Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 21:27:19 (6033)

1996-05-14 21:27:19# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[21:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað verður hver og einn að leita fanga til að rökstyðja sína niðurstöðu. Mér fannst hv. þm. seilast býsna langt í upphafi síns máls þegar hann kvað upp úr um það og bar við umsögn lækna, mér skildist bara á heildina litið sem að þessum málum hefðu komið, sem væri þess efnis að aldrei hefði komið neitt upp í huga foreldranna um að þessi aðferð væri röng. ,,Þessi spurning hefur aldrei vaknað hjá því fólki sem fengið hefur þessa þjónustu`` segir hv. þm. Hvernig í lifandis ósköpunum geta menn komið fram með slíkar staðhæfingar hér á Alþingi. Ég bið hv. þm. að vísa á hvaða rannsóknir hafa farið fram á viðhorfi og tilfinningalífi foreldranna. En það er ekki meginkjarni málsins. Spurningin er um rétt barnsins. Um það snýst þetta mál. Um það snýst þessi tillaga. Um það fjallaði hv. þm. ekki. Það er greinilega í öðru sæti í hans málsmeðferð. Það er sjónarmið sem við flutningsmenn þessarar tillögu tökum ekki undir. Ég vil jafnframt benda hv. þm. vegna orða hans um þessi efni, á upplýsingar sem ég veit að fóru inn í allshn. Það er blaðagrein úr Sænska Dagblaðinu frá 2. mars 1996 sem var þýdd að hluta fyrir allshn. Ég vil nú ekki fara að lesa upp úr þeirri þýðingu hér en hv. þm. hefur hana undir höndum. Þar er dregin fram gagnrýni margra aðila, samtaka, sálfræðinga og barnalækna sem mæla gegn þessari notkun og beitingu tækninnar sem hér er um að ræða. Og mér finnst hv. þm. skulda okkur upplýsingar um hvaðan hann hefur þessa niðurstöðu varðandi sjónarmið foreldranna.