Spilliefnagjald

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:57:29 (6289)

1996-05-20 17:57:29# 120. lþ. 142.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:57]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er dálítið sérstakt að það skuli ekki vera hægt að fá frekari viðbrögð af hálfu stjórnarliða í þessu máli. Þeir eru búnir innan umhvn. að kljást um þetta í heilan mánuð og reyndar vel það, deila um þetta sín á milli svo harkalega sem raun ber vitni. Málið var fast í nefndinni þótt þar væri komin á að við héldum full sátt. Og nú er ekki hægt að toga eitt einasta orð upp úr mönnum um það hvernig þeir ætli að höggva á þarna gordíonshnút sem þarna var riðinn á milli aðila. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en hæstv. umhvrh. taki til máls við umræðuna. Hæstv. ráðherra sem situr í hliðarsal og fylgist með virðist vera ófáanlegur til að láta heyra frá sér um það hvernig hæstv. ráðherra ætlar að halda á þessu máli.

Ég átta mig á því að hæstv. ráðherra er í talsverðum vanda í þessu efni og við ætluðum satt að segja með þessari tillögu okkar í minni hluta umhvn. og þeir fjórir sem að tillögunni standa að aðstoða hæstv. ráðherra þannig að hann sæti ekki uppi með þennan kaleik. Það er hins vegar alveg ljóst að stjórnarflokknum, sem ræður ferðinni í flestum greinum í stjórnarsamstarfinu, Sjálfstfl., hefur tekist að koma því þannig fyrir að það má alls ekki nefna í sambandi við þetta mál nafn Vinnumálasambands samvinnufélaga. Það er algert bannorð að það fái að heyrast, hvað þá heldur sjást á prenti. Hæstv. ráðherra gæti kannski átt einhvern stuðning fyrir því sjónarmiði að það væri ekki algert bannorð hjá öðrum fulltrúum í nefndinni. Enda væri þá á það fallist að Neytendasamtökin fengju einnig pláss við þetta borð. Ég tel útilokað að við ljúkum þessari umræðu án þess að hæstv. ráðherra taki til máls og lýsi sínum viðhorfum til málsins.

[18:00]

Það vekur hins vegar athygli að flokkurinn sem ræður ferðinni í stjórnarsamstarfinu, Sjálfstfl., og fer með Framsfl. eins og honum hentar í flestum málum, sér ekki ástæðu til þess að hafa neinn fulltrúa sinn úr umhvn. viðstaddan í þessari umræðu, ekki einu sinni þann öfluga talsmann Sjálfstfl. í nefndinni, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, sem hefur komið inn í umhvn. að ég held þrívegis í vetur og sést í nefndinni. Hann þurfti ekki að koma nema í þriðja sinn til að múlbinda framsóknarmenn þannig að þeim hefur ekki dottið í hug að bera sér í mun nafn Vinnumálasambands samvinnufélaga eftir að hv. þm. kom þar í þriðja sinn og upplýsti að það væri algert bannorð í sambandi við þetta mál og þó að fleira kæmi þar upp á borðið, ef það tengdist þeim samtökum þá væri hann ekki lengur til viðtals. Og þetta nægði alveg. Nú bíðum við eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. fái málið og greini þinginu frá því sem hæstv. ráðherra hlýtur að vera búinn að móta með sjálfum sér, þ.e. hvernig hann hyggst nota vald sitt í tengslum við stjfrv. ef það gengur fram eins og tillögur meiri hlutans gera ráð fyrir. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra bregði sér hingað í stólinn og greini þingheimi frá þessu. Það er alveg óhjákvæmilegt að þingheimur viti hvað hæstv. ráðherra hefur í huga áður en gengið er til atkvæða í þessu mikilvæga máli.