Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:51:02 (6264)

1996-05-18 14:51:02# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ræddi þetta mál eitthvað við 1. umr. og vil aðeins koma að því hér við 2. umr. enda heyrði ég að hv. framsögumaður heilbr.- og trn. vék að því að tekið hefði verið á vissum atriðum sem ég vakti athygli á þegar málið var hér til 1. umr. Ég get gjarnan slegist í hóp þeirra sem þakka nefndinni fyrir störfin þó að það séu fáeinar athugasemdir eða ábendingar sem ég ætla að leyfa mér að koma fram með. Á það ekki að skyggja á það að nefndin á þakkir skildar fyrir að koma með þetta mál hér til afgreiðslu til 2. umr.

Það eru viss efnisatriði sem ég vildi spyrja hv. formann nefndarinnar svolítið nánar um og sem ég sannarlega sakna af þeim tillögum sem lágu fyrir af hálfu tóbaksvarnanefndar en felld voru niður af hæstv. ráðherra áður en málið var lagt fyrir þingið sem stjfrv. og að mér er tjáð fyrir forgöngu sérstaklega þingflokks Sjálfstfl. eða athugasemda sem komu úr þeirri átt. Þar á ég við þá tillögu sem hafði legið fyrir af hálfu þeirra sem mótuðu frv. upphaflega að hækkað skyldi verð á tóbaki í áföngum allverulega sem lið í forvarnastarfi. Að þessu er vikið í nál. heilbr.- og trn. Það er í framhaldi af því að gerð er tillaga um að verja 0,7% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs í stað 0,4%. Ef ég man rétt þá held ég að upphaflega hafi verið lögð til hærri upphæð af hálfu tóbaksvarnanefndar. Ég tel hins vegar að þessi tillaga hér um hækkun sé mjög góðra gjalda verð af hálfu nefndarinnar og þakka fyrir það. En síðan segir varðandi það atriði sem ég var að minnast á, með leyfi forseta:

,,Einnig var rætt um það í nefndinni hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnaskyni en tæknilega er það mjög erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs. Engin tillaga er því flutt af nefndinni um það.``

Virðulegur forseti. Mér finnst þessi afgreiðsla af hálfu nefndarinnar og rökstuðningur í frv. ansi léttvæg, að það sé stiklað mjög létt á þessu sem er geysilega þýðingarmikið atriði. Það breytir engu á hvern er vísað af hálfu formanns heilbr.- og trn. í því sambandi. Það er, virðulegur forseti, ekki hægt að stökkva yfir það svo auðveldlega að ekki sé hægt að breyta gjaldtöku eða álagningu eða verði á vörum vegna þess að það komi inn í vísitölu neysluverðs. Hvernig ætla menn að halda á þeim málum, t.d. í sambandi við gjöld sem eiga að vera liður í umhverfisstefnu ef hægt er að vísa því frá með tilvísun til þess að þetta hækki neysluverð og breyti vísitölu. Mér finnst það vera hliðstætt því sem hér er um að ræða að haga álagningarstefnu með tilliti til þess sem æskilegt er talið vegna forvarna. Ég tel að þessi verðlagningarstefna sé það atriði sem mest eftirsjá er að af því sem á vantar að fylgt sé tillögum tóbaksvarnanefndar. Ég heyri það ekki aðeins hér heldur mjög víða í umræðunni um þetta að það er tekið undir þetta sjónarmið, þ.e. að það sé mjög eðlilegt að hækka verð á þessu fíkniefni sem tóbakið er. Ég bið um nánari skýringar á þessu atriði.

Nú þekki ég þessa lönguvitleysu varðandi áhrif verðlags á tóbaki og reyndar áfengi líka á vísitölu. Þetta varð notadrjúgt umræðuefni í tíð ríkisstjórna á árunum 1978--1983. Þá var vísitölubindingin iðulega til umræðu vegna áforma sem uppi voru um að hækka raunverð á þessum vörum og í sambandi við uppbyggingu vísitölunnar. Upp komu hugmyndir um það á þeim tíma að kippa þessu út. En þær mættu mikilli andstöðu af hálfu þeirra sem voru neytendamegin í þessu máli, verkalýðshreyfingarnar ef ég man rétt á þessum tíma. Það voru fáir sem botnuðu í þeirri speki sem þarna var haldið á lofti. Ég tel að þetta séu ekki næg rök. Ef málið liggur þannig að ekki er hægt að breyta verðlagningarákvæðum verður að taka á grunninum og þá væntanlega að taka með öllu þessar vörutegundir út úr viðmiðuninni í útreikningi, sem er ákvörðun út af fyrir sig. En það þarf auðvitað að taka sjálfstæða ákvörðun um það. Mér er það fyllilega ljóst.

Þetta finnst mér vera eitthvað sem verulegu máli skiptir í þessu sambandi. Það er ekki hægt að afgreiða þetta, virðulegur forseti, með því að þetta sé tæknilega mjög erfitt. Þetta er stefnumarkandi atriði. Þá þyrfti nefndin að fjalla um það ef henni fyndist réttmætt að afnema þessa tæknilegu hindrun. Er það álit manna að ekki megi beita verðlagningarákvæðum, hækka raunverð á ákveðnum vörutegundum? Hæstv. heilbrrh. er kominn hér og ég spyr hæstv. ráðherra jafnframt um hans álit á þessu. Er það skoðun manna að það sé ekki kleift ef það snertir þennan vísitöluútreikning? Þetta var á góðu máli hér fyrr á tíð, virðulegur forseti, kallaður var óþarfi. Tóbak, áfengi og svoleiðis var gjarnan kallaður óþarfi á kurteislegu máli til sveita þar sem ég ólst upp. Er það virkilega þannig að það eigi bara að setja það til hliðar og útiloka að hægt sé að breyta verðlagningu á þessum óþarfa vegna þessara tæknilegu hindrana? Hvernig ætla menn að halda á málum í sambandi við umhverfismálin og umhverfisgjöld sem svo eru kölluð? Formaður heilbr.- og trn., framsögumaður nál. og tillagna nefndarinnar, þekkir nú þau mál sem fyrrverandi ráðherra umhverfismála. Mér finnst þetta í rauninni vera náskylt.

Þetta er það veigamesta sem ég kem að hér, virðulegur forseti. En ég kemst ekki hjá því að víkja aðeins að öðrum þáttum og þá því sem framsögumaður nefndarinnar tengdi við minn málflutning sem varðar brtt. við 5. gr. og er sett fram undir b-lið, tölul. 3 í breytingartillögu nefndarinnar varðandi þá áætlun sem forstöðumönnum annarra stofnana en upp eru taldar í 5. gr. er ætlað að gera. Ég lýsi ánægju minni með það að þetta er hér fram sett og það skiptir mjög miklu máli. Ég skal ekki taka afstöðu til þess eða vera að agnúast út í það þó gert sé ráð fyrir því hér að heimilt sé að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar innan stofnana. En ég vil aðeins nefna það að mér finnst þetta afdrep viss ljóður á tillögunni. Það er nú svo að menn láta sig hafa það í löndum og ég held að það hafi verið nefnt við 1. umr. málsins, að vera ekki með þannig tilhliðranir heldur leyfa mönnum að fara þá út fyrir dyr, út fyrir hús, til að reykja. Svona svipað og gert var að skyldu þegar ég kom í Menntaskólann á Akureyri. Þar fóru menn ekki aðeins út fyrir hússins dyr heldur út fyrir lóðarmörk þeir sem stunduðu það í harðviðrum þar norður á Akureyri. Var það auðvitað gert með það í huga að gera mönnum þetta erfiðara þó einnig kæmu eldvarnarrök inn í það mál.

[15:00]

Vestur í New York eru mjög þekkt dæmi þar sem menn sjá á köldum vetrardögum sem hlýjum sumardögum að menn standa þar á Manhattan norpandi í kulda á gangstéttum utan við skýjakljúfa vegna þess að það er ekki heimilt að reykja þar innan dyra. Ég nefni þetta hér en ég mun ekki flytja breytingartillögu við þetta og tel að það sé fengur að megintillögu nefndarinnar um þetta efni.

En eitt vil ég síðan nefna, virðulegur forseti, að mér finnst nokkuð á skorta búning bæði nál. og brtt. af hálfu nefndarinnar, þ.e. hvernig það er fram sett á máli sem á að teljast íslenskt væntanlega. Ég kemst ekki hjá því, virðulegur forseti, að vekja aðeins athygli á því og vona að það verði ekki talin meinbægni af minni hálfu að gera það. Þar kem ég þá að nál. fyrst og tölul. 1 í nál. þar sem fjallað er um auglýsingar í skilningi laganna og eru hafðar uppi útskýringar í talsverðu máli á þeim efnum. Ég verð að segja það bæði varðandi nál. og eins breytingartillöguna hvað það snertir þá finnst mér þetta vera sett fram á heldur flóknu og um leið óskýru máli þannig að bæði nál. sem og breytingartillögurnar verða svona heldur óskýrar nema leggjast þeim mun dýpra í að rýna í textann. Þá kann að vera að hægt sé að fá vit út úr þessu.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna hér dæmi. Það segir hér í þriðju línu að neðan eftir að vikið hefur verið að vörumerkjum, Camel, með leyfi forseta:

,,Sama gilti um allar vörur sem seldar væru undir auðkennum hefðbundinna tóbaksvörumerkja.``

Notkun sagnarinnar að gilda er þarna svona með tvíræðum hætti en látum það nú vera. Framhaldið er:

,,Með orðalaginu ,,hefðbundin tóbaksvörumerki`` eru einnig tekin af tvímæli um að heimil skuli óheft notkun vörumerkja sem þekkt eru fyrir óskylda framleiðslu en tóbak er nú selt undir.``

Mér finnst þetta afskaplega óljós texti svo ekki sé meira sagt. Síðan segir: ,,Dæmi um slík vörumerki eru Cartier og Yves St. Laurent. Sérstök athygli er vakin á því að þær takmarkanir sem eru á auglýsingum á tóbaki samkvæmt lögunum ættu að koma tryggilega í veg fyrir landnám nýrra tegunda af tóbaksvörum undir vörumerkjum sem þekkt eru fyrir annað en tóbaksvörur, eins og þeirra tveggja sem áður eru nefnd.``

Það þarf aldeilis að leggjast djúpt til að átta sig á hvert hér er verið að fara. Það getur verið að þeim sem hafa unnið að málinu í nefndinni sé þetta dagljóst en fyrir þann sem hér talar var þetta ekki alveg skýrt þegar lesið var. Ég stansaði í miðri málsgrein en síðan kemur:

,,Í 3. tölul. er lagt til að umfjöllun um einstakar tóbakstegundir verði óheimil nema ljóst sé að hún verði beinlínis til þess að koma á framfæri upplýsingum sem eru fallnar til þess að minnka skaðsemi tóbaksneyslu.``

Ég skal ekki þreyta viðstadda með því að vitna frekar í nál. en mér finnst hér ekki vel á penna haldið. Ég vil hins vegar taka undir það sem segir í lok þessa töluliðar í nál. þar sem segir: ,,Loks vill nefndin minna á að ákvæði tóbaksvarnalaga um bann við auglýsingum á tóbaksvörum og skráningu viðvarana á þær gilda einnig í fríhöfnum landsins og ber að framfylgja þeim.`` Þetta er atriði þar sem greinilega er ekki farið að eðlilegum reglum og ég held að ég hafi vakið athygli á því við umræðuna.

Síðan vil ég vekja athygli á síðustu málsgreininni á bls. 2 í nál. sem fellur undir þessar málfarslegu athugasemdir. Ég kann því heldur illa að enda málsgreinina á smáorðinu ,,að``. Ég tel að því hefði gjarnan mátt öðruvísi fyrirkoma. En ég skal ekki bæta þar við. Þetta er aðeins hvatning til þess að reyna að ganga þannig frá texta að sem ljósast sé þeim sem ekki eru alveg inn í málinu a.m.k. hvert verið er að fara. En síðan koma brtt. sjálfar, virðulegur forseti. Ég hefði átt að vera búinn að fletta upp í orðabók orðinu ,,útstilling`` en einhvern veginn hnýt ég svolítið við þegar ég sé það í lagatexta. En það kann að vera að það sé viðtekið og þyki ekki stílbrot að nota það hér eins og gert er undir tölul. 1 í brtt. við 2. gr. Síðan segir í tölul. 2: ,,alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti.``

Þarna eru tillögumenn að stytta sér leið með því að vísa í auglýsingatakmarkanir. Það kann að vera að þetta verði ljóst þegar farið er yfir greinina í heild en mér fannst þetta ekki mjög skýrt. Síðan vil ég benda á, virðulegur forseti, að í brtt. við 5. gr. segir um b-liðinn sem er að efnisinnihaldi ágætur:

,,Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000. Innan sérhverrar stofnunar skal þó heimilt að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar.``

Virðulegur forseti. Ég sé að hv. formanni heilbr.- og trn. þykir þetta heldur leiður lestur á að hlýða en ég hlýt að gera athugasemd við það að setja tillöguna upp með þessum hætti og vil hvetja nefndina til að endurskoða það einfaldlega út frá málfari. Því tilvísunin þarna ,,stofnunar sem kemur til framkvæmda`` vísar til stofnunar en ekki áætlunar sem efnislega er þó ljóst að það ætti að taka til. Þegar talað er um fyrir lok ársins 2000 hefði ég talið betur fara að tala um í lok ársins 2000 eða nota sem sagt aðra forsetningu. Þetta voru fáeinar athugasemdir sem varða framsetningu á tillögum og ég bið forláts að ég hef tekið tíma til að vekja athygli á þessu. En mér finnst það skipta miklu að fá þessi álit með sem skýrustum hætti að ekki sé talað um beinar breytingartillögur við lögin. Síðan íteka ég það sem ég sagði varðandi verðlagningarstefnuna og vænti þess að framsögumaður nefndar og eftir atvikum hæstv. ráðherra tjái sig um það efni.