Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:11:14 (6029)

1996-05-14 21:11:14# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:11]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal ekki fullyrða hvort um misskilning er að ræða hjá hv. talsmanni allshn. Sú tillaga sem við flytjum hér og er á þskj. sem prentað var upp og ég kynnti hér við umræðuna gerir ráð fyrir því að um gjafakynfrumur geti verið að ræða því að 1. mgr. 4. gr. er ekki breytt efnislega. Í öðru lagi gerir tillagan ráð fyrir því að ráðherra setji reglur um upplýsingar um gjafa. Þær skulu skráðar og varðveittar samkvæmt reglum sem ráðherra setur þannig að barn geti við 18 ára aldur fengið aðgang að upplýsingum um erfðafræðilegt foreldri sitt. Þetta er sá mælikvarði sem reglur ráðherra eiga að taka mið af og þær eru mjög skýrar. Hér er enginn misskilningur á ferðinni og ekkert óskýrt í þessari tillögu þannig að það er á algjörum misskilningi byggt hjá hv. þm. að hér sé um einhverjar eyður að ræða í þeim tillöguflutningi sem hér um ræðir. Hér er dregið fram aðalatriði málsins. Hvernig frá því er gengið gagnvart gjafa og foreldri er ráðherrans að setja reglur um. Það er minni háttar atriði. Það er framkvæmdaatriði til að ná því markmiði, hann verður að lúta því markmiði sem hér um ræðir. Hann verður að lúta því ákvæði. Þannig er með skýrum hætti tekið á þessu efni. En það er ekki gert í brtt. frá allshn. um ákvæði til bráðabirgða þannig að þar er á mikill munur.