Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 14. maí 1996, kl. 23:36:03 (6061)

1996-05-14 23:36:03# 120. lþ. 137.5 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur

[23:36]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Til skýringar vegna ábendinga frá hv. 19. þm. Reykv. þá er það aðeins ein tillaga sem hér er til umræðu. Það voru mistök að út fór texti sem var á vinnslustigi í dreifingu, en hann var að sjálfsögðu prentaður upp og dreift þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og mælt hefur verið fyrir. Þannig að allur samanburður milli einhverra texta að því leyti skiptir ekki máli gagnvart tillöguflutningi við þessa umræðu.

Í sambandi við spurninguna um gildi eða stöðu þeirrar tillögu sem hér um ræðir með tilliti til þess að hún fáist staðist tel ég að það sé alveg ótvírætt. Það er sagt skýrum stöfum í tillögunni að ráðherra setji reglur og skilyrðið er dregið fram með ljósum hætti. Ráðherra verður hins vegar að útfæra það hvernig þessar reglur skuli vera að því er varðar gjafann og foreldrið að öðru leyti en þessu sem hér kemur fram. --- Virðulegur forseti, ég er í andsvari við hv. þm., mér sýnist hún ekki hlýða á það. --- Ég tel alveg ljóst að sú stofnun sem ber ábyrgð á tæknifrjóvgun og fær leyfi til slíks þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þessa meginákvæðis þegar gengið er frá notkun sæðis gagnvart gjafa. Það segir sig sjálft. En það er útfærsluatriði. Ráðherra mun að sjálfsögðu meta með hvaða hætti það er sett fram.

Ég ítreka að ég held að það séu engir meinbugir á þessari tillögu þannig að hún fær fyllilega staðist. En það er rétt að framkvæmdarvaldinu er ætlað ákveðið hlutverk sem af sumum hefur verið reynt að útfæra á ákveðinn hátt.