér munu horfa til þess með öfundaraugum. Ég vil ekki segja að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins sé í þeim hópi. Ég trúi því ekki satt að segja, virðulegur forseti, að það sé það sem hv. þm. hefur haft í huga að ætti að leiða yfir okkur, þ.e. hinar bandarísku aðstæður, til þess að gangverkið skrimti svolítið lengur.

[17:00]

Virðulegur forseti. Ég var svolítið að víkja að Framsfl. snemma í ræðu minni. Veðrabrigðin í Framsfl. eru satt að segja tíðindi og það eru stærstu pólitísk tíðindi allra síðustu ára. Ég veit að hæstv. forseti er þeim málum gjörkunnugur. Hann þekkir þau jafnvel betur en sá sem hér talar og var vel kunnugur innan húss í Framsfl. í æsku. Ég hef fylgst með honum lengi síðan, oft átt samleið með þeim flokki á árum fyrr en finn nú til æ minni samkenndar með þeirri stefnu sem þar er uppi og þarf þá ekki til málamiðlun sem gerð er innan ríkisstjórnar með Sjálfstfl. Það hefur nefnilega ekki gengið eftir, hæstv. forseti, sem Morgunblaðið í leiðara þann 6. maí 1994 var að geta sér til um með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Yfirlýsingar hins nýja formanns flokksins vekja upp áleitnar spurningar um, hvort Framsóknarflokkurinn eigi eftir að færast til í hinu pólitíska litrófi á næstu árum. En jafnframt er ekki ólíklegt að viðleitni nýrrar forustu að því marki muni kalla fram sterka andstöðu innan flokksins, andstöðu, sem nú þegar bryddir á.``

En við hljótum að spyrja: Hvað hefur orðið um þessa andstöðu? Hvar sjást hennar merki? Krosstré sem önnur tré falla, hafa brugðist þannig að ég veit satt að segja ekki í hvaða áttir það fólk lítur sem veðjaði á Framsfl. í síðustu kosningum. Ég held að það geti a.m.k. ekki stöðvast við þá forustu sem nú er og þá andstöðu sem hvergi bryddir á. Einn af þeim málsvörum sem studdu fyrrv. formann þar í flokki er settur á bás í félmrn., bundinn á bás í félmrn. og má sig hvergi hræra og annað eftir því. Hann ber hér fram frv. fyrir atvinnurekendasamtökin í landinu um stéttarfélög og vinnudeilur sem við eigum eftir að ræða við annað tækifæri. Hann er einn af þeim sem Morgunblaðið vafalaust hefur haft í huga þegar það var að tala um væntanlega sterka andstöðu við þá stefnubreytingu sem ný forusta í Framsfl. boðaði þegar hún braust til valda vorið 1994.

Virðulegur forseti. Við skulum þá líta til einstakra greina frv. Ég hef verið að fjalla um greinargerð og stefnumið frv. og hvernig það tengist þeirri efnahagsstefnu sem uppi er hjá íslenskum stjórnvöldum og sem við höfum verið tjóðruð við með þátttöku í alþjóðlegum samtökum, svæðisbundnum samtökum eins og hinu Evrópska efnahagssvæði. Ef litið er til efnisgreina þessa frv., virðulegur forseti, þá komumst við ekki hjá því að telja að þetta sé afar illa samið frv., bara tæknilega séð. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að formaður nefndarinnar sem samdi frv. skuli bera prófessorsnafnbót, skuli vera prófessor í lögum og að fleiri lærðir menn skuli vera höfundar frv., (VE: Á að segja þeim upp?) að það sé nú ekki talað um sjálfa ríkisstjórnina. Formaður efh.- og viðskn. ber fram spurningu og er greinilega ofarlega í huga að það verði bara að segja manninum upp. Hugverkið fær svo slæma dóma á Alþingi að hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni er það efst í huga að það verði bara að segja þessum manni upp. Enda dregur kannski að því ef innihaldið gengur eftir að það þurfi að fækka eitthvað þarna í háskólanum vestur á Melum og að það dragi til einhverra uppsagna þar. Það er svo sem viðbúið. En ríkisstjórnin kom auðvitað að málinu. A.m.k. verðum við að ætla að hún hafi prófarkalesið frv., eitthvað skoðað innihaldið, enda lagði hún blessun yfir forskriftina sem það var samið eftir.

Ég heyri það á nefndarmönnum í efh.- og viðskn., ekki bara hjá formanninum eins og nú má nema með innleggi hans í umræðuna, að nefndin þurfti að fá sérstaka tilsögn frá flutningsmönnum, frá höfundum frv. til að skilja hvert verið væri að fara. Lýsandi dæmi um flókna framsetningu í þessu frv. er t.d. 12. gr. Ég kem aðeins að henni seinna.

Með þessu frv., virðulegur forseti, er stefnt að því að svipta starfsmenn ríkisins margháttuðum réttindum sem fram að þessu hafa verið talin réttlæta lægri laun þeim til handa. Þetta er gert á tíma þegar kjarasamningar eru ekki lausir. Þessi aðferðafræði er það sem mestur ágreiningur er um og sem fordæmt er af öllum samtökum launafólks og af okkur stjórnarandstæðingum á Alþingi. Þegar ég segi af öllum samtökum launafólks, þá eru það ekki aðeins samtök opinberra starfsmanna eða starfsmanna ríkisins sem kveða upp harða dóma um þetta frv. heldur einnig þeir sem ganga undir merkjum Alþýðusambands Íslands og átta sig að sjálfsögðu á því að þau efni, þau frumvörp bæði sem hér liggja fyrir þinginu eru nátengd, eru hluti af sömu sóknarlotunni af hálfu ríkisstjórnarinnar gegn samtökum launafólks.

Virðulegur forseti. Ég fer að sakna hæstv. fjmrh. Ég veit að hæstv. ráðherra ætlaði að bregða sér frá, mér var sagt í 10 mínútur. Þær eru liðnar og vel það.

(Forseti (GÁ): Forseti gerir ráðstafanir til þess að kalla ráðherra inn.)

Ég vona að hæstv. ráðherra komi fljótlega því að við hann þarf ég að eiga nokkur orð jafnframt því sem ég veit að hv. formaður nefndarinnar sem mælir fyrir meiri hluta þar leggur við hlustir. Báðir þessir frammámenn ríkisstjórnar segja að á þessu sem ég hef nefnt hér, því sem hallar á starfsmenn ríkisins, því sem tekið verður af þeim með þessari lagasetningu, verði tekið í næstu kjarasamningum. Ég heyrði hv. þm. Vilhjálm Egilsson orða þetta eitthvað á þá leið að það mætti vinna þetta upp. Þeir gætu sennilega unnið þetta upp á tveimur samningstímabilum. Þess vegna eigi menn allir að geta verið þokkalega ánægðir og eigi ekki að tortryggja það mál sem hér á að lögfesta. Það verður að hafa hins vegar vel í huga, virðulegur forseti, þann ójafna leik og þá ójöfnu stöðu sem samningsaðilar hafa þegar um opinbera starfsmenn er að ræða. Ríkið og samtök starfsmanna þess eru við kjarasamningagerð á mjög svo ólíkum vígstöðvum. Ríkisvaldið hefur löggjafann stundum jafnvel í hendi sér til að setja leikreglur ef það telur sér henta og meiri hluti er fyrir slíku hér á Alþingi þannig að það er ekki svo að hér sé völlurinn haslaður með jafnræði á milli aðila. Því miður er það ekki svo.

Við þurfum líka að hafa í huga, virðulegur forseti, að ýmis almenn réttindi launafólks hérlendis standa langt að baki því sem er víða og víðast hvar á Norðurlöndum, í Mið-Evrópu, Þýskalandi t.d. og þó víðar væri leitað. Þar er t.d. ekki um það að ræða að starfsmönnum verði sagt upp bara svona án gildra ástæðna eins og stendur til að lögfesta með þessu frv.

Lítum á nokkrar greinar, virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að velja úr örfáar. Við skulum staldra við 9. gr. frv. Ég ætla samhengisins vegna að vitna til hennar vegna þess að henni hefur líka verið breytt af meiri hluta nefndarinnar eða gerð tillaga um breytingu. Hún virðist vera svona, ef ég rata rétt á vaðið, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn eiga rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun Kjaradóms eða kjaranefndar, sbr. 39. gr., eða samkvæmt kjarasamningum, sbr. 47. gr.

Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum, öðrum en embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaunum, sem samið er um skv. 1. mgr., vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þessum ákvörðunum má breyta hvenær sem er, en sé breytingin starfsmanni í óhag tekur hún ekki gildi fyrr en að liðnum uppsagnarfresti þess starfsmanns sem hún varðar, sbr. 46. gr.

Ákvarðanir forstöðumanna skv. 2. mgr. skulu fara eftir reglum sem fjármálaráðherra setur, þar sem meðal annars skal kveðið á um það að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun. Fjármálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd þessara reglna.`` Síðan er viðbót að tillögu meiri hluta nefndarinnar. ,,Þar á meðal getur hann [þ.e. fjmrh.] að eigin frumkvæði breytt ákvörðunum um viðbótarlaun ef þær brjóta í bága við reglurnar og afnumið heimild einstakra forstöðumanna til að ákvarða starfsmönnum viðbótarlaun ef rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar er ekki í samræmi við fjárlög.``

Hvar er nú hæstv. fjmrh., virðulegi forseti? Hér er verið að vitna til reglna sem hæstv. ráðherra er ætlað að setja samkvæmt forskrift meiri hluta efh.- og viðskn. og við grípum í tómt. Ég bið um upplýsingar hvort þess er að vænta að hæstv. ráðherra komi.

(Forseti (GÁ): Forseti er að leita hans.)

Það mun ekki auðvelt að ...

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hæstv. fjmrh. kemur innan skamms.)

Já. Ég þakka fyrir upplýsingarnar, virðulegur forseti.

Um efni þessarar greinar mætti sannarlega margt segja. Samkvæmt þessari grein fá forstöðumenn stofnana heimild til að umbuna starfsmönnum fyrir hæfni, sérstakt álag eða árangur í starfi. Mér datt í hug þegar ég las þessa grein, launahvetjandi kerfi sem þeir höfðu uppi í Sovét í þá sælu daga. Það var kennt við Stakkanovs. Það er verið að innleiða hér einhvers konar stakkanovéts-kerfi í launamálum að sovéskri fyrirmynd að ég best fæ séð, virðulegur forseti, ef fara á eftir reglunum sem fjmrh. setur. Það á að fara eftir reglum sem honum er ætlað að setja og ráðherrann á að hafa stöðugt eftirlit með reglunum. Hann á að vaka yfir þessum árangri, yfir þessum hæfnismælikvarða en hann hefur jafnframt skömmtunarvaldið í hendi sér þar sem eru framlögin til viðkomandi stofnana. Ef þau hrökkva ekki til, þá er hægt að kippa allri umbuninni til baka umyrðalaust því að það má breyta þessum ákvörðunum hvenær sem er og fjmrh. getur að eigin frumkvæði eins og það er orðað breytt þessum ákvörðunum um viðbótarlaun og svona í leiðinni tugtað til forstöðumenn stofnananna. Þetta er satt að segja, virðulegur forseti, alveg ótrúlegt kerfi sem hér á að innleiða og það er sannarlega jafngott fyrir viðkomandi að þeir séu í náðinni. Ég veit ekki hvort einhverjum hefur dottið í hug hugtakið miðstýring þegar þeir lesa þessa grein. Kannski er þetta bara eðlilegur sveigjanleiki, virðulegur forseti, og svona pedagógísk aðferðafræði til að sundra starfsmönnum viðkomandi stofnunar. Í því skyni eru þessi ákvæði alveg prýðilega fallin að fylgja eftir hugmyndafræðinni divide et impera, að deila og drottna, en það skín raunar víða í gegn í þessu frv.

[17:15]

Þá er hæstv. ráðherra kominn í þingsal og ég ætla þá að leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra frekar. Ég hef verið að fara yfir 9. gr. frv. með þeim breytingum sem meiri hluti efh.- og viðskn. leggur til og þar er gert ráð fyrir að fjmrh. setji reglur um framkvæmd þessarar greinar að eigin frumkvæði. Ég spyr hæstv. ráðherra að því: Liggja þessar reglur fyrir? Hvað hefur hæstv. ráðherra í huga? Er búið að móta þessar reglur? Það væri vafalaust fróðlegt fyrir fleiri en þann sem hér talar að fá upplýsingar um það.

Í þessari grein og skýringum með henni er látið að því liggja að hér sé verið að tryggja sérstaka jafnlaunastefnu að því er kynin varðar. Um langt skeið, a.m.k. frá áttunda áratugnum og sennilega fyrr höfum við haft ákvæði í lögum sem kveða á um sömu laun fyrir sömu vinnu. Hvers konar reglur eru það --- og það er spurning, virðulegur forseti, sem beint er til hæstv. fjmrh. --- hvers konar reglur eru það sem hæstv. fjmrh. hyggst setja sem eru til þess fallnar að tryggja betur jöfnuð á þessu sviði en lagafyrirmæli? Í þessu sambandi, virðulegur forseti, vísa ég til umsagnar Jafnréttisráðs sem hefur fjallað um þetta, skrifstofa jafnréttismála, en í umsögn Jafnréttisráðs er einmitt að þessu vikið og þar er í raun sama spurning borin fram. Tímans vegna vitna ég ekki beint í umsögnina en hún er dagsett 16. apríl sl. (VE: Var það karlanefndin?) Það er Jafnréttisráð. (VE: Ekki karlanefnd Jafnréttisráðs?) Ekki karlanefnd Jafnréttisráðs. Mér sýnist nú satt að segja, að þó að víða halli á konurnar að það þurfi einnig að kalla karlanefndina saman út af þessu frv. Ég kem að því síðar, virðulegur forseti. (Fjmrh.: Hefur ... komið saman og ályktað um frv.) Virðulegur forseti. Nú er hæstv. fjmrh. greinilega kominn í þingsal og orðinn þátttakandi í umræðuni.

(Forseti (GÁ): Samræður eru bannaðar í þingsal.)

Er hægt að ganga eftir því við hæstv. ráðherra hvað hann sagði? (Fjmrh.: Karlanefnd Jafnréttisráðs hefur komið saman og ályktað um vissa hluti frv.)

(Forseti (GÁ): Samræður eru bannaðar í þingsal.)

Hefur ályktað. Hæstv. fjmrh. upplýsir að svonefnd karlanefnd Jafnréttisráðs hafi þegar ályktað og ég vænti þess að ráðherrann upplýsi okkur um það á eftir hvað þar var á ferðinni. Kannski kemur sú nefnd hæstv. ráðherra eitthvað til aðstoðar í vandasömu hlutverki við að bæta úr því sem á skortir í lögum um þetta efni. Við spyrjum ráðherrann um reglurnar og jafnframt hvers vegna þær hafi ekki verið lögleiddar fyrir löngu, þær reglur, þau töfraráð sem hæstv. ráðherra greinilega býr yfir.

Það hefur raunar komið fram og það í sérstökum greinargerðum hvernig kynbundin mismunun ríkir víða hjá hinu opinbera og ef ég man rétt, einnig innan veggja fjmrn. Ég man ekki betur en skýrslur hafi verið reiddar fram um það fyrir ári eða svo sem létu liggja að því að ekki væri allt með felldu í sambandi við jöfnuð kynja í launamálum. Ég skil satt að segja, virðulegur forseti, ekki í því hvers vegna hæstv. ráðherra hefur setið í fimm ár í ráðuneytinu án þess að kippa þessu máli í liðinn. Við skulum ekki staldra lengur við þetta þó af mörgu sé að taka ef litið er til umsagna um 9. gr. frv. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér þær, en þær eru margar athugasemdirnar sem fyrir liggja um það efni.

Við skulum næst líta á 12. gr. sem ég gat um að væri dæmi um dálítið sérkennilega lagasmíð. Sjálf er 12. gr. stutt. Hún er ekki nema ein málsgrein á mælikvarða setningarfræði Björns Guðfinnssonar sem er svolítið annar en sá sem notaður er á þingmálinu. Með leyfi forseta, 12. gr.:

,,Starfsmenn skulu eiga rétt til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi eftir því sem fyrir er mælt í lögum og, eftir atvikum, ákveðið eða um samið með sama hætti og laun, sbr. 1. mgr. 9. gr. ``

Ég les kommusetninguna með vegna þess að hún er vafalaust hluti af þessari væntanlegu löggjöf og veitir nú ekki af að nota greinarmerkin einnig. Samt er erfitt að lesa í innihaldið.

Þá er að grípa til lögskýringanna og þar er að finna athugasemdir við greinina sem lýsa ögn betur upp sviðið. Hvað er það nú sem stendur þar á bls. 26 í frumvarpinu um þessa 12. gr.? Það er nauðsynlegt að draga það fram, með leyfi forseta:

,,Nú byggist rétturinn til greiðslu launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi á mismunandi forsendum.`` Svo er það rakið nánar með tilvitnun fram og aftur í löggjöf. Síðan segir, því að ég reyni að stytta þessa yfirferð eftir föngum, virðulegur forseti:

,,Í 1. mgr. segir að sömu aðilar og fjalla um laun og önnur kjör skuli fjalla um rétt starfsmanna til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi. Fyrir þá starfsmenn, sem nú falla undir lög nr. 38/1954 og ekki eru skilgreindir sem embættismenn samkvæmt þessu frumvarpi, myndi þetta þýða að um réttindi þeirra færi með sama hætti og annarra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að þeim væri tryggður lágmarksréttur til greiðslna í veikindaforföllum, en um frekari rétt yrði viðkomandi stéttarfélag að semja. Hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi þá færi það eftir 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993. Hér er um töluverða breytingu að ræða en í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þeir sem falli undir núgildandi reglur haldi þeim réttindum eins og í ákvæðinu greinir.``

Ég vænti þess að menn séu einhverju nær. En það er ekki allt sem sýnist í þessum texta, virðulegur forseti, þannig að það er eðlilegt að það hefði þurft tilsögn í hv. þingnefnd til þess að menn næðu einhverjum áttum eða fengju eitthvað efnislegt út úr þessum samsetningi. Við tökum eftir því að hér er kveðið á um að þeim verði tryggður lágmarksréttur eftir að þessu hefur verið komið í kring og að þeir sem falli undir núgildandi reglur haldi þeim réttindum eins og í ákvæðinu greinir. Þetta eru kannski ákveðin lykilorð til að skilja innihaldið.

Það ber að hafa í huga, virðulegur forseti, og tengist það öðru ráðuneyti sem Framsfl. stýrir, að hæstv. heilbrrh. hefur haft í smíðum frv. um fæðingarorlof. En því frv. hefur að því er okkur er sagt verið í bili stungið niður í skúffu. Vafalaust kemur það upp á ný með haustinu ef ríkisstjórnin lögfestir þetta frv. fyrir þinglok, en það þótti að mér skilst ekki skynsamlegt að hafa það uppi á borðum mönnum til aflestrar meðan umfjöllun færi fram um þetta mál sem á að tengjast þessu væntanlega frv.

Í skýringum með greininni kemur m.a. fram að fella eigi alla starfsmenn ríkisins undir almannatryggingalög. Þetta þýðir m.a. að karlar fá ekki laun í fæðingarorlofi eins og konur fá nú, heldur falla þeir undir ákvæði laga um almannatryggingar og fá þá fæðingarorlof í formi fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga, en það eru mun lægri greiðslur en gilt hafa um ríkisstarfsmenn. Kemur þar kannski að karlanefndinni sem hæstv. ráðherra var að vitna til að hefði ályktað um málið.

Vissulega er það svo að konur hjá ríkinu hafa notið fram að þessu vissra forréttinda. Maður spyr sig hvort það sé kannski réttmætt í ljósi móðurhlutverks þeirra. Ég ætla ekki að ræða það hér og nú. En um leið og afnema á þetta kynbundna misrétti, þá er tækifærið notað og það er aðalatriðið í þessu máli, í samhengi frv., til að jafna greiðslurnar niður á við. Þetta er raunar stefna sem glittir í víðar í þessu frv. en í sambandi við þessa umræddu grein.

Það er ekki einfalt mál, virðulegur forseti, að halda þræði í gegnum þessa flækju sem er afrakstur nefndar lagaprófessorsins. Það væri freistandi að rekja umsagnir BHMR og Félags íslenskra háskólakennara um þessa grein. Ég vísa til þeirra umsagna því að þær lýsa enn þá betur inn í þetta samhengi því að það hefur ekki farið fram hjá neinum, a.m.k. ekki þeim samtökum sem í hlut eiga, hvað dylst undir þessum stuttorða texta 12. gr.

Þá skulum við, virðulegur forseti, líta næst á 20. gr. Þar er fjallað um rétt opinberra starfsmanna til að sinna öðru launuðu starfi og réttinn til að taka sæti í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar. Hvað segir greinin? Með leyfi forseta vil ég fá að vitna í greinina:

,,Áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar ber honum að skýra því stjórnvaldi, er veitti starfið, frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því, ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans, og honum bannað að hafa hana með höndum. Bera má slíkt bann undir hlutaðeigandi ráðherra.

Rétt er að banna starfsmanni slíka starfsemi sem í 1. mgr. segir ef það er síðar leitt í ljós að hún megi ekki saman fara starfi hans í þjónustu ríkisins.``

Þetta er 20. gr. og engin breytingartillaga er að mig minnir við ákvæði hennar frá meiri hluta nefndarinnar þannig að hún stendur sem tillaga. Þetta er sannarlega merkilegur texti, virðulegur forseti. Margt er þar heldur óljóst. Hvað er átt við með: ,,starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans``, þ.e. starfsmannsins? Það er heldur óljóst hvað þar er á ferðinni og væri út af fyrir sig gott að fá nánari skýringar ef einhverjar eru hjá þeim sem ábyrgð bera á þessum texta. ,,Rétt er að banna ...``, það er ekkert verið að skafa af hlutunum í orðalagi greinarinnar. Út af fyrir sig, virðulegur forseti, er það stefna sem kemur fram í þessari grein, en þessa stefnu ætti þá kannski að innleiða víðar í samfélaginu. Hvernig fellur þessi tillaga, þessi væntanlega lagagrein hér, að jafnræðisreglu sem tryggð á að vera í stjórnarskrá? Og hvað er um alþingismenn að segja svo dæmi sé tekið í sambandi við ákvæði þessarar greinar? (Fjmrh.: Lögin ná ekki til þeirra.) Ég vænti að hv. formaður efh.- og viðskn. leggi við hlustir. Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. segir réttilega að þessi ákvæði nái ekki til alþingismanna. Það er mér fyllilega ljóst. En ég er að vekja athygli á því út frá eðli máls að hér er sérkennilega að lagasetningu staðið því að við hljótum að spyrja: Væri það óeðlilegt að gera svipaða kröfu og hér er verið að gera, setja og lögfesta gagnvart alþingismönnum, jafnvel gagnvart ráðherrum að því er þetta varðar. (Fjmrh.: Þetta hefur verið í lögum í 40 ár. Þetta er óbreytt frá gildandi lögum.) Þetta er í gildandi lögum, segir hæstv. ráðherra, og ekkert er það betri texti til endurákvörðunar nú, ekkert betri texti. Við hljótum að skoða þetta í ljósi þess sem verið er að lögfesta á öðrum sviðum í þessu frv. Ég held að það væri þörf á því að innleiða siðvæðinguna víðar en gagnvart starfsmönnum ríkisins. Ég held að hv. formaður efh.- og viðskn. sem er djúpt sokkinn í blaðalestur í hliðarsal ætti aðeins að spyrja eigin samvisku að því hvort það væri ekki skynsamlegt að taka þessi mál upp til eftirbreytni.

[17:30]

Virðulegur forseti. Mér finnst ástæða til þess að nefna þetta hér. Ástæða þess að opinberir starfsmenn, starfsmenn ríkisins, hafa stundað starfsemi sem gæti fallið undir ákvæði þessarar greinar og kannski ekki verið refsað fyrir og henni kannski ekki beitt af fullri hörku, ég þekki það ekki í reynd, er auðvitað bág launakjör í mörgum tilvikum og viðleitni til þess að bæta þau upp, en viðleitni einstaklinganna til þess að notfæra sér slíkt er afar misjöfn.

Við skulum líta næst til 22. gr. frv. sem er nokkuð breytt í meðförum nefndar samkvæmt tillögum meiri hluta en hún er með ákvæðum um hverjir skuli teljast embættismenn. Það er nauðsynlegt, virðulegur forseti, að fara aðeins yfir greinina ásamt þeim breytingartillögum sem fyrir liggja frá meiri hluta efh.- og viðskn. á efni hennar.

Virðulegur forseti. Ég vitna til þessa þannig að heillegt sé, með leyfi forseta:

,,Embættismenn teljast samkvæmt lögum þessum einvörðungu þeir starfsmenn ríkisins sem taldir eru upp hér á eftir og skipaðir eru í starf skv. 23. gr.:

Starfsmenn Alþingis og stofnana þess.

Starfsmenn skrifstofu forseta Íslands.

Starfsmenn Stjórnarráðs, þar með taldir starfsmenn utanríkisþjónustunnar.

Hæstaréttardómarar og héraðsdómarar, svo og aðrir starfsmenn Hæstaréttar og héraðsdómstóla.

Biskup Íslands og vígslubiskupar.`` Samkvæmt brtt. nefndar bætist við: Prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.

,,Ríkissaksóknari, ríkislögmaður, ríkissáttasemjari og umboðsmaður barna, svo og aðrir starfsmenn við embætti þeirra.

Sýslumenn og aðrir starfsmenn sýslumannsembætta, svo og rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, ríkistollstjóri, lögreglustjórinn í Reykjavík, tollstjórinn í Reykjavík og aðrir starfsmenn lögreglu- og tollstjóraembættanna.

Starfsmenn Fangelsismálastofnunar.

Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja.

Þeir aðrir, sem skipaðir eru í störf samkvæmt öðrum lögum, svo og þeir er gegna störfum sem öldungis verður jafnað til þeirra manna sem getið er í 1.--9. tölulið.

Fjármálaráðherra sker úr því hvaða starfsmenn falla undir 8. og 10. tölulið þessarar greinar og skal hann fyrir 1. febr. ár hvert birta lista í Lögbirtingablaði yfir þá starfsmenn.``

Þetta er tilvitnuð 22. gr. með þeim breytingum sem gerðar eru á meiri hluta efh.- og viðskn. og vona ég að mér hafi tekist að ráða í textann þannig að rétt sé að staðið en sumt af breytingartillögunum vekur vissulega athygli.

Síðan er að finna, virðulegur forseti, nánari skýringar á greininni á bls. 21 í greinargerð sem rétt er að líta aðeins til en þar er vikið að spurningum hvort það sem varðar skiptingu starfsmanna ríkisins í embættismenn annars vegar og óbreytta hins vegar samrýmist m.a. ákvæðum stjórnarskrár og fleira. Hér segir, með leyfi forseta, í greinargerð á bls. 21:

,,Frumvarpinu er ætlað að ráða bót á þessu misrétti, auk þess sem stefnt er að því að réttindi hvers og eins starfsmanns samsvari þeim skyldum, sem honum eru lagðar á herðar, á sama hátt og gert var á sínum tíma þegar lög nr. 38/1954 voru sett. Samkvæmt því gerir frumvarpið ráð fyrir að mismunandi reglur gildi um starfsmenn ríkisins eftir því hver réttarstaða þeirra er. Þannig er lagt til að starfsöryggi þeirra starfsmanna, er njóta hvorki samnings- né verkfallsréttar, verði tryggt nokkru betur en venja er meðan aðrir starfsmenn ríkisins, er njóta almennt samnings- og verkfallsréttar, búi við svipað öryggi í starfi og launþegar á hinum almenna vinnumarkaði. Þó er rétt að leggja áherslu á að samkvæmt frumvarpinu er ríkisstarfsmönnum tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa við almennt í skiptum við vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði. ``

Þetta er úr greinargerð og nánar segir á sömu síðu, með leyfi forseta: ,,Í öðrum hluta frv., sem aðeins tekur til embættismanna, er skilgreint hverjir af starfsmönnum ríkisins teljist embættismenn í skilningi laganna. Hugtakið ,,embættismaður`` er fyrst og fremst notað í frumvarpinu vegna þess að það kemur fyrir í 20. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem stefnt er að því að embættismenn teljist þeir einir sem fást við æðstu stjórn ríkisins og sinna öryggisgæslu, svo sem lýst er nánar í athugasemdum með 22. gr. frv.``

Þetta læt ég nægja, virðulegur forseti, sem tilvitnun og skýringar greinargerðar um þessa tvískiptingu í embættismenn og óbreytta svo ég leyfi mér að nota þau hugtök. Það vekur vissulega athygli þegar borinn er saman kvarðinn sem hér er settur um að embættismenn séu fyrst og fremst þeir einir sem fást við æðstu stjórn ríkisins og sinna öryggisgæslu, að bera það saman við skrána sem er að finna í lagagreininni sjálfri.

Virðulegur forseti. Það geta verið einhver rök fyrir því að um vel skilgreindan hóp manna í æðstu stjórn ríkisins og því sem kallað er öryggisvarsla gildi sérstök ákvæði, m.a. að því er varðar verkfallsrétt og þá kjör viðkomandi vegna skertra réttinda. En mér virðist að hér sé farið langt út fyrir eðlilegan ramma að þessu leyti. Hvers á t.d. biskupinn yfir Íslandi að gjalda og prestar landsins að geta ekki farið í verkfall rétt eins og t.d. starfslið heilbrigðisþjónustu? Ég spyr. Eru þeir hluti af sérstakri öryggisgæslu ríkis með þeim hætti að það sé nauðsynlegt að gera þá að embættismönnum eða viðhalda slíku kerfi? (Fjmrh.: Þeir báðu sjálfir um það.) Þeir báðu sjálfir um það, segir hæstv. fjmrh. (Fjmrh.: Að eigin beiðni.) Að eigin beiðni. Þá kemur náttúrlega að því, hvar eru dyrnar? Hvar er hin þrönga gata sem þræða ber til þess að komast inn í hin helgu vé embættismanna ef þetta er bara gert eftir beiðni? Það getur vel verið að það séu rök, það getur vel verið að mati manna að það séu gild rök fyrir því að hafa hina geistlegu stétt (Fjmrh.: Það er svona í dag.) í hópi embættismanna. --- Það er svona í dag og nú eru það orðin helstu rök fjmrh., sem tekur drjúgan þátt í umræðunni og ég fagna því, að þetta er svona í dag. Þá förum við að spyrja: Hvað um ýmis ákvæði sem eru svona í dag í lögum en verið er að breyta? Það er nú bara svona, segir hæstv. fjmrh. trekk í trekk, það er bara svona í dag, sem rök fyrir því að tillögur ráðherrans og ríkisstjórnarinnar skuli vera með þeim hætti sem hér eru.

Svo tekið sé annað dæmi --- ekki úr geistlegri stétt, þá spyr ég t.d. um umboðsmann barna. Hvernig í ósköpunum stendur á því að umboðsmaður barna er settur undir embættismenn öryggisþjónustu ríkisins og fleiri sem gegna svipuðu kerfi? (VE: Ertu á móti börnum?) Ertu á móti börnum, spyr hv. formaður efh.- og viðskn.? Ertu á móti börnum? Það er nú það, virðulegur forseti. Ég held að ég hafi átt hlut að því með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur á einum fjórum þingum að bera fram frv. til laga um umboðsmann barna, að því yrði komið á. (VE: Er þingmaðurinn að sýna embættinu tilhlýðilega virðingu?) Og hér kemur hver lagaskýringin annarri betri frá ábyrgðarmönnum frv. (Gripið fram í.) Þetta er ekki spurning, virðulegur forseti. (Fjmrh.: Ég held að þingmaðurinn ætti að kynna sér gildandi lög.)

(Forseti (GÁS): Við skulum halda samtölum í hófi í þingsalnum.)

Virðulegur forseti. Nú er ég hvattur lögeggjan um að kynna mér gildandi lög því að það eru orðin rök af hálfu hæstv. fjmrh. að sá texti sé öðrum æðri, hann blífur, sá texti og sýnist mér þá ekki langt í að orðið verði ljúflega við þeirri meginkröfu samtaka launafólks að taka þessi mál út af borði sem lagasmíð og hefja þegar í stað samninga við samtök launafólks um málin og fyrirkomulagið. Það er einboðið og ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. fjmrh. skuli víkja að því.

Þá er einnig komið í ljós, virðulegur forseti, eða upplýst af formanni efh.- og viðskn. að það sé ekki bara spurningin um öryggisgæslu hins opinbera eða æðstu embættismenn hverjir eigi að flokkast undir því heiti og þær skilgreiningar skv. 22. gr. heldur sé þetta ekki síst virðingaratriði. Ég er spurður að því utan úr sal, virðulegur forseti, hvort ég beri ekki virðingu fyrir embætti umboðsmanns barna og ég fullyrði það að ég tel mig eiga nokkuð í því að það embætti er til orðið og vona sannarlega að það verði að gagni. En ég sé ekki að það þurfi til að koma sérstök lagaumgerð um embættið þannig að það sé tekið út úr mörgum öðrum góðum störfum sem falla ekki undir öryggisgæslu ríkisins eða æðstu stjórn þess samkvæmt skilgreiningu höfunda frv. (Gripið fram í: En hvað með prófessora við háskólann?) Hér er spurt utan úr sal hvað ég segi um prófessora við Háskóla Íslands og það er skylt að víkja svolítið að því efni því mér sýnist að það sé full þörf á því að ræða það mál svolítið. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁS): Forseti vill árétta að það er hv. 4. þm. Austurl. sem hefur orðið.)

(Fjmrh.: Hann er búinn að hafa það í allan dag.) Virðulegur forseti. Það er rétt að koma að spurningunni um prófessorana við Háskóla Íslands. Í því sambandi vaknar spurningin hvers vegna stefnt sé að því úr ólíklegustu áttum að ætla að brjóta niður sjálfstæði háskóla landsins, með litlum staf, því að eitt skal yfir alla ganga, með því að gera prófessora sem nú starfa að embættismönnum? Það er vissulega svo, herra forseti, að nú eru allir mögulegir aðilar skipaðir í störf samkvæmt öðrum lögum eins og vikið er að í greininni og það liggur fyrir sérstakt frv. um breytingar á sérákvæðum. Einhvers staðar á ég nærliggjandi, virðulegur forseti, frv., sem er 503. mál þingsins, frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það hefur verið kallað bandormur vegna líkinga við frumvörp með málum óskylds eðlis sem tengjast gjarnan afgreiðslu fjárlaga í þinginu.

[17:45]

Það hefur raunar komið fram, ef ég hef tekið rétt eftir, ég held að það sé upplýst af formanni efh.- og viðskn. að lögfesting þessa frv. sé ekki sérstakt kappsmál ríkisstjórnarinnar nú á yfirstandandi þingi og það megi bíða. Það er mál út af fyrir sig hvernig því verður hagað en það tengist óneitanlega efni frv. sem við erum að fjalla um hér. Við spyrjum: Hvaða réttarstaða kemur upp varðandi fjölmennar stéttir í landinu ef þetta bíður næsta þings og ekki er búið að skilgreina ýmis efni sem er að finna tillögur um í ófáum greinum þessa frv., þar á meðal í 148. gr. þar sem gert er ráð fyrir að breyta lögum um Háskóla Íslands að því er varðar prófessora og dósenta eins og ég kem að á eftir?

Virðulegur forseti. Stór hluti kennara, bæði framhaldsskólakennara og jafnvel grunnskólakennara hefur skipun frá fyrri tíð og mundi falla undir ákvæði 22. gr. að óbreyttu að mér sýnist. Sama gildir um háskólakennara, prófessora, lektora og fleiri sem verða embættismenn í skilningi frv. ef þetta frv. eitt er lögfest svo dæmi séu tekin. Samspilið á milli 502. máls og þess frv. sem hér er til umræðu, er auðvitað nokkuð augljóst en þá er aðeins að víkja frekar að spurningunni um prófessorana og örlög þeirra í samhengi þessa frv. að samþykktum vel að merkja bandormi því að hópurinn verður miklu stærri sem fellur undir skilgreininguna embættismenn ef 503. mál er ekki lögleitt.

Það gerðist rétt upp úr jafndægrum að vori að svonefnt prófessorafélag Háskóla Íslands kom saman til fundar, nánar tiltekið 25. mars 1996, og gerði ályktun. Vegna þess að hér var óskað eftir að reynt yrði að varpa ljósi á þessa stöðu rifja ég upp tillöguna frá stjórn félagsins, með góðfúslegu leyfi forseta. Hún var svohljóðandi:

,,Fundur í Prófessorafélagi Háskóla Íslands, haldinn 25. mars 1996, felur stjórn félagsins að vinna að eftirfarandi breytingu á frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Prófessorum í Háskóla Íslands verði bætt inn í upptalningu á embættismönnum skv. 22. gr. frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Til vara skal stjórn félagsins hlutast til um að fá yfirlýsingu ráðherra menntamála og fjármála um að prófessorar verði áfram embættismenn ríkisins eins og þeir hafa verið allar götur frá því að Háskóli Íslands var stofnaður 1911.``

Greinargerð að tillögunni: ,,Árangur af starfi Háskóla Íslands ræðst af því hvernig að honum er búið. Verði prófessorar settir skör lægra en aðrir embættismenn ríkisins má búast við því að háskólanum reynist erfitt að laða til sín hæfustu menn á hverju fræðasviði. Vegsemd Háskóla Íslands og laun prófessora eru vitnisburður um þá menntastefnu sem yfirvöld ætla að halda uppi í íslensku samfélagi. Laun og staða prófessora eru því ekkert einkamál þeirra. Þess vegna er nauðsynlegt að tekin séu af öll tvímæli um stöðu prófessora sem embættismanna. Launakjör prófessora eins og raunar annarra háskólakennara hafa hríðversnað undanfarna tvo áratugi miðað við stéttir embættismanna sem prófessorar stóðu áður jafnfætis við. Vænlegasta leiðin til að bæta úr þessu er að kaup þeirra og kjör ákvarðist af kjaranefnd. Jafnframt verður háskólaráð að tryggja prófessorum áunnin réttindi svo sem rannsóknaleyfi samkvæmt gildandi reglum og greiðslur úr vinnumatssjóði. Prófessorar vilja vera áfram sem deild í Félagi háskólakennara og vinna að sameiginlegum málefnum starfsmanna skólans á þeim vettvangi. Ætlunin er að óska eftir fulltingi háskólaráðs við tillöguna og koma henni á framfæri við ráðherra strax og færi gefst.``

Þetta var tillaga félagsfundar í Prófessorafélagi Háskóla Íslands 25. mars og liggur fyrir og það er leitað ásjár háskólaráðs. Mig minnir að í því háskólaráði sitji að vísu eitthvað af prófessorum en það er önnur saga. 28. mars 1996 kemur háskólaráð Háskóla Íslands saman og þar er bókað í bréfi til menntmrh., með leyfi forseta:

,,Á fundi háskólaráðs í dag var lagt fram bréf frá prófessor Guðmundi Magnússyni, formanni Prófessorafélags Háskóla Íslands, þar sem hann greinir frá fundi í félaginu 25. mars sl. og samþykkt sem þar var gerð og kynnt hefur verið ráðherra. Háskólaráð gerði svofellda bókun:

,,Háskólaráð telur stöðu prófessora háskólans sem embættismanna skipta sköpum fyrir þróun Háskóla Íslands sem háskóla og rannsóknastofnunar. Ráðið felur rektor að vinna að því að prófessorar teljist embættismenn samkvæmt frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.``

Þessari bókun er hér komið á framfæri við menntmrh. með von um stuðning við þennan vilja háskólaráðs. --- Virðingarfyllst, Sveinbjörn Björnsson rektor.``

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig tæpast með glöðu geði sem þessi texti er hafður yfir. Ég verð að segja að mér finnst það afar leitt að sú staða skuli liggja fyrir sem fram kemur í þessum ályktunum, þessum tilskrifum sem hér var vitnað til því að þessari afstöðu frá þessu félagi eða klúbbi háskólaprófessora eins og hún birtist alþjóð í þessu samhengi verður tæplega jafnað við annað en meiri háttar hneyksli að mínu mati. Það er óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir þetta mál frekar.

Ég hef þegar rakið bréfin, ályktanirnar, þar á meðal í háskólaráði en eins og hv. alþingismenn vita eru í háskólaráði prófessorar, þeir einu sem þar eru kjörgengir, og hér eru þeir að framvísa eigin samþykkt með stimpli háskólaráðs. Þetta verður satt að segja að teljast þröng eiginhagsmunagæsla sem getur tæpast talist taka mið af heildarhagsmunum Háskóla Íslands. Það er ekkert einkennilegt að viðbrögð og samþykktir kennara við Háskóla Íslands og starfsmanna Háskóla Íslands við þessu úthlaupi þeirra sem skipa nú prófessorsembætti við háskólann hefur verið mætt af Félagi háskólakennara með nokkurri hörku.

17. apríl 1996 skrifar Félag háskólakennara þingnefndinni, efh.- og viðskn., erindi þar sem fjallað er um þessi mál og kemur þar fram sú eindregna krafa af hálfu Félags háskólakennara að frv. verði dregið til baka í fullum samhljómi við kröfur annarra samtaka launafólks en þar er jafnframt þó vikið að þessu máli sem ég gerði að umtalsefni því að þar segir, með leyfi forseta, m.a.:

,,Ýmsum réttindum opinberra starfsmanna hefur verið jafnað til launa og því er óeðlilegt að fjalla um breytingar á réttindum án þess að um leið sé samið um laun og önnur kjör. Mikilvægt er að áunnin réttindi séu ekki tekin af fólki með einhliða ákvörðunum. Þótt frv. geri aðallega ráð fyrir að fólk sé svipt réttindum án bóta er þó gert ráð fyrir að það haldi sumum af þeim réttindum sem það nú hefur, svo sem skipun í starf en þeir sem ráðnir verða eftir breytingu hafi ekki slík réttindi. Þar eð frv. gerir ráð fyrir að starfsmenn hins opinbera séu með mismunandi ráðningarréttindi ætti einnig að vera gert ráð fyrir að launakjör séu mismunandi.``

Síðar í þessu erindi varðandi 22. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags háskólakennara telur ekki þann mun á störfum prófessora og dósenta og lektora að staða þeirra sé svo mismunandi sem ætla mætti af samþykktinni.`` Þar er vitnað til samþykktar háskólaráðs frá 28. mars sem ég hef þegar lesið. ,,Í ályktun prófessora er fyrst og fremst lögð áhersla á léleg launakjör og þá vissu að kjaranefnd muni bæta kjör þeirra. Það er umhugsunarvert að launastefna ríkisins skuli vera með þeim hætti að launamenn telji hag sínum betur borgið með því að afsala sér samningsrétti en láta nefnd án aðildar launamanna ákvarða laun sín.`` Síðar segir í erindinu: ,,Meginsjónarmið félagsins er að við allar þær breytingar sem gerðar kunna að verða á stöðu háskólakennara verður að horfa til sameiginlegra hagsmuna allra félagsmanna. Í því sambandi má benda á að við núverandi aðstæður er ekki munur á starfsskyldum lektora, dósenta og prófessora við Háskóla Íslands þótt prófessorar einir séu kjörgengir til æðstu stjórnar háskólans. Því er áhorfsmál hvort það samræmist orðalagi laganna að prófessorar einir verði embættismenn í framtíðinni, samanber orðalagið ,,störfum sem öldungis verður jafnað til embætta``.

Í lögum um Háskóla Íslands eru ákvæði sem heimila að lektor geti fengið framgang í stöðu dósents og dósent geti fengið framgang í prófessorsembætti eftir ákveðnum reglum sem háskólaráð setur. Ekki er ljóst hvort slík ákvæði geta staðið áfram og dósentar geti orðið prófessorar og þar með embættismenn með sama hætti og nú er eða hvort settar verði einhverjar hömlur á fjölgun prófessora.``

Þetta segir í erindi frá Félagi háskólakennara. Það er talað kurteislega af hálfu þessa félags sem hefur innan vébanda sinna einnig hinn virðulega klúbb Prófessorafélag við Háskóla Íslands eins og það mun vera kallað en mér er ekki kunnugt um að það sé stéttarfélag í þeim skilningi sem við leggjum í það orð heldur séu prófessorarnir varðandi sín kjör og annað þátttakendur í Félagi háskólakennara.

Þetta mál hefur síðan orðið tilefni til þess að við alþingismenn fengum sérstakt erindi frá Félagi háskólakennara 8. maí sl. þar sem verið er að varpa ljósi á hvað felst í svonefndu framgangskerfi háskólakennara og hversu alvarleg áhrif það hefði að stía sundur prófessorum sem embættismönnum, þeim sem nú eru annars vegar og öðrum kennurum háskólans og starfsmönnum á þetta framgangskerfi. Ég ætla tímans vegna, virðulegur forseti, ekki að fara yfir efni þessa bréfs þótt það sé ágætt og varpi ljósi á mál sem vafalaust hefur ekki verið nógu skýrt í hugum ýmissa og væntanlega ekki í hugum þeirra sem bera þetta mál fram því að tæpast vill maður ætla frumvarpshöfundum að vilja rústa það kerfi sem reynst hefur mjög þokkalega í sambandi við störf innan háskólans og að byggja þar múra með þeim hætti að setja núverandi prófessora í sérstaka stöðu gagnvart öðrum kennurum og starfsmönnum við háskólann.

[18:00]

Það hafa borist fleiri erindi sem tengjast þessu efni og ég vitna hér til, virðulegur forseti, þess erindis sem sent var menntmrh., dags. 8. maí 1996, undirritað af um 40 starfskonum, sem eru starfsmenn háskólans, kennarar og sérfræðingar, og fjalla um stöðu kvenna almennt innan háskólans og hvaða áhrif það hefði á möguleika kvenna til framgangs í störfum ef sú stefna yrði ofan á sem mörkuð er með þessu frv. og ákvæðum í svonefndum bandormi, sérákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta eru, virðulegu forseti, háalvarleg mál sem hér eru á ferðinni og því mikil ástæða til að þau verði gaumgæfð. Ég spyr bæði hæstv. fjmrh. og formann efh.- og viðskn.: Er það ætlun þeirra að færa í lög þau ákvæði sem hér um ræðir undir tölulið 10 í 22. gr. og þau efni sem er að finna jafnframt í breytingu á sérlögum um einstakar starfsstéttir? Þar á meðal í 148. gr. að því er varðar prófessora og reyndar dósenta sem verið er að setja á annan bás og koma í veg fyrir þeirra framgang með því kerfi. Það er alveg nauðsynlegt áður en þessi umræða heldur áfram að þetta liggi skýrt fyrir, virðulegur forseti. Ég er viss um að það getur greitt fyrir umræðunni ef það kemur fram skýr afstaða í þessu máli sem felur það þá í sér að ekki sé hugmyndin að raska framgangskerfi við Háskóla Íslands með þeim hætti sem lagt hefur verið til af fámennum sérhagsmunahópi innan háskólans sem hefur með ótrúlegum vinnubrögðum leitast við að fá sig flokkaðan undir æðstu stjórnsýslu ríkisins eða öryggisgæslu með því að teljast embættismenn.

Mér finnst þessi sérkjarabarátta prófessoranna svo langt fyrir neðan allt sem tengja má við eðlileg vinnubrögð, svo ekki sé notað hugtakið virðing sem hv. formaður efh.- og viðskn. nefndi í þessu sambandi. Ég vek athygli á að það eru ekki allir háskólakennarar undir sömu sök seldir í þessu máli og ekki prófessorar. Til dæmis hafa prófessorar við Kennaraháskóla Íslands andmælt þeirri stefnu sem hér er verið að leggja mikla áherslu á og er með þeim hætti sem vitnað hefur verið til og með ekki minni orðum af háskólaráði en það skipti sköpum fyrir þróun háskólans að halda þeim prófessorum sem nú eru í embættum vel að merkja á sérstökum básum embættismanna.

Það má vera að þetta falli undir þá viðleitni sem kemur fram í frv. á ýmsum stöðum að skipta starfshópum upp, að deila og drottna og koma fram þeim markmiðum sem leynast á bak við frumvarpsgreinarnar mörgu í þessu máli þegar grannt er skoðað. Mér sýnist að með þeirri stefnu sem þarna liggja tillögur fyrir um sé verið að vega að sjálfstæði háskólans og það ætti miklu frekar að setja allar ráðningar innan skólans í hendur skólans sjálfs. Það væri a.m.k. í meira samræmi við það sem er viðleitni víða annars staðar í þessum efnum og þar sem áhersla er lögð á það að hver háskólakennari og rannsóknarmenn við háskóla búi við akademískt frelsi en séu ekki settir undir hæl annarra, hvað þá undir þær reglur sem embættismenn eru flokkaðir samkvæmt þessu máli. Það er skylt að líta til málsbóta í þessu efni þegar svona tillögur eru fram bornar af Prófessorafélagi háskólans. Þeir búa við lág launakjör miðað við margar aðrar starfsstéttir og þær kröfur sem til þeirra eru garðar. En það ber jafnframt að líta til þess að raunverulegur munur á starfi prófessora annars vegar og hins vegar lektora og dósenta við háskólann er kannski oft og tíðum aðallega form og virðing sem hér er nefnd af formanni efh.- og viðskn. og skiptir greinilega mjög miklu máli í mælikvarðanum hverja á að draga í dilkinn, embættismenn annars vegar og hins vegar óbreytta.

Við hljótum, virðulegur forseti, einnig að spyrja: Hvers eiga þeir prófessorar að gjalda sem á eftir koma? Mér sýnist ekki neitt einboðið að þeir gangi þessa greiðu götu. Hvers konar starfsmannastefnu væru menn að innleiða með því að lögfesta þessi ákvæði? Ég held að hér sé mjög stórt mál á ferðinni í samhengi þessa frv. Það er ekki aðeins spurning um stefnu og þróun Háskóla Íslands. Þetta er auðvitað um leið spurning um jafnræði og jafnrétti bæði kynja og þeirra sem nú eru að störfum og þeirra sem á eftir koma. Það mætti búast við því líka að um leið og svona kerfi er innleitt, væru á ný settar upp girðingar varðandi fjölda prófessora við háskólann. Það er því ekki allt sem sýnist í þessu máli, virðulegur forseti.

Hér barst inn á borð mitt nýtt erindi sem tengist þessu máli. Hæstv. fjmrh. sagði að það hefði komið fram við umræðuna. Ég þekki það ekki. En ástæða gæti verið til að nefna það í samhengi þessarar umræðu. Vísindanefnd háskólaráðs sendir erindi 8. maí 1996 til rektors og háskólaráðs. Þar er fjallað um þetta mál og ég ætla, með leyfi forseta, aðeins að grípa niður í þetta álit sem vísindanefnd háskólaráðs kýs að láta í ljós. Það hefst þannig:

,,Nefndin telur að tillögurnar um breytingar innan háskólans einkennist af fljótræði í meðferð viðkvæms máls sem kallar á ígrundun og athugun ýmissa aðila, ekki síst innan skólans sjálfs. Ljóst er að ef af þessum breytingum verður munu þær hafa víðtæk áhrif á starfsemi háskólans. Nauðsynlegt er að reyna að sjá þau áhrif fyrir og taka mið af þeim við endanlegar ákvarðanir. Reikna má með að þeim breytingum sem tillögurnar gera ráð fyrir muni fylgja grunnlaunahækkanir prófessora og hugsanlega annarra háskólakennara í kjölfarið. Lofsvert er að þannig skuli reynt að bregðast við óviðunandi kjörum íslenskra háskólakennara. Hinar breyttu forsendur sem í tillögunum felast geta hins vegar einnig leitt til lakari kjara og aðstæðna háskólakennara, prófessora jafnt sem annarra, einkum með löskun framgangskerfis og hugsanlegra breytinga á vinnumatssjóði. Ef allt þykir benda til að prófessorar verði embættismenn samkvæmt hinu nýja skipulagi telur vísindanefnd algert forgangsatriði að framgangskerfinu verði ekki lokað við dósentmörkin eins og tillögurnar gera ráð fyrir.``

Þetta erindi er mun ítarlegra en tímans vegna, virðulegur forseti, læt ég tilvitnun í þetta erindi, sem undirritað er af formanni vísindanefndar háskólaráðs, Ástráði Eysteinssyni, nægja að sinni.

Þetta, virðulegur forseti, taldi ég ástæðu til að draga fram vegna 22. gr. og ég vænti þess að hér komi skýr svör af hálfu ráðherra og formanns efh.- og viðskn. um þá stefnu sem hér er mörkuð af þeirra hálfu.

Þá ætla ég að víkja aðeins að 26.--35. gr., virðulegur forseti, án þess að fara þó ítarlega í þau efni svo sem vert væri. Þær greinar fjalla aðallega um mögulega brottvikningu starfsmanna ríkisins úr starfi um lengri eða skemmri tíma og þar er sannarlega að finna ýmis sérkennileg ákvæði sem eru ekki öll nútímaleg miðað við notkun þess orðs sem er kannski ekki alltaf nákvæm, m.a. í samhengi eðlilegrar starfsmannastefnu, mannréttinda og fleira sem þar mætti til taka. Jafnvel mætti líta á efni þessara greina í samhengi stjórnarskrár Íslands. En ég ætla ekki að fara út í svo víðtækan samanburð. Ég vek athygli, virðulegur forseti, á ákvæði 26. gr. með stuttri tilvitnun. Þar segir:

,,Stjórnvald er skipar í embætti veitir og lausn frá því um stundarsakir.

Rétt er að veita embættismanni lausn um stundarsakir, ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanræsklu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, sbr. meðal annars 38. gr., hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegnir.``

Virðulegur forseti. Þetta eru mælikvarðar sem hér eru fram reiddir en mætti jafnframt spyrja hið gamalkveðna: Það höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Mætti kannski nefna það í sambandi við það sem hér er uppi haft í þessum tillögum að lagatexta.

Í 27. gr. er síðan að finna tillögur varðandi lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og þá nefnd sem ætlað er að leggja mat á það. Í 30. gr. er enn frekar um sama efni fjallað með þessum hætti, með leyfi forseta:

,,Ef embættismaður hefur verið frá störfum vegna sjúkdóma eða slysa samfellt í eitt ár eða sem svarar 1/18 af samfelldum starfsstíma hans hjá ríkinu, ef sá tími er lengri en eitt ár, skal veita honum lausn frá störfum vegna heilsubrests. Þetta gildir þó ekki ef læknir vottar að líkur séu til fulls bata innan næstu þriggja mánaða enda sé honum þá veitt lausn að liðnum þessum þremur mánuðum ef hann er enn óvinnufær.``

Þetta eru ákvæði þar sem talað er um ,,skal``. Ég vek athygli á því, það er ekkert verið að skera það við nögl. Og margt fleira í texta þessara lagagreina er með þeim hætti að ég undrast að hv. þingnefnd skuli ekki hafa haldið vöku sinni betur en hv. formaður virðist gera nú um stundir við yfirferð þessara greina. (VE: Ég er svo djúpt sokkinn í að hlýða.) Það er ágætt ef hv. formaður er vaknaður. Betra væri þó ef hann vaknaði til vitundar um efni þessara greina og bætti þar eitthvað um betur. Það sama gildir raunar, virðulegur forseti, um 44. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að breyttu orðalagi. Upphaf hennar hljóðaði svo: ,,Ekki er skylt að veita starfsmanni áminningu áður en honum er sagt upp störfum.`` En aðeins hefur meiri hluti hv. nefndar rumskað því að nú er tillaga um að greinin orðist svo, með leyfi forseta:

,,Skylt er að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar.`` --- Þetta kallar að sjálfsögðu á samanburð við 21. gr., virðulegur forseti. --- ,,Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.``

Virðulegur forseti. Það fer að sjást blóð á þeirri öxi sem hér er reidd upp. Ég fæ ekki betur séð en það sé komið blóð á öxina. Að minnsta kosti er alveg ljóst að það mun renna ef hún verður látin falla, ef hv. formaður efh.- og viðskn. lætur ekki við bindast og fer að hætti Þorgeirs Hávarssonar og lætur öxina ríða af því að ríkisstarfsmenn liggja svo vel við höggi. Þetta er satt að segja texti sem er með ólíkindum sem hér er uppi hafður. Ég fæ ekki séð, virðulegur forseti, hvernig svona málabúnaður getur samrýmst eðlilegri stjórnsýslu. Hér eins og annars staðar í þessu frv. er ljóslega verið að gera stjórnsýslulögin óvirk að mestu varðandi starfsmenn ríkisins. Kann sá um að véla sem hefur skrifað saman þetta frv. sem telst vera einn helsti höfundur stjórnsýslulaga en telur sér henta að leggja nafn sitt við þessar tillögur sem hér eru. Fer nú, finnst mér, að falla á virðingu prófessorsembættanna þegar allt er lesið.

[18:15]

Og svo að öllu sé til haga haldið. Ég gleymdi síðustu málsgrein, virðulegur forseti, 44. gr., því að þar segir: ,,Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega.`` Það þarf að ganga eftir því. ,,Ef hún á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.`` Náðarsamlegast.

Virðulegur forseti. Ég vísa kostgæfnu fólki að lesa 21. gr. og bera hana saman við þau ákvæði sem ég vitnaði hér til, en ég ætla að snúa mér að 47. gr. frv. Þar er að finna heimild til starfsmanna ríkisins til þess að standa utan stéttarfélaga. Þar glittir í áhugaefnið mikla sem skýrast hefur verið talað um af hv. þm. Pétri Blöndal að því er varðar samtök launafólks almennt, þ.e. að greiða götu þeirra sem kjósa að standa utan stéttarfélaga með hvetjandi ákvæðum lögfestum og tryggja það þannig að enginn vafi sé á að þeir gjaldi þess í engu ef þeir kjósa að standa utan stéttarfélaga. Í orðanna hljóðan er þetta þannig, með leyfi forseta:

,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf.``

Þannig er um það búið. Þetta er svona einhvers konar kóróna, virðulegur forseti, á þetta sköpunarverk hæstv. fjmrh. og hans hjálparmanna. Ef litið er til 49. gr., þá segir þar með berum orðum, með leyfi forseta:

,,Ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðri stjórnvalda, nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna.``

Stjórnsýslulögunum er kippt úr sambandi að því er varðar þessi ákvæði nema sérstaklega sé til tekið. Það fer ekki mikið fyrir rökunum fyrir því hvers vegna á að undanþiggja starfsmenn ríkisins, þann fjölmenna hóp frá því að njóta þess sem teljast verða eðlileg mannréttindi í samhengi stjórnsýslu. Það er ljóst að hér er ekki haldið á penna með réttindi starfsmanna í huga. Það er m.a. vert að lesa þessi ákvæði í ljósi þeirra greina sem ég vitnaði til, frá 26. gr. og alla götu aftur í 44., í sambandi við möguleika til að vísa starfsmönnum úr starfi. Það er bara svona stöku sinnum sem ástæða er til að gera þeim viðvart eða gera þeim kleift að koma við einhverjum andmælum.

Virðulegur forseti. Ég setti í upphafi ræðu minnar málið í samhengi við almenna stefnu sem íslensk stjórnvöld fylgja og étin er upp eftir því hagfræðingaliði sem mestu ræður í alþjóðasamtökum og vinnur þar fyrir þá sem yfir fjármagni ráða. Þeir hafa beitt sér að því að taka þar úr allar lokur til þess að tryggja að atvinnuleysi fari ekki í hæstu hæðir, verði kannski ekki mikið meira en er í Bandaríkjum Norður-Ameríku nú um stundir, og því verði að brjóta niður stéttarfélög, það verði að láta hvern einstakan starfsmann keppa við hinn næsta, láta starfsmennina keppa innbyrðis og bjóða niður launakjörin hver fyrir öðrum og tryggja þar með gangverk hagkerfisins. Það er þetta ómannlega, ótæka kerfi í efnahagsstjórn heimsins sem við sjáum afleiðingarnar af þó í litlu sé í þeirri stefnu sem fram er borin með þeim frumvörpum sem varða breytingu á vinnulöggjöfinni hér á landi, þar á meðal í því frv. sem við ræðum um.

Þetta efnahagskerfi, virðulegur forseti, er eins og ég hef nefnt áður að leiða heimsbyggðina fram á hengiflug vegna áhrifa þess á umhverfi jarðar, vegna áhrifa þess möguleika fólks til starfa og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta notið krafta sinna og lagt fram krafta sína til samfélagsins. Spurningin er hvort haldið sé uppi einhverju lágmarksjafnræði meðal þegnanna í hinum ýmsu þjóðfélögum jarðar, jafnræði sem þarf að nást í allt öðrum mæli en nú er milli ríkra þjóða og fátækra, jafnræði innan samfélaga þar sem allt stefnir til annarrar áttar, á báðum þessum svæðum, jafnt milli ríkra þjóða og fátækra og innan þjóðfélaga þar sem munurinn milli ríkra og fátækra heldur sífellt áfram að vaxa.

Algert grundvallarskilyrði fyrir því að hægt sé að stöðva þessa þróun er að innleiddir verði aðrir mælikvarðar í sambandi við það hvað eigi að verða lágmarkstillit til jöfnunar milli einstaklinga og milli þjóðfélagshópa og einstakra svæða á jörðinni. Það er að mínu viti alger nauðsyn, ef það á að stöðva þessa vegferð sem nú er í fullum gangi.

Ég get, virðulegur forseti, leitt fram ýmsa mæta menn þessum sjónarmiðum til stuðnings. Ég ætla ekki að hafa þar uppi langar tilvitnanir, en það er freistandi að nefna í þessu sambandi menn eins og John Kenneth Galbraith sem er frjálslyndur hagfræðingur sem allir þekkja og er nú líklega á 87. aldursári. Hann hefur í erindum og greinum nú að undanförnu lagt á það mikla áherslu að fylgni við þessa stefnu sem ég hef dregið upp og gert að umtalsefni leiði ekki nema til einnar niðurstöðu og hefur varað mjög alvarlega við henni. Ég hefði gjarnan viljað vitna til greinar sem hann ritaði í tímarit og ég átti einhvers staðar í mínu safni. En ég get rifjað það upp við annað tækifæri, virðulegur forseti, og dregið fram þau sjónarmið sem ég tek þar undir mjög eindregið.

Ég bendi líka á viðvaranir sem fram hafa komið í öðru samhengi, þar á meðal í málgagni sem kennt er við Framsfl. Vegna þess að ég hef beint allhörðum orðum til forustu þess flokks þá bæti ég kannski ögn um betur með því að vitna í málgagn flokksins, grein sem kom fram alveg nýlega og varðar það efni sem við ræðum hér. En þar sem ég er með handa á milli, grein um John Kenneth Galbraith og tilvitnanir í hann, þá vil ég a.m.k. nefna það að hún birtist í The Guardian Weekly 6. febrúar 1994. Þar er að finna varnaðarorð sem eru í ætt við það sem ég hef rakið. Hann segir m.a. í þessari grein að eitt allra þýðingarmesta skrefið sé að tryggja meiri tekjujöfnuð en markaðskerfið leiðir til, að það sé algert grundvallaratriði. Hann hvetur til þess að menn beiti sér að því verkefni. M.a. segir hann: ,,Á tíma samdráttar þurfa ríkisstjórnir að beita sér af afli fyrir því að ráða fólk til starfa og koma í veg fyrir efnahagslega mismunun og atvinnuleysi.``

Greinin sem ég nefndi og er að finna í málgagni framsóknarmanna, Tímanum, varðar aukin tök alþjóðafyrirtækja, auðhringanna, í heiminum. Það fer ekki fram hjá neinum að þeir ráða afar miklu og í sívaxandi mæli eru ráðandi um þá þróun sem nú er uppi. Greinin birtist fyrir fáeinum dögum þannig að þeir sem vilja kynna sér efni hennar geta lesið sér þar til. Hún er reyndar sótt í erlent rit, Die Woche, og þar er um að ræða endursögn. Þar er dregið fram á mjög skýran hátt og að ég tel með réttum rökum, hvernig fjármálavald heimsins hefur tekið valdið af stjórmálamönnum varðandi öll meginatriði stefnunnar í efnahagskerfinu. Þar er dregið fram hvernig alþjóðavæðingin sem svo er kölluð virkar og hvernig hún er að deila upp þjóðfélögunum, kljúfa þjóðfélögin, kljúfa löndin og kljúfa einstök svæði í heiminum með aukinni misskiptingu. Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að fátt bendir til þess ef nokkuð að þessi alþjóðavæðing fjármagnsins færi fjöldanum gull eða græna skóga. Fylgifiskar hennar virðist mér að stefni að því að auka misskiptingu lífsgæða, leiða til vaxandi atvinnuleysis, leiða til áður óþekktrar sviptingar á mörkuðum með vörur og fjármagn, vaxandi mengunar og verri nýtingar náttúruauðlinda. Það er þessi ríkjandi stefna sem ég hef reynt að varpa nokkru ljósi á í samhengi við þetta frv. sem við þurfum að snúa baki við. Og við þurfum leita leiða til þess að reisa skorður við blindum lögmálum markaðarins sem eru langt komin með að taka völdin innan þjóðríkja, af þjóðríkjum og um leið á heimsmælikvarða. Það nægir ekki að ákalla ráðamenn þjóðanna og biðja um aðra og betri stefnu nema þar ríki pólitískur vilji til þess að leita annarra siglingaljósa.

Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. og aðrir góðviljaðir menn hafi áhuga á því að leita eftir öðrum siglingaljósum en þeim sem eru að bera okkur fram á þessa brún. Og það skulu vera mín síðustu orð að þessu sinni við 2. umr. að ég hvet menn til þess að leita eftir öðrum leiðum til þess m.a. að tryggja viðunandi jöfnuð, lágmarksöryggi þegnanna og starfsfúsum höndum verk að vinna.