Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 15:23:28 (6266)

1996-05-18 15:23:28# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[15:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir viðbrögð hans við mínu máli. Ég skal ekki vega frekar í málfarið sem slíkt. Ég nefni bara vegna lagatextans að það eru ábendingar af minni hálfu hvort ekki væri rétt fyrir nefndina að láta endurskoða framsetninguna í b-lið 3. tölul. til að gera hana skýrari. Ég læt mér koma til hugar að þetta mætti orða þannig: Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar og kemur áætlunin til framkvæmda í síðasta lagi árið 2000. Þetta er tilraun til að gera þetta ljósara og nýta með þeim hætti sem eðlilegur gæti talist tilvísunina sem þarna er fyrir í þessu.

Þetta átti, virðulegur forseti, að vera andsvar af minni hálfu, var hugsað sem slíkt. Ég mun nota það form þótt klukkan tifi ekki. Ég ætlaði mér ekki að halda hér fleiri ræður um þetta mál og síst af öllu að tefja afgreiðslu þess því ég ber mjög fyrir brjósti að málið fái nú loks lögfestingu hér í þinginu. En ég vildi spyrja um eitt atriði sem varðar í raun 5. gr. og ákvæði hennar en kann þó að leynast í öðrum greinum, ég hef ekki varið yfir frv. í heild. Það varðar reykingar í almenningsfarartækjum, þ.e. í rútum sem svo eru kallaðar eða langferðabifreiðum og í leigubílum. Ég hef veitt því athygli að það virðist vera háð vilja viðkomandi bifreiðastjóra, t.d. í leigubílum, hvort hann heimilar reykingar í bifreið sinni eða ekki. En það er til verulegs angurs fyrir notendur vegna lyktar. Ég hefði talið að á þessu atriði þyrfti að taka einfaldlega til eðlilegs samræmis við þá stefnu sem í lögunum felst. Mætti e.t.v. athuga þetta mál ef nefndinni fyndist ástæða til að líta á þetta atriði milli umræðna.