Tölvuskráning símtala

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:06:06 (5913)

1996-05-13 15:06:06# 120. lþ. 136.1 fundur 300#B tölvuskráning símtala# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:06]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu gott að hafa vökula nefnd sem setur reglur og tekur afstöðu til umsókna um skráningu. Það er allt á réttum stað. Hitt hlýtur að vera jafnnauðsynlegt að Alþingi yfirfari þessi mál og breyti settum reglum ef nauðsynlegt er talið til þess að tryggja vernd einkalífsins. Mér sýnist að hér sé á ferðinni svo víðtæk skráning sem fari um hendur einstaklinga og auk þess liggja fyrir úrskurðir af hálfu tölvunefndar sem snerta möguleika lögreglu til þess að komast í skrár, þá skráningu sem þegar liggur fyrir, hvað þá þegar svona heildarskráning er til staðar. Menn þurfa ekki annað en líta á hvað lesa má út úr slíkum tölvuskráningum og hvernig má misnota það og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra eindregið til þess að fara yfir þessi efni og þau stóru álitamál sem hér eru. Stóri bróðir er satt að segja býsna nærri.